Færsluflokkur: Ferðalög
5.9.2010 | 23:58
Að slá eign sinni á náttúruna - hvernig má geirfugl líta út?
Gaman að ljósanótt hafi farið svona vel fram. Þessi hátíð er mikil bragarbót í starfi bæjarfélagsins og hefur ávallt verið vel heppnuð. Ingólfur Magnússon nemandi minn í ferðamálafræði gerði afar vandaða könnun í bs.verkefni sínu á upplifun og þáttöku íbúa í undirbúningi og hátíðahaldi ljósahátíðar. Það var nær óblendin ánægja með hana. Hátíðir af þessu tagi gegna ekki einungis því hlutverki að efla samstöðu íbúa og eiga sameiginlega ástæðu til að fagna því þær hafa einnig aðdráttarafl fyrir brottflutta og þá sem ættir eiga að rekja á svæðið. Það er því ekki að ástæðulausu að hátíðir af þessu tagi hafa oft orðið uppspretta svokallaðrar ættjarðarferðamennsku.
Ég vil þó gera deilu um Geirfuglskúlptúrinn að umræðuefni mínu hér.
Settur hefur verið upp skúlptúr af geirfugli eftir erlendan listamann sem hefur gert það að sínu þema að móta dýr í útrýmingarhættu út í minnisvarða sem settir eru upp á stöðum þar sem þeir eru upprunnir. Íslenskur listamaður hefur fyrir nokkrum árum fengið að setja upp minnisvarða um geirfugl á allt öðrum stað (nánar tiltekið í Skerjafirði) í allt öðru samhengi.
Nú snýst einhver annarleg umræða um það að hve miklu marki hinn nýuppsetti skúlptúr erlenda listamannsins er eftirlíking eða ekki, og hversu ósvífið það er að endurtaka leikinn (sem nb. var í öðru samhengi settur upp).
Ég spyr: Hvers vegna í ósköpunum halda listamenn að þeir geti slegið (einka) eign sinni á náttúruna eins og hún er sköpuð, með sköpun sinni. Þýðir þetta að ef að Van Gogh málaði einu sinni sólblóm þá má enginn annar mála sólblóm, og auðvitað sérstaklega ekki ef hann er í nærliggjandi firði. Má þá enginn annar listamaður móta svan í höggmynd ef einhver annar hefur gert það. Það má kannski grínast með það að það séu óteljandi möguleikar í að móta ólíka kynbætta og úrkynjaða kjúklinga úr landbúnaðariðnaðarframleiðslu. Þar væru menn vissulega ekki að líkja eftir sérkennum veru úr villtu dýraríki, náttúrunni.
Í alvöru talað. Það er meira að segja látið að því liggja að minnisvarðinn um geirfuglinn sé of líkur þeim sem Ólöf Nordal (með allri virðingu fyrir þeirri mætu listakonu) kópíeraði í málm á sínum tíma.
ég spyr: hvaða rétt hafa listamenn á að eiga einkarétt á mótun náttúrunnar sem speglun við náttúruna eins og við sjáum hana. Eigum við ekki bara að banna sköpunarkraftinn eða fella hann undir einkaleyfi? Nei takk - njótum beggja geirfugla í ólíkum tilgangi. Lifið vel.
Tugþúsundir á Ljósanótt | |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Ferðalög | Slóð | Facebook | Athugasemdir (2)
30.8.2010 | 12:41
Heimur ísjakanna
Ég tek undir með Heimi Harðarssyni að á Grænlandi, í austri sem og vestri er afar fagurt og ekki ofmælt að slík lýsingarorð sé hægt að auka í eftir sem norðar dregur.
Hinsvegar er orðalag fréttarinnar sérstakt að því leyti að látið er eins og engin ferðaþjónusta sé í Scoresbysundi. Það er væntanlega lítið um að skútur bregði sér svo norðarlega en geta má þess að Nonni travel hefur gert út ferðir í allavega á annan áratug til svæðisins. Þess má auk þess geta að á síðasta ári börðu líklega tæplega tíu þúsund manns svæðið augum. Annað hvort með skemmtiferðaskipum/leiðangursskipum eða sem dagsferðamenn frá Íslandi.
En ég óska samt forsvarsmönnum Norðursiglingar til hamingju með að átta sig á perspektivunum við að auka samvinnu við Grænlendinga í ferðaþjónustu og vona að það gerist á jafningagrundvelli og ekki sem nýlenduverslun. Þetta er vandmeðfarin slóð!
Siglt um ævintýraheim Grænlands | |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Ferðalög | Slóð | Facebook | Athugasemdir (1)
10.8.2010 | 10:35
Bókhaldstap, bólgnar væntingar og raunverulegt tap
Nú er maður orðinn svo skyni skroppin eftir að hafa sætt hálfgerðum pyntingum í formi frétta um bókhaldsbrask og afskriftir, bókhaldskúnstir og annað í þeim dúr að frétt um eldgosatengt tap stærsta ferðaþjónustu-fyrirtækis heims er eitthvað sem maður kippir sér lítið upp við.
Þetta er svona svipað eins og keðjuverkun af gunguskap skipstjóra Artemis (sem þorði ekki inn í Ísfirska þoku), auðvitað finna fleiri fyrir því en bara hin alþjóðlega samsteypa þegar áætlanir bregðast.
ég hef aðeins stúderað fyrirtækið TUI en það er afleiðing af endalausum samrunum og yfirtökum sem einkenndu tímabilið frá þúsaldamótum til 2008 í alþjóðlegu viðskiptalífi. Nú vitum við auðvitað sem er að slík hernaðarbrögð í viðskiptum voru oftar en ekki byggð á skuldsetningu. Þegar fyrirtæki eru verulega skuldsett sem hlutfall af eiginfjárstöðu þurfa þau að keyra alveg svakalega stíft til að geta staðið við sínar skuldbindingar. Ef maður snýr þessu yfir á líkingamál, má segja að því stærri útgerð sem maður er með, því meiri velta þarf að vera til að halda utan um til að greiða fyrir umsvifin, því minna má bregðast í starfseminni.
Eitt af því sem stórhuga viðskiptamönnum yfirsást kannski var einmitt þetta, maður þarf að vanda sig (þeir hefðu sumir kannski þurft að vera íhugulli á meðan á öllum yfirtökunum stóð).
Það fer tvennum sögum af TUI - í fyrsta lagi voru óstaðfestar fréttir í helstu viðskiptamiðlum heims í febrúar 2010 að verið væri að reyna að selja stórveldið (kannski ekki besta tímabil viðskiptasögunnar, allavega ef átti að selja það í einu lagi).
Í öðru lagi stærir samsteypan sig af því að vera alltaf á höttunum eftir framtíð ferðaþjónustunnar (sem þeir telja sig geta skilgreint greinilega.
Það er því kannski bara fjölmiðlastönt - að birta lélegar afkomutölur og tengja við gosið í Eyjafjallajökli. Því þegar allt kemur til alls er fyrirtækið með svo bólgnar væntingar að ekkert má útaf bregða þá tapa þeir í bókhaldinu. Hið raunverulega tap er auðvitað a) að starfsmenn eru þrælar staðlahyggju í ferðaþjónustu og fá ekki að blómstra því þeir eru hermaurar í stigröðuðu veldi ferðaþjónustu TUI.B) Aðrir sem eiga hagsmuna að gæta þar sem TUI velur að þröngva sér inn á ferðamarkað eru undirorpnir ráðandi markaðsstöðu fyrirtækisins og þá má fólk dæma fyrir sig sjálft hvort því finnst það hagsælt.
Þannig að jú, auðvitað má segja að það sé frétt þegar að TUI velur að tilkynna opinberlega um að halli undan fæti að minnsta kosti tímabundið, því þeir eru ígildi þjóðhagskerfis þegar kemur að umsvifum. Fyrir mér er TUI hinsvegar dæmi um fyrirtæki í ferðaþjónustu sem að hefur tapað sér í stærðarhagkvæmni. Þegar á reynir hrynja slík veldi oft.
Þannig það er spurning hvort maður á að fagna frekar en armæðast.
Askan veldur TUI tjóni | |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Ferðalög | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
9.8.2010 | 10:48
Loftslagsbreytingar og bráðnun jökuls
260 ferkílómetrar ísjaki brotnaði úr Petermann Gletscher á Norðvestur Grænlandi. Þetta eru stórfréttir því jökullinn er nú orðinn 3/4 af því sem hann var. Í vísindagrein úr Science um jökul-leysingar/skrið/kæltring út í sjó kemur fram að mesta brotið er almennt í Petermann af jökultungum Grænlandsjökuls. Í greininni sem þó er frá 1997 (Rignot, Goginene, Krabill & Ekholm 1997) og sem ber titilinn "North and Northeast Greenland Ice Discharge from Satellite Radar Inteforometry" kemur fra að heildarmeðal brot úr 14 jöklum á norðurhluta Grænlands á ári er um 49 ferkílómketrar (sjá tilvitnun að neðan). Þetta er því rúmlega fimm sinnum stórfelldara en heildar brot á ári af þessu svæði. Þó brot ísjaka sem fellur í sjóinn sé alkunna á Grænlandi leikur enginn vafi á að stórefli þetta er afurð loftslagsbreytinga.
Combined together, the analysis implies that the 14 glaciers discharge 49.2 km3/year of ice into the ocean (10% uncertainty) (Table 1). This ice volume is 3.5 times that discharged at the glacier front (6). The largest difference is recorded on Petermann Gletscher, where the grounding line flux is 22 times the glacier-front flux.
Laila vinkona mín sem fædd er í Ilulisat/Jakobshavn fæddist um miðbik maí í fyrir rúmum 40 árum. Hún segir söguna af því þegar að ísbjörgin flugu út á fjörðinn og það brast og brakaði um allt í ísnum. Hljóðið í jökulbjörgunum þegar þau steypast er engu líkt en einnig er magnað að heyra brestina í mörg þúsund ára gömlum ísbjörgum sem eru að springa og bráðna.
Ég fór að skoða þetta á korti og sá þá að þetta er afar norðarlega og mun norðlægar en nokkuð byggt ból Grænlands (Petermann Gletscher er staðsettur á reit 80V2). Hinsvegar eru borgarísjakar á stærð við landfleka afar hættuleg fyrir skipaumferð þegar sunnar dregur. Nú vitum við ekki í hvaða átt borgarísflekinn flýtur en það ætti að vera rík ástæða til að fylgjast með honum þessum!
Stærsti borgarísjaki í 50 ár | |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Ferðalög | Slóð | Facebook | Athugasemdir (1)
3.8.2010 | 12:24
Hvernig ferðamannastaðir missa marks!
Ísland ber með sér margbreytilega ímynd allt eftir hvaða þjóðarhópar eiga í hlut eða hvaða þjóðfélagsstéttir um ræðir. Það má þakka fyrir það, því á það má spila í markaðssetningu..eitthvað sem við eigum hugsanlega eftir að læra heilmikið betur en hingað til (við dettum mjög oft niður í klisjukennda umfjöllun um okkur sjálf og landslagið, upphafningu sem að fjölmiðlalæsir neytendur sjá í gegn um).
Bretar sem ferðamenn eru samkvæmt öllum rannsóknum ekki mjög ævintýragjarnir ferðamenn, þeir eru bleyður inn við beinið - vilja ekki lenda í framandleika að of háu marki. Umfjöllun um Ísland í Bretlandi hefur markast af frásögnum um þjóð sem féll af stalli í svo mörgum blæbrigðum að ekki er undarlegt að það hafi síast inn í vitund fólks að hér er ekki eins og var (þó það sé líklega mjög orðum aukið eins og verða vill í fjölmiðlum.
Hin heimsveldistregaða-heimóttalega þjóð er fræg fyrir að yfirfæra sín viðmið yfir á ferðamannastaði (umbreyta þeim í pöbba og beikonbúllu svæði) til að þeim hugnist staðirnir verulega. Það hefur Bretum sem betur fer ekki tekist hér, enda hefur Ísland svo sem aldrei verið fjöldaferðamennskustaður líkt og Miðjarðarhafslöndin. Þetta er þó ekki bundið endilega bara við sólarstaði sem Bretar heimsækja. Ákveðin hverfi Amsterdam eru verulega löskuð á mánudagsmorgnum eftir ágang Breta á ýmsum búllum og húshornum sem þeir hafa migið upp við, snyrtipinnarnir.
Amsterdam er þó annars borg sem mætti ætla að þyrfti lítið að sníða sig að þörfum þess fjölda heimsækjenda af öllum þjóðernum sem borgina sækir á ári hverju - hún er að mörgu leyti sannkölluð heimsborg - en hún hefur sannarlega ekki farið ósnortin útúr samskiptunum við breska ferðamenn eftir að breskar ferðaskrifstofur og flugfélög fóru að markaðssetja helgarferðir þangað.
Flestir Bretar sem okkur sækja heim eru hin mestu prúðmenni, meira menntað fólk en gengur og gerist þar í landi og af skemmtiferðaskipunum er ferðafólkið eldra en hinn dæmigerði rusltúristi þeirra. Svo við höfum verið að fleyta rjómann má segja.
Ísland er "fandenivoldsk" (glannalegt og bíræfið), eitthvað sem ferðafrömuðir þessa lands hafa verið afar tregir að viðurkenna eða bera á borð. Það gerir landið spennandi fyrir forvitnar sálir. Það er því ekki amalegt fyrir okkur að vera komin í flokk fornra stórvelda. Við höfum þó eitt fram yfir sem allavega ætti að höfða til Breta, og það er að við erum meðal öruggustu staða heim að sækja í alla staði. Hins vegar komumst við ekki með tærnar þar sem samanburðarríkin Grikkland, Tyrkland, Rússland og Rúmenía hafa hælana sem fornmenningarvöggur jafnvel þó við reyndum að flagga vímuþokuðum Íslendingasögunum.
Eitt sinn rak á fjörur mínar áhugaverð bók sem ber nafnið "All poins North" eftir Simon Armitage. Bókin er samansafn fjölmargra smásagna sem eru "hálf-dokumentarískar". Þar er kafli sem ber heitið "Mum's Gone to Iceland".
Þetta er svona óbærilegur léttleiki tilverunnar frásögn af hvernig að móðir höfundar dregur hann með sér i sólarhrings-geðveikisferð til Íslands á vegum Thomas Cook. Fyrir utan að peningarnir (hinar íslensku krónur) líta út fyrir að vera einhvers konar leikfangapeningar er margt framandlegt í svona turboferð ekki síst meðal farþega. Fyrir utan að vera af eldri gerðinni voru þeir merktir til að enginn týndist og höfðu tekið hvatningunni um að vera klæddur til ferðarinnar bókstaflega. Klæðnaðurinn sagði jafnvel meira um hugmyndir farþeganna um hvaða áfangastað þeir væru að heimsækja en þörfina.
"Suitable ranges from Gortex cagoules, North Face rucksacks and strap-on compasses to M&S car coats and driving gloves, to pac-a-macs and five penny transparent rain-hoods available from all godd newsagents and tobacconists. For Mr Green, a seventy- or eighty-year-old complete with name-badge presumably sewn on by an anxious relative, "suitable" means a thick woolen suit, a thin wollen tie, a handknitted waistcoat and a pair of stout leather brogues. He stands next to you, rummaging in his pockets. somebody calls his nams over the tannoy, but he can't hear it because of the mound of black, wiry hair growing out of each ear, and the Sony Walkman playing tinnitus at full volume. You picture him at the end of the day, an Icelandic flag pinned to his tie, queuing up in the duty-free with a bag of toffees and a half-bottle of Navy rum in his basket." (bls.205)
Ferðalýsingin er hin skoplegasta, ekki síst frásögnin af ferðamönnunum . Þetta er greinilega engin nautnaferð fyrir utan fyrir þá fáu sem enda ofan í Bláa lóninu í ferðalok. Flestum finnst matartilboð pakkaferðarinnar of dýr og nær allir hafa því smurt sér nesti til ferðarinnar sem þau eru að smygla upp í sig á kaffihúsum. Þau eru dregin í gegnum land og menningu sem að því er virðist er algjörlega tekið úr samhengi. Yorkshire post hefur sett saman ferð um vatn og fyrsta stoppið er glápstaða við útisundlaug í Reykjavík en síðan er brunað á ýmsa staði. Eftirfarandi lýsing gefur ef til vill til kynna hvað vakti mesta athygli í rútuferðinni.
"The woman behind you has become obsessed with the opening and closing of the back door of the coach. Stopping at the sulphur pools, she leans over to Mum, saying "The back door is open". Mum nods in agreement. "They haven't opened it this time" she announces at the fish processing plant, then "Open again" at the president's house. The president, as it happens is not at home, which is just as well for him because half the party go lumbering across the lawns and gawp through the windows. No doubt he saw the fleet of blue buses, trundling up towards him out of town, and slipped out the back, scooting along the spit of land in his Nissan Micra, making for the interior." (bls.209).
Sem betur fer lögðust svona turboferðir af í nafni mismunandi þema eftir því sem ég best veit, en lifa þó góðu lífi meðal farþega skemmtiferðaskipa sem hingað koma. ..um það er hægt að ræða frekar.
Bretar eru fínir en ekki endilega áhugaverðasti ferðamannahópurinn að fá heim - margir aðrir ferðamannamarkaðir gefa okkur færi á að þróa meira spennandi ferðatilboð en akkúrat þeir.
Breskir fagurkerar og menntafólk mun halda áfram að heimsækja okkur eins og það hefur ávallt gert enda oft komið í öðrum tilgangi en til að eyða tímanum í að hrjóta inni í rútu eða smygla ofan í sig samlokur á kaffihúsum.
Vilja ekki ferðast til Íslands | |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Ferðalög | Breytt s.d. kl. 12:34 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (2)
27.8.2009 | 16:06
hýðing eða óhlýðni ferðaskrifstofu?
Væri hægt að fá betri hugmynd hvað varð til þess að neytendastofa gat sent út sekt af þessu tagi til fyrirtækisins Heimsferða? Þetta er líklega ein sú stuttaralegasta frétt sem ég hef lesið fyrir utan dánartilkynningar! Hún vekur upp fleiri spurningar en svör.
Ferðaskrifstofa sektuð fyrir óhlýðni | |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Ferðalög | Slóð | Facebook | Athugasemdir (1)
22.8.2009 | 14:14
Gott framtak hjá íbúum - koma svo, gera eitthvað skemmtilegt!
Það er gott að móbilisera sig á uppbyggilegan hátt á menningarnótt. Ég var einmitt að leggja lokahönd á að mála bakið á syni mínum sem vildi slagorðin " Ég brenni fitu - ekki olíu" - en við erum að fara að hjóla berbakt mæðginin núna klukkan þrjú.
Það er kannski spurningin um að koma við á Haðarstígnum?
Nánar hér:
Kl. 15:00 á Menningarnótt í Reykjavík munu glaðir hjólakappar hittast á miðju Miklatúni og rúlla þaðan saman á reiðhjólum sínum um bæinn.
Allir eru velkomnir, látið orðið berast til vina og vandamanna!
Það verður gríðarleg stemning í hópnum. Tónaflóð mun fylgja okkur á leiðinni (eldhress hjólalög) og við hvetjum fólk til að hjóla með bökin ber og skrifa á þau skemmtileg hjólaslagorð eða skrifa slagorð á boli. Svo er um að gera að mæta í búningum eða skrautlegum fötum.
Mætum endilega á fjölskrúðugum farartækjum (þeir sem eiga), t.d. liggihjóli, tvímenningshjóli, körfuhjóli, hjóli með aftanívagn, með tengihjól o.s.frv.
Leiðin sem við hjólum verður nokkurnvegin svona:
Miklatún - Flókagata - Langahlíð - Miklabraut - Snorrabraut - Bergþórugata - Barónsstígur - Eiríksgata - Njarðargata - Sóleyjargata - Skothúsvegur - Tjarnargata - Vonarstræti - Fríkirkjuvegur - Skothúsvegur - Suðurgata - Sturlugata - Sæmundargata - Hringbraut - Sóleyjargata - Hljómskálagarðurinn.
Við hjólum á götunum, förum að öllu með gát og erum á eigin ábyrgð.
Íbúarnir tyrfa Haðarstíg | |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Ferðalög | Slóð | Facebook | Athugasemdir (2)
25.7.2009 | 15:51
Streitulosandi meðferð
Fyrir utan að njóta ásta (hehe) er mikilvægt að gera eitthvað í frístundum sem að fyllir mann gleði. Þannig getur maður orðið betra foreldri og fólkið í kringum mann hamingjusamara. Mitt framlag í dag til að bæta líf fólks í kringum mig - ef það kýs svo - er að leggja hér fram pottþétta uppskrift að Mjaðar-saft. Alveg skotheldur sumardrykkur sem feilar ekki og kostar ekki mikið að laga.
Týnið minnst 40-50 knúppa af Mjaðurtablómum (sem eru í blóma nú) einhvers staðar út í móa.
Sjóðið 2 lítra af vatni með 1.kíló af sykri (gæti t.d verið helmingur hvítur og helmingur brúnn eða minna unninn sykur).
3 -4 sítrónur (helst lífrænar, annars vel skrúbbaðar) í sneiðum
Leggið blóm og sítrónur í skál eða pott í lög eins og lasagna - hellið síðan sykurvatninu yfir.
Látið kólna niður í stofuhita á meðan að hrært er varlega í mjöðnum.
Setjið skál á kaldan stað í fjóra sólarhringa og passið að hræra vel að minnsta kosti tvisvar sinnum á dag.
Síið vökvann í gegnum sigti og grisju og setjið á flöskur
Ef að þið notið glerflöskur þurfið þið að halda þeim í kælingu - annars plastflöskur.
Njótið - útþynnts drykkjarins með kolsýrðu vatni og klaka eða kranavatni - Astminn hverfur og sumarið verður ykkar.
Njótið vel!
Streita hefur áhrif á astma | |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Ferðalög | Slóð | Facebook | Athugasemdir (2)
20.7.2009 | 15:07
Herbalisti prófar sig áfram
Nú er svo komið að ég þarf að fara að færa út kvíarnar og fá meira rými til að þurrka allar jurtirnar sem við höfum verið að safna að undanförnu. Stofuborðið bognar undan jurtum af ýmsu tagi sem eiga að veita yndisauka og lina þjáningar á næsta vetri.
Mjaðurtabunkinn er farinn að þorna og hann mun veita gleði í formi drykkjar.
Gulmaðran mun einnig veita ánægju í formi tes
Blágresið er búið að hvíla í olíu um stund og mun verða að nuddolíu þegar hún er tilbúin
Kerfilsfræin munu fara í brauðgerð
Ég bjó til yndislegan sumardrykk úr kerfilsblómum - þetta er sannkallaður sumarsmellur - ekkert betra en blómasaft þegar sólin skín og gróðurinn horfir á mann montinn.
Birkið er notað í ýmsar veigar
rauðsmárinn verður að lyfi
klóelftingin verður að linandi og græðandi áburð
blóðbergið fer í drykk og krydd og hvönnin sömuleiðis
Ég er búin að þurrka papayafræ sem munu notast ef einhver fær magakveisu
Ég fann umfeðming - sem ég ætla að rannsaka betur hvaða eiginleika hefur upp á að bjóða..
og svo er ég auðvitað að rækta kryddjurtir og salöt af ýmsu tagi villt og galið í bakgarðinum.
Allt þetta yndislega og meira til hefur íslensk náttúra upp á að bjóða yfir sumartímann - njótið tímabilsins því vel.
Þetta útskýrir kannski að einhverju leyti afhverju ég er orðin svona löt að láta heyra frá mér hér.
Ferðalög | Slóð | Facebook | Athugasemdir (1)
5.5.2009 | 12:51
Harmafregn um pokadýr
Það er harmafregn að heyra að íslenskt ungmenni skuli hafa látið plata sig útí að vera pokadýr með eiturlyf. Það er ein sú vitlausasta ákvörðun sem fólk getur tekið en því miður eru mýmörg dæmi um ungmenni sem hafa látið sig hafa það í von um skyndigróða. Því miður er hætta á að íslensk ungmenni láti fleka sig á þennan hátt þegar að útlit fyrir tekjur versnar og ýmiskonar örþrifa-aðgerðir leita á hugann.
Ekki vildi ég hýrast í fangelsi í Brasilíu það segi ég satt - ég held að það séu mjög mannskemmandi aðstæður með ýmiskonar kúgun og bælingu (og fullt af eiturlyfjum af verra taginu en Kókaín) sem maður vill helst ekki hugsa um.
20 ár á bak við rimla og slá er ekki fýsileg framtíðarsýn fyrir ungt fólk. Það kemur niðurbrotið og skemmt út úr slíkri reynslu nema það sé því sterkara, ef það lifir slíkar aðstæður af á annað borð.
Íslenskar lýðheilsustofnanir ættu að huga að þessu og koma af stað áróðursátaki til að vekja athygli ungra íslendinga á að það er ekki gaman að þurfa að éta pöddur í Tailensku fangelsi til frambúðar, eða þurfa að taka þátt í krakkstríði innan veggja fangelsis í Brasilíu.
Það er vond vision!
Íslendingur handtekinn í Brasilíu | |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |