13.7.2007 | 10:17
Endurbætt komment frá bloggsíðu Ingólfs Ásgeirs
Fyrir nokkrum dögum síðan spurði Ingólfur Ásgeir Jóhannesson á bloggsíðu sinni hvort að fiskveiðistjórnunarkerfið hefði tekist vel í ljósi ástands stofnsins. Honum hefur væntanlega þótt opinber umræða halla á einhvern ákveðinn veg, eins og verið væri að reyna að koma í veg fyrir of mikla grundvallaumræðu um ríkjandi kerfi..og ég er sammála honum ef honum finnst það.
Í skýrslu hagfræðistofnunar er sérkennilegur texti en hann er svona. "Í umræðu um stjórn fiskveiða hefur iðulega verið bent á að framsal aflamarks og þó einkanlega aflahlutdeilda geti haft veruleg áhrif á atvinnulíf á viðkomandi stöðum. Bann við framsali myndi þó trauðla breyta miklu. Eftir sem áður yrði væntanlega hægt að selja og kaupa einstök fyrirtæki þar eð vandséð er hvort hægt yrði að banna slík viðskipti í einni atvinnugrein. Bann við framsali eða kvótabinding gæti einnig orðið til þess að draga úr hagkvæmni.".
Í sambandi við þessar staðhæfingar er athyglivert að ekki eru sérstaklega teknar fyrir félagshagfræðilegar afleiðingar, og alls ekki sömu tökum og önnur viðfangsefni í skýrslunni. Þannig eru ekki sýndar breytingar á atvinnuástandi í greininni, heldur valið að birta tilviksmynd frá 2005 sem ekki er greind frekar. En einmitt 2005 höfðu fiskvinnslur á um 24 stöðum á landinu sagt upp fiskverkafólki í miklum mæli þrjú árin á undan, en bara árið 2005 hurfu tæplega 10% starfa á sviði fiskvinnslu. Slíkt er auðvitað ekki nefnt og ekki heldur er orðið atvinnuöryggi notað, þar eð það myndi trufla ímyndina af því að tækniþróunin sé einstefna og óumflýjanleg og innan hennar sé aðeins ein leið fær.
Í landafræðinni köllum við þetta disembeddedness í skilningi Polanyi. Hagkerfi felst í hans skilningi í gagnkvæmni, endurdreifingu og markaðsviðskiptum og þar sem efnahagslíf og samfélag er samtvinnað i eina heild ríkir ígreypni (embeddedness), en þar sem innreið markaðar stýrir samfélaginu of einhæft og rífur samhangandi tengsl atgerfis, lífshátta, byggðar og framleiðslutækja m.a ríkir ekki sama ígreypni félagshátta við hið efnahagslega. Fólki getur fundist það gott eða slæmt, en það er auðvitað meiri hætta á að staðbundin sjónarmið ráði minna ferðinni í þróun atvinnu og byggðar en hagsmunir markaðsaflanna.
Á síðu Ingólfs kommenterar Bjarni Kjartansson. Hann segist hafa fremstu óbeit á kvótakerfinu sérstaklega vegna þess að það er hagfræðilegt kerfi sem ekki tekur tillit til vistfræðilegra þátta ef ég skil hann rétt....og það er vissulega undarlegt ef að kerfið er svona gott ef að niðurstaða í lífríki sjávar sé.svona neikvæð. ..eins og Bjarni nefnir....
"ekkert er skoðað hvernig veiðarfæri eru brúkuð, né hvernig lífkeðjan virkar og núna þegar öll náttúra sjóvarins æpir og stynur, fugladauði, fæðuskortur, síladauði og horfellir í fiski, þannig að tegundamengun verður, svo sem af Ígulkerjum, horfa allir undan og fara að tala um tonnafjölda sem þeir ,,tapi" úr sínum kvótapungi.
Þetta lið segir ekkert frá því, að kerfið er HLUTDEILDARKERFI hvar % ræður af HEILDARAFLA."
Í skýrslunni þjóðhagsleg áhrif aflareglu er einmitt fullyrt að engin tengsl séu milli kvótakerfisins og verndunar eða uppbyggingar stofnsins. Það sé hlutverk Sóknarmark eða heildaraflaheimilda. Eins er sagt í skýslunni að ekki hafi verið sýnt frammá að kvótakerfið leiði til veiðimynstur sem hafi verri (mjög gildishlaðið) áhrif á viðgang stofnsins en ef aðrar leiðir væru farnar (þær hafa hingað til ekki verið skoðaðar) við fiskveiðistjórnun. Til dæmis er því hafnað að sýnt hafi verið fram á brottkast.
Það er auðvitað þægilegra að fría kvótakerfið ábyrgð í því sambandi að mínu mati, en það er óskaplega barnalegt.
Mér finnst nokkuð bratt af Ragnari og félögum að halda því ófölir fram að kerfið hafi engan veginn haft áhrif á atferli leikmanna í sjávarútvegi í ljósi reynslunnar.
Flokkur: Vísindi og fræði | Facebook
Athugasemdir
Þú segir, Anna: "Fyrir nokkrum dögum síðan spurði Ingólfur Ásgeir Jóhannesson á bloggsíðu sinni hvort að fiskveiðistjórnunarkerfið hefði tekist vel í ljósi ástands stofnsins. Honum hefur væntanlega þótt opinber umræða halla á einhvern ákveðinn veg, eins og verið væri að reyna að koma í veg fyrir of mikla grundvallaumræðu um ríkjandi kerfi..og ég er sammála honum ef honum finnst það."
Ég er ekki viss um að það sé svo einfalt að það sé verið að reyna að koma í veg fyrir umræður; ég held beinlínis að höfundum og ábyrgðaraðilum fiskveiðistjórnunarbatterísins finnist þetta allt satt og rétt, og þess vegna er opinber umræða ekki mjög djúp að fáir gefa sér tíma, eins og þú hefur gert í þessum kommentum og bloggum, að lesa skýrslur um málið. Við þetta má bæta að það er ekki bara ástand þorskstofnsins heldur líka hin dreifðu byggðarlög sem hafa mátt margt þola. Ég er ekki viss um að niðurskurðurinn nú sé versta áfallið því auðsöfnun einstaklinga hefur þýtt mikla blóðtöku.
Ingólfur Ásgeir Jóhannesson, 13.7.2007 kl. 10:59
Sæll Ingólfur
Blóðtaka samfélagana er að kvótakerfið gerir eignahaldsaðila i kerfinu mjög hagkvæmnimiðaða án tillits til velferðar samfélagana. Af því að ég er svo mikill nörd hef ég einmitt verið að reyna að meta hversu mörg byggðarlög muni hafa þanþol gagnvart niðurskurði þorskveiðiheimilda eins og hann liggur nú fyrir. ...Og nú skaltu halda þér fast. 24 af 73 byggðarlögum sjá fram á að missa ekki meira en 50% núverandi starfa í sjávarútvegi, vegna þess að þau eiga það annað hvort sameiginlegt að þar eru stöndug og stór sjávarútvegsfyrirtæki í eigu heimamanna eða vegna þess að atvinnumarkaðs-uppland er mjög fjölbreytilegt eða að þau eru að minna leyti háð þorski í veiðum og vinnslu. Þetta þýðir alvarlega grisjun í byggðarlögum við ströndina. Ef rétt reynist munu 49 byggðir í kringum landið missa um 50% starfa í sjávarútvegi. ....Sá kostnaður sem af því hlýst fyrir samfélagið er gríðarlegur í heild sinni og hann færist yfir á stjórnvöld og almenna skattborgara, en ekki þá auðmenn sem hafa haft arðsemi af ríkjandi kerfi og leitt til ríkjandi ástands.
Anna Karlsdóttir, 13.7.2007 kl. 11:27
Og þetta allt í framhaldi af skakkaföllum sem áður hafa átt sér stað mjög víða. Þetta eru ótrúlegar tölur en þó ekki ósennilegar. Hið versta er að of mikil veiði undanfarinna áratuga hefur ekki styrkt allar byggðir, kannski á einhvern hátt seinkað annaðhvort veikingu byggðarlaganna eða því að annars konar starfsemi festi rætur. Þarf að þekkja til í hverju samfélagi fyrir sig til að geta sagt mikið um það; þekki betur til í sveitunum. En þá rifjast líka upp að sjávarbyggðir eru tiltölulega ný fyrirbrigði í Íslandssögunni.
Ingólfur Ásgeir Jóhannesson, 13.7.2007 kl. 14:52
Já, það er rétt hjá þér að sjávarútvegsbyggðirnar eru á Íslandi eru ungar í lengra sögulegu ljósi, og auðvitað ekki óþekkt fyrirbrigði að byggðarlög sem hafa verið drífandi í iðnvæðingu þjóðanna ryðgi, þegar framleiðslutækin eða iðnaðurinn er á undanhaldi, en sjósókn og nýting fisks er ekki endilega iðnaðarfyrirbrigði og hluti af bæði atgerfismenningu okkar og sjálfsþurftabúskap aftur um aldir. ég veit ekki, mér finnst stundum eins og framþróun sjávarútvegs hér á landi hafi verið of einsporuð og miðast við stórskala (Fordisma) sem nú kemur aldeilis í bakið á þjóðinni. Jæja, ég get haldið áfram að babla hér, en eitt er víst og það er að tölfræðin yfir lífvænleika byggðarlaganna í landinu er snarskökk. Ef ég kíki á bak við tölurnar, t.d í byggðarlagi sem ég á rætur að rekja til, Raufarhöfn, er vinnsla með lífvænlegasta móti samkvæmt vinnsluleyfum fiskistofu, en raunin er að þar er nær engin vinnsla nema tilviljanakennd grásleppusöltun. Sama á við um flotann samkvæmt yfirliti fiskistofu, minna en helmingur bátanna er við bryggju, þeir eru uppí landi og rotna eða bíða þess að á þá verði keyptur eða leigður kvóti.
Anna Karlsdóttir, 14.7.2007 kl. 14:09
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.