Sannfæring um óstöðugleika - hver hefur völdin í fjármála og viðskiptastefnu?

Var að hlusta á Vilhjálm Bjarnason útskýra afhverju íslenska krónan væri ekki lengur eftirsóknarverður gjaldmiðill í íslensku viðskiptalífi. Kjarni máls hans var að íslenska krónan væri orðinn leiksoppur spákaupmennsku. Eins og ég held stundum að Vilhjálmur sé fljótfær í ályktunum held ég raunar að hann hafi svolítið á réttu að standa nú. Þetta hlýtur að eiga sérstaklega við þegar að sífellt fleiri fyrirtæki færa uppgjör sín yfir í evru. Þá eru það einstaklingarnir og meðalstór og lítil fyrirtæki, opinberar stofnanir og frjáls félagasamtök sem taka mið af krónunni og eru leiksoppar vaxtastefnu þeirra fyrirtækja sem velja að skrifa bókhaldið sitt í erlendri mynt.  Mér finnst þessi umræða að hluta til svolítið barnaleg þó. Við erum ekki fullgildir aðilar að Evrópusambandinu og því höfum við ekki boðskort inn í myntbandalagið getum við ekki breytt um gjaldmiðil sem þjóðríki. Það væri marklaust skref. Svo er annað að ekki er víst að við fengjum neitt boðskort inn í myntbandalagið þó við værum fullgildir aðilar að Evrópusambandinu. Þar myndi til dæmis ríkjandi vaxtastefna og stefna í ríkisbúskap standa okkur fyrir þrifum. Þetta snýst um hver hefur fjármálastjórnunarvöld í landinu. Ég er sannfærð um að það er af því góða að íslenskt viðskiptalíf hefur verið að opnast og að hagkerfið sé ekki eins gegnumsýrt af flokkspólitískum hagsmunum og áður gat gerst. Það breytir þó ekki því að stjórnvöld hafa hlutverk í að skapa ramma fyrir efnahagslífið þannig að fyrirtæki geti þrifist almenningi í landinu til hagsbóta. Mér sýnist svolítið að þetta hafi verið að taka á sig snúning að undanförnu. Nú vilja forstjórar stórfyrirtækja vera í hlutverki fjármálaráðherra, efnahagsráðgjafa ríkisins og seðlabankastjóra að því leyti að þeir vilja eiga síðasta orðið um fjármála- og vaxtastefnu ríkisins. Heima hjá mér væri talað um yfirgang, en það getur auðvitað verið að fólki finnist eðlilegt að stórfyrirtæki stjórni stjórnmálamönnum og ákvarðanatöku lýðræðislega kosinna fulltrúa almennings. Stjórnendur fyrirtækja sem vinna og starfa þvert á landamæri eða eru í útflutningi geta vissulega fært bókhald sitt í erlendum (yfirþjóðlegum) gjaldmiðli, og jú forsvarsmenn fyrirtækjanna okkar geta beitt stjórnvöld þrýstingi með því að ulla framan í yfirmenn stjórnvalda og gefa í skyn að þeir vilji ekki lengur vera memm af því að þeim finnist stefna stjórnvalda ekki hagstæð fyrir sig. En mér sýnist að í landvinningum sínum og yfirtökum á öðrum fyrirtækjum erlendis séu þessi sömu fyrirtæki að díla við allskyns þröskulda og yfirfærslur (bæði í menningarlegum, viðskiptahefðalegum og fjármálalegum skilningi) og sem verður grundvöllur að hæfileikum þeirra í samkeppni og starfi. Ekki setja þau það fyrir sig, eða hvað. Aðdáun samstarfsbræðranna byggist einmitt á hæfni þessara sömu einstaklinga til að klífa yfir þessar hömlur. 

Ég held að við séum svo heppin að eiga snjalla kaupsýslumenn (hver hefði trúað því fyrir 20 árum?). Sumir eru kaldrifjaðri en aðrir, sumir snjallari í refskák, aðrir hugmyndaríkir osfrv...en það er staðreynd að enginn þeirra er lýðræðislega kjörin af almenningi með kosningarétt til að fara með fjárreiður ríkisins.

Viljum við sem þjóð hlýta einhlýtri fjármálastjórn stórfyrirtækja?


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband