6.1.2008 | 15:23
Rífum morgunblaðshöllina!
Einhvern veginn svona munu hvatningarorð hljóma meðal íslenskra borgara eftir um tvo áratugi þegar að húsið við Ingólfstorg verður álitinn orðinn kumbaldi einn, þar sem hýst hefur verið svo fjölbreytilegri starfsemi í gegnum tíðina að lítið sé orðið eftir af upprunalegu sixties/seventies looki hennar.
Morgunblaðshöllin skyggir á eina helstu perlu miðborgarinnar sem gerir húsasögu Reykjavíkur skil - Grjótaþorpið, sem einmitt tókst að bjarga á sínum tíma með virkum mótmælum borgara þegar stórvirkar vinnuvélar fóru að byggja hina sömu morgunblaðshöll og ryðja gömul hús á reitnum. Þetta munu væntanlega verða rökin!
Menningarlandslag. Borgarlandslag er og mun alltaf verða "palimpsest". Uppskafningur öðrum orðum.
Hugtakið er upprunnið í skrifum miðalda. Vísar til þess er sama skriftaflan var notuð oft án þess að vera þrifin almennilega á milli skrifta. Þannig mynduðust með tíð og tíma lög eftir lög af skrifum. Hugtakið er því notað sem myndlíking og stendur fyrir ferli breytinga á landslagi, þar sem notendur/ábúendur þess ,,skrifa í það/ laga það að sér án þess þó að eyða ummerkjum fyrri notkunar.
Það krefur okkur samt um að forgangsraða og eitt er víst að nýbreytni í borgarlandslaginu er nauðsynleg í bland við verndun gamalla mannvirkja.
Mér finnst rökin sem hníga að því að húsin á laugaveginum sem á að rífa eða flytja vegna þess að þar hafi hvort eð er í gegnum tíðina verið svo voðalega fjölbreytileg atvinnustarfsemi sem breytt hafi ásýnd húsanna, afar léleg rök.
Ef við hugsum um húsaröðina í heildstæðu samhengi þá eru það afar léleg rök, líka þegar við hugsum til annarra borga sem risið hafa uppúr öskustónni að miklu leyti vegna þess að gamlar hnignandi byggingar hafa gengið í gegnum endurnýjun líftíma með því að þau voru gerð upp og urðu þannig lifandi minjar í notkun.
Fréttamennska af málinu um byggingarnar er reyndar afar sérkennileg, faðir minn sem býr við Klapparstíg, benti mér á þetta. Hann sagði: Af hverju er verið að fela hverjir eru þessir lóðaeigendur sem ætla að byggja þarna hótel. Afhverju eru þeir ekki nafngreindir. Eru stjórnmálamennirnir í ráðhúsinu að ganga erinda þeirra?
Afhverju eru LÓÐAEIGENDURNIR aldrei spurðir hvaða hagsmuni þeir hafi og hverjar fyrirætlanir þeirra séu. Eru þetta einhverjir huldumenn?
Mér fannst þetta nú eiginlega svolítið góð spurning.
Meginflokkur: Stjórnmál og samfélag | Aukaflokkar: Menning og listir, Viðskipti og fjármál | Facebook
Athugasemdir
Mér líst ágætlega á hugmyndir frá einhverjum húsfriðunarmönnum um að lyfta húsunum við Laugaveginn sem nú er deilt um - byggja undir þau - nú eða byggja ofan þau eða aftan við þau - það var einhvers staðar mynd af þessu. Byggt var undir við húsið á suðvesturhorni Glerárgötu og Strandgötu hér á Akureyri með skínandi árangri; svo var til skamms tíma rekinn skínandi góður kínverskur veitingastaður sem kollegi minn nokkur með mikil tengsl við Kína fullyrti eitt sinn að væri einn sá besti (eða besti) kínverski veitingastaður í Evrópu.
Ingólfur Ásgeir Jóhannesson, 6.1.2008 kl. 19:04
Ef Moggahöllin fær að standa nógu lengi verður kannski barist GEGN niðurrifi hennar. Fannst þér ekki annars fyndið þegar Morgunblaðið fékk lóð í Hádegismóum? Út úr því má snúa á ýmsan góðan máta.
Ingólfur Ásgeir Jóhannesson, 6.1.2008 kl. 20:25
Sælir Ingólfur og Þrýmur
Ég er sammála þér Ingólfur, að það gæti nú verið svolítið fyndið ef að moggahöllin (við Ingólfstorg) yrði verndar-baráttumál í framtíðinni - en ég sjálf er mjög hörð á því að á miðbæjarþúfunni (og þá sértstaklega í Skuggahverfi) hafi nú í allmörg ár verið lögð of rík áhersla á að rífa og byggja nýtt. Áformin með laugaveginn vekja líka með mér áhyggjur. Nú er mál að linni í bili. Ég er ekki hrædd við nýbyggingar en finnst undanfarið hafi byggingarverktakar farið talsvert fram úr sjálfum sér - mér finnst bara að Reykvíkingar hafi í gegnum tíðina farið hina amerísku leið í of miklu mæli. En það er líka margt sem er bragarbót af, enginn spurning. Ég vil endilega að þessum húsum verði þyrmt, og það á svæðinu. haha, jú hádegismóar er fyndið heiti yfir nýju staðsetningu morgunblaðsins - sammála því.
Anna Karlsdóttir, 6.1.2008 kl. 22:56
Ætla að bæta við að ég mæli með lestri bókarinnar Geography of nowhere en þar er einmitt fjallað um sálarleysi amerískra borga (sem m.a er einmitt afleiðing of ríkrar áherslu á nýbyggingar með of lítilli virðingu fyrir sögulegri arfleifð).
Anna Karlsdóttir, 6.1.2008 kl. 22:58
Það eru littlar líkur á því að einhverntímann verði barist gegn niðurrifi Moggahallarinnar nema að hún verði enn standandi þarna eftir 1000 ár, fyrir því eru tvær ástæður.
Í fyrsta lagi er morgunblaðshöllin skipulagsslys, byggð í megalomaníu þess tíma þegar að það stóð til að afmá allar byggingar innan Hringbrautar. Verst er þó að skipulagsslysið hefur verið fest enn meira í sessi með 2 nýlegum byggingum sitt hvorum megin við það.
Í öðru lagi er arkitektúrinn lítils virði hvernig sem á það er litið. Framhliðin er búin til með stöðluðum verksmiðjuframleiddum einingum. S.s nokkurskonar verktakaarkitektúr síns tíma.
Stundum vill fólk misskilja baráttu fyrir eldri húsum þegar það túlkar það þannig að aldur bygginga sé aðalatriði og þar af leiðandi verði 50 ára gamlar byggingar jafn verðmætar eftir 50 ár og 100 ára gamlar byggingar eru í dag. Þetta er ekki alveg svo einfalt. Það urðu ákveðin straumhvörf í byggingarlist á 20 öldinni. Byggingar eins og byggðar voru fyrir 100 árum eða meira verða aldrei gerðar aftur. Handverkshefðin sem þróast hafði í 2000 ár eða lengur varð skyndilega úrelt. Því er mikilvægt að um þær gildi akveðin íhaldssemi þegar að kemur að spurningunni um niðurrif eða ekki á þetta gömlum húsum.
50 ára gamlar byggingar tilheyra hins vegar nútímanum. Þær eru allar sem ein barn síns tíma. Það má segja að við lifum á bernskudögum nýrrar gerðar af byggingarlist.
Torfusamtökin , 7.1.2008 kl. 01:31
Takk fyrir þetta innlegg. Það er raunar mjög auðvelt að misskilja baráttu fólks fyrir eldri húsum þareð viðmið húsafriðunarnefndar byggjast fyrst og fremst á aldri síðan hinu. Mér finnst þetta athyglisvert að við séum enn á bernskudögum húseininga. Og sammála er ég slík hús eru að öllu jöfnu minna spennandi til verndar en þar sem verulegt handverk liggur að baki. Afi minn og amma (fósturforeldrar föður míns) bjuggu við Vitastíg 9a, foreldrar afa míns byggðu húsið. Þau fluttu á mölina úr Þykkvabænum og undan eyjafjöllum. Ung blaðakona keypti það eftir að afi minn dó á tröppunum eftir daglegan hjólatúr sinn. Hún gerði húsið upp enda þarfnaðist það þess. Það er port inn af Vitastíg 9a. Þar eru verkskúrar, bæði til að gera við hjól, þar er geymsla og gamalt þvottahús. Við húsið var (ég veit ekki betur en að blaðakonan unga hafi tekið það niður) lítill kartöflugarður innrammaður grindverki. Svona tilhögun húsarýma tilheyrir fortíð Reykjavíkur, absolut - en ég græt úr mér hjartað þegar að Björgúlfur bankastjóri lætur rífa húsið sem lið í endurbyggingu laugavegsreitarins (ég veit ekki betur en að hann eða menn á hans vegum hafi keypt alla húsaröðina frá laugavegi niður að hverfisgötu þar sem landamæri bankabyggingarinnar liggja.
Mér finnst sárt að sjá Reykjavík deyja á þennan hátt.
Anna Karlsdóttir, 7.1.2008 kl. 10:32
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.