Glæsileg Edinborgarhátíð!

Jæja þá er ég komin heim eftir eftirminnilegt húsmæðraorlof/vinkonuferð í menningarborginni Edinborg. Við erum búin að sjá tónleika á heimsmælikvarða, leikhús og fjölleikasýningar og bíó og verðum næstu vikurnar að melta þessa andlegu næringu sem mun eiga þátt í að lyfta andanum og hægt er að lifa á vel fram á vetur.

Við fórum á fjórar leiksýningar þessa fáu daga sem við stöldruðum við. Sú fyrsta var Certified Male eftir Scott Rankin og Nicholas Rankin, sýning sem aðstandendur mæltu með fyrir konur og var mjög skemmtilegt verk. Stykkið var blanda af sketchum og söng (ég sá ekki hellisbúann en get ímyndað mér að þetta verk sé einhvers konar businessmanna-útgáfu af því).  Einn leikarana í sýningunni var þekktur úr breskum sjónvarpsmyndum, Les Dennis - en annars voru þeir allir mjög flottir.

Næsta sýning The Last South: Pursuit of the Pole unnin uppúr dagbókum heimskautakönnuða var áhugaverð. Leikararnir voru ekki af verri endanum; Adrian Lukis (þekktur úr pride and prejudice) og Jamie Lee (úr myndinni cold mountain). Þeir voru í hlutverkum Scott og Amundsen og stykkið var algjörlega fráhvarf frá líkamlegu leikhúsi og afturhvarf til handrits og leikupplesturs. Þetta var mjög dramatískt verk og saga en leikararnir sátu mestmegnis og lásu upp eða fóru með replikkurnar sínar. Það var ekki þurr hvarmur eftir sýninguna. Vel gert og áhrifaríkt og algjört nammi fyrir þá sem þekkja vel til sögu heimskautafaranna til suðurpólsins og afdrifa og örlaga þeirra.

Þriðja sýningin Traces var fjölleikahús, danssýning, sirkus, leikrit ofl. Fimm ungir fransk-kanadískir fjölleikamenn léku listir sínar í mjög hráu umhverfi. Þetta var einu orði sagt stórkostleg upplifun og ótrúlega listilega gert. Sýning þessi er margverðlaunuð og performerarnir eru allir fyrrum Circque de Soleil meðlimir. Þeir kalla sig Seven fingers. Andköfin sem áhorfendur tóku lýstu best stemningunni út í gegnum sýninguna. Ég mæli hundrað og fimmtíu sinnum með þessari.

Fjórða leiksýningin var Eurobeat - Almost Eurovision, breskt revíuleikhús þar sem hin vinsæla söngvakeppni evrópskra sjónvarpsstöðva var afskræmd og tekin fyrir. Þessi sýning var mjög fjölmenn og stemningin var pískuð upp, með plastklöppurum, fánum og áhorfendur skiptu um þjóðerni. Við vinkonurnar voru t.d gerðar að svíum. En sem betur fer voru bretar í kringum okkur sem höfðu verið gerðir að íslendingum svo við gátum hrópað og kallað með báðum þjóðum. Mjög hressandi sýning og afspyrnu-fyndin á köflum. Þetta er samkvæmt Örnu Kristínu vinkonu, menning hinnar bresku þjóðarinnar sem býr á bretlandseyjum, revíuleikhús sem er á mörkunum að vera lágkúrulegt og fullt af húmor og afskræmingu - svolítið eins og fótboltaleikur þar sem áhorfendur eru virkir hlutar sýningarinnar. Læt hér fylgja tilvísun, Just think live Eurovision Song Contest in sunny Sarajevo. Ten countries compete, and the audience votes for the winner! 'Dazzles with kitschy brilliance ... an epically delirious hoot!'

Við fórum á Bretlands-frumsýningu bandarísku kvikmyndarinnar The hottest state, gerð eftir bók sama nafns eftir bandaríska kvikmyndaleikarann Ethan Hawke (kannski frægastur fyrir að hafa verið giftur Uma Thurman). Leikararnir Mark Webb og Catalina Sandalina Moreno standa uppúr í þessari ljúfsáru sögu í túlkun sinni á aðalpersónunum. Tónlistin í myndinni var yndisleg og mér skylst að út sé komin diskur með lögunum sem voru sérstaklega samin af Jesse Harris og söng Norah Jones.

Hápunktar hátíðarinnar í tónlist voru tónleikar með Simon Bólivar Youth Orchestra of Venezuela og tónleikar með slagverksleikaranum Dame Evelyn Glennie.

Stjórnandi 200 manna symfóníuhljómsveitarinnar er aðeins 26 ára gamall að nafni Dudamel. Það var stórkostlegt að verða vitni að performance svo stórrar sveitar, bara að horfa á meira en hundrað strengjaleikara hreyfa bogana á sviðinu var ótrúlegt, svo ekki sé talað um hljóminn af tónlistinni.

Dame Evelyn Glennie var ótrúleg og góður endir á hátíðinni fyrir okkur. Hún er heyrnarlaus og hefur samt orðið einn frægasti og virtasti slagverksleikari heims, brýtur blað með því að hafa mjög frumlega nálgun á tónlist og tónlistarsköpun.

Ég veit ekki hvað segja skal. Það er svo gaman að upplifa góða list - en nú þarf ég bara að melta.


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Ingólfur Ásgeir Jóhannesson

Edinborg er yndisleg borg

Ingólfur Ásgeir Jóhannesson, 21.8.2007 kl. 17:59

2 Smámynd: Anna Karlsdóttir

Já það er hún svo sannarlega. En við höfðum lítinn tíma til að skoða hana að ráði, geri það næst.

Anna Karlsdóttir, 21.8.2007 kl. 23:02

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband