7.11.2007 | 19:01
Matur er manns megin
Dagurinn í gær var helgaður vangaveltum um matvæli. Ég skellti mér á fundinn um hækkandi matvælaverð í gær. Þar deildi Martin Haworth með hlustendum ákveðinni heimsýn á þróun matvælaverðs og áhrif á matvælaframleiðslu í landbúnaði vegna hnattrænnar hlýnunar, hækkandi eldsneytisverðs, þverrandi vatnsauðlinda og breyttra gilda neytenda. Í kjölfarið var áhugaverð umræða. Salvör Jónsdóttir landfræðingur (hún kallar sig skipulagsfræðing en er í grunninn landfræðingur) vakti athygli á einhæfum fókus fólks á eldsneyti og taldi að stundum léti fólk sig meira varða hvað það mataði bílinn sinn með en hvað færi ofan í börnin. Daði Már kom inn á tilgátu Martins um að hækkandi gróffóður-verð myndi og hefði þegar áhrif á kjötverð. Það var rætt svolítið um ófarir í landnotkun (eftirspurn eftir kaupum á landi óháð landnotkun). Salvör hefur mjög ákveðnar skoðanir hvað það varðar þróun á frístundabújörðum. Ég er sammála henni, þetta er óæskileg þróun í miklum mæli. Þetta er hreinlega ekkert annað en úthverfavæðing í sveit. Ég hef þó skipt um skoðun. Þegar ég var að byggja upp umhverfisskipulagið á Hvanneyri í den fannst mér þetta hreint ekki galin hugmynd. En síðan hefur jarðaverð margfalt hækkað og orðið til að gera landbúnaðinum erfitt fyrir. Stjórnvöld hefðu þurft að taka þann pól í hæðina að eignaskipti í landbúnaði skilyrtu ákveðna landbúnaðarframleiðslu. Því fæðuöryggi verður ekki ofmetið (þó við munum alltaf vera háð innflutningi ákveðinna landbúnaðarafurða).
Það sem ekki var talað um og ég saknaði aðeins í umræðunni (en var þó ekki nógu fljót að snara í spurningu) var þróun í verðmyndun. Mér fannst hreinlega sorglegt að þeim spurningum sem beint var til fulltrúa verslunarinnar úr sal fengust lítil eða mjög loðin svör við. Ég er ansi hrædd um að þar kreppi skóinn og hafi gert lengi. Allar rannsóknir sem ég þekki til (Bandaríkin, Bretland, Frakkland) sýna að milliliðir eins og afurðastöðvar, innkaupa-aðilar, vinnslur og stórmarkaðir hirða stóran hluta arðsins, á meðan að sjálfur framleiðandinn situr eftir með rýrari hlut en áður. Einmitt þess vegna er svo mikilvægt að það verði vakning meðal bænda og matvæla-frumframleiðanda á að fara óhefðbundari markaðsleiðir - þó svo að það verði aldrei nein heildarlausn. Ég skrifaði víst grein um þetta árið 2001.
Ég fór síðan á fund með kokki mötuneytisins í grunnskólanum og við fórum yfir matseðil og matargerðaraðferðir, efni og innihald. Það var fróðlegur fundur sem gekk vel. Ég er í mötuneytisnefnd skólans ásamt fleiri foreldrum og við höfum verið að gera úttekt á mötuneytismálum nokkurra grunnskóla á höfuðborgarsvæðinu. Þetta er mismunandi. Það er gæði matarins sem börnin okkar fá í skólunum. En við megum heldur ekki gleyma því að máltíðin kostar einungis 250.
Maturinn dýrari á morgun | |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Athugasemdir
Ég get alveg hugsað mér að samfélagið leggi meira til skólamötuneyta til að maturinn þar verði sem hollastur og lystugur að auki. Ég heyrði viðtal við Salvöru um daginn um búgarðabyggðirnar og þann kostnað sem samfélagið ber. Fæðuöryggi: Þetta er aftur á móti eitthvað sem ber ekki strax árangur eins og þegar stjórnmálamenn vilja nú leggja fram fé til "varnarmála". Eina skiptið sem ég veit til að ameríski herinn hafi varið landið var þegar heyrúllur voru fluttar í Dimmuborgir í þyrlu fyrir nokkrum árum, til að varna því að sandurinn fyki norðar í borgirnar!
Ingólfur Ásgeir Jóhannesson, 11.11.2007 kl. 09:02
Haha. Já ég hugsa það hefði verið hægt að skilgreina það sem "mannlegt öryggismál". Þegar ég tala um fæðuöryggi er ég líka að hugsa um þekkingu á matvælaframleiðslu sem óumdeilanlega er meðal bænda sem rækta jörðina. Ég átti mjög gott viðtal, þó allt of stutt væri, í sumar við gulrótarbóndann á Akurseli í Öxarfirði. Hann er að rækta gulrætur (mínar uppáhalds) á söndunum og þar er jarðhiti. Hann býsnaðist yfir þingeyingunum sem að sæu ekki nefu sínu nær en að fá álver á Húsavík en væru gjörsamlega ekki að gera neitt í öllum þeim möguleikum sem gætu legið í að rækta t.d hollt grænmeti af ýmsu tagi í kringum hann. Einhvern veginn held ég að við séum að fara á mis við marga hluti þegar við byrjum að einblína á pakkalausnir í byggðaþróun. og Takk fyrir síðast, það var gaman að hitta þig in persona.
Anna Karlsdóttir, 11.11.2007 kl. 23:54
Það virðist svo hjá álverssinnum að öllu öðru sé stefnt gegn álverinu. Kannski verður þörfin fyrir fjölbreytni enn þá meiri verði byggt álver meðan hin "afleiddu" störf eiga að leysa allan vanda. Jú, og vissulega er um ólíkar leiðir að ræða og hætta á að margvísleg starfsemi blæði, ekki bara ímyndin og hollustan, en líka efnahagsgrundvöllurinn þegar gripið er inn í eðlilegri eða sjálfbærari efnahagsferli - ef eitthvað svoleiðis er þá til. Nýlega "fann" ég grein sem ég skrifaði 1991 um samkeppni Kísiliðjunnar við vinnuafl til ferðaþjónustu, eitthvað sem ég þóttist finna og sjá. Sama er til umræðu í dag sem afleiðing álstefnunnar þegar fólk fæst ekki til margvíslegra starfa þar sem borguð er lág laun og laun í meðallagi. - Sömuleiðis takk fyrir síðast
Ingólfur Ásgeir Jóhannesson, 12.11.2007 kl. 08:00
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.