25.9.2007 | 22:16
Schwartzenegger, Jena6, Ahmadinejad og O.J.
Fjölmiðlar hér vestra eru fullir af umfjöllun um bæði fyrirmenn og skúrka. Allar fréttir eru fullar umfjöllun um ræðu Ahmadinejad í Kólumbiaháskólanum í gær. Mikið hefur verið gert úr mismæli hans (að eigin sögn) á staðhæfingu um að ekki væru samkynhneigðir í Íran. Einræðisherrann brosir þó sínu breiðasta í myndavélarnar (hann veit sem er, að sviðsljósið er mikilvægt). Íran er ekkert lýðræðisríki þar er internetumferð undir miklu eftirliti stjórnvalda (eins og í Kína og fleiri stöðum), þar er tjáningarfrelsi ekki í hávegum haft, ætti því einhverjum að koma á óvart að minnihlutahópar og samkynhneigðir séu heftir?!
Bush er í svo mikilli vörn gagnvart Vesturlöndum vegna loftslagsmála og mengunar aðgerðaleysis að hann sendi flokksfélaga sinn Schwartzenegger á fund þjóðarleiðtoga hjá Sameinuðu þjóðunum í New York. Forsetinn er stoltur af aðgerðum hans í Kaliforníufylki, var haft eftir honum í blöðum hér. Hann ætlar því að sýna auðmýkt og mæta einungis í galakvöldverð þjóðarleiðtogana.
Það er rétt og að nokkru athyglisvert að Schwartzenegger og aðrir fylkisstjórar í vestri og austri (mið- og suðurríki eru alveg apatísk í umhverfismálum) hafa tekið frumkvæði að aðgerðaáætlunum í umhverfismálum, vegna frustrationa yfir því hvað stjórn Bush yngri hefur verið með allt á hælunum. Hér er því að hægt að tala um bottom-up approach, ef svo má að orði komast. Eða Bandaríki ríkjanna (eins og Evrópa svæðanna). Eftir því sem ég best veit er Kalifornía með eigin útblástursviðmið, í Massachussets er verið að fara að taka upp koltvísýringsskatta og svo mætti lengi telja (hvenær ætli Montana taki upp Methan skatt af blessuðum beljunum?)
O.J.Simpson, uppáhaldsskúrkur þjóðarinnar er búin að vera mikið í fjölmiðlum vegna vopnaðs ráns, sem ég satt best að segja hef ekki nennt að setja mig inn í . Ég horfi bara á líkamstjáningu fréttamanna og átta mig á að enginn þolir þennan mann hér.
Á meðan hefur ýmislegt merkilegt verið að gerast. Í litlum bæ Jena í Louisiana við menntaskóla sem enginn hafði heyrt um áður, varð uppi fótur og fit fyrir hálfu ári þegar að þeldökkir skólabræður mygluhvítra drengja spurðu hvort þeir mættu standa með undir tré sem var hangs-staður hinna hvítu í skólanum. Þeir játtu því, en daginn eftir var búið að setja upp táknrænar hengingarólar i sama tré. Skólayfirvöld brugðust við og felldu tréð og vísuðu meintum sökudólgum úr skóla. Hálfu ári síðar urðu áflog þar sem einn hvítra nemenda var barinn til óbóta. Sex þeldökkir drengir voru handteknir og sakaðir og dæmdir fyrir morðtilraun. Nú eru að verða 40-50 ár síðan að kynþáttamálin voru í brennidepli síðast her í landi. Þúsundir ameríkana allstaðar að flykktust til Jena bæjarins til að mótmæla kynþáttabundnu óréttlæti. Það er skemmst frá því að segja að ameríkanar eru mjög skeptískir á eigið dómskerfi, ekki síst vegna tilburða forseta landsins til að pólitísera dómstóla á síðustu kjörtímabilum. Það var þetta sem fyllti mælinn. Blaðamenn voru í sjöunda himni, loks eitthvað almennilegt að segja frá.
Hér í Alaska er líka fjör. Það stendur yfir dómsmál yfir Kotts fyrrum þingmanni fylkisins (og fylkisstjóra) sem virðist hafa hagað sér eins og vitsmunalegur dvergur í embætti. Hann á að hafa þegið mútur frá VECO, stóru verktakafyrirtæki í olíunni og í áraraðir hagað pólitískum málstað sínum eftir hagsmunum, seðlum,áfengi og ýmiskonar sukki frá fyrirtækjum. Hann var semsagt engan veginn fulltrúi almennings eða kjósenda, fremur gráðugur grís með siðblindu á háu stigi. Ég skil ekki hvernig svona fólk getur komist til valda og fær að sitja í áraraðir.
Ég er endalaust að segja samstarfsfólki mínu fréttir, en það virðist enginn nenna að horfa á fréttir hér. Ekki einu sinni háskólafólk. Það láta sig fáir hér sig varða fréttaflutning, nema háskólanemar og einstaka sérfræðingar. HUMM - Krufl, krufl!
Flokkur: Stjórnmál og samfélag | Facebook
Athugasemdir
Þeir eru margir "Kotts" á Íslandi ef vel er að gáð. Skemmst er nú að minnast tveggja framsóknarmanna sem sátu hér við völd í skjóli Sjálfstæðisflokksins og nýttu sér aðstöðu sína svo um munaði.
Eigðu góða daga þarna úti.
Níels A. Ársælsson., 25.9.2007 kl. 23:53
Já, spilling í stjórnmálum virðist vera mjög viðloðandi. Því hefur verið haldið fram að þjóðríkið og þarmeð þjóðaryfirvöld eigi undir högg að sækja vegna þess að völdin hafi færst í hendur stórfyrirtækja. Hér sé um almenna þróun að ræða á vesturlöndum þar sem markaðsbúskapur ríkir. Stjórnmálamenn eiga að vera hagsmunaverðir almennings, til þess eru þeir kosnir, þess vegna flækjast þeir í neti hagsmunaaðila eins og stórfyrirtækja sem vilja hafa áhrif á þau til að beita áhrifum sínum. Það er auðvitað rakið, að slík fyrirtæki eru í mun betri fjárhagslegri og þarmeð valda aðstöðu en meðal vísitölufjölskylda til að beita áhrifum sínum og fleka veiklundaða stjórnmálamenn. Á Íslandi ríkir enn forræðishyggja valdsins að því leyti að stjórnmálamenn sem verða uppvísir um vafasama starfshætti fá yfirleitt að sitja. Við skerum okkur verulega úr öðrum löndum hvað þetta varðar, og að því leyti erum við lík írönum.
Anna Karlsdóttir, 26.9.2007 kl. 18:47
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.