Færsluflokkur: Dægurmál

Jólakveðjur!

 

Megi jólin og áramótin verða ykkur góður tími á hverju sem gengur! Gleðileg Jól!

Kærar þakkir fyrir samskiptin á árinu sem eru að líða. Megi Íslendingar öðlast heilsteypta sjálfsmynd á komandi ári.

Læt hér fylgja ljóðverk Þórarins Eldjárns sem birtist í Skírni 1999 og nefnist Spegill.

 

Við horfum aldrei aftur í þann spegil       

sem okkur hermdi marga spá og fregn.   

Hann liggur hér á dreif um gólf og dregil

hann datt og brotin féllu eins og regn.   

 

Því finnst okkur að vanti djúpa og víða

og viðurkennda sanna heildarmynd.    

Og árin sjö í ógæfunni líða                   

Eitt er markað hverri dauðasynd...      

 

En því að segja þetta hér að framan    

að þúsund brotin sýni engum neitt?     

Reynum ekki að raða þeim neitt saman

rýnum þess í stað í hvert og eitt.           

 

Og þá má sjá það skýrt að hvert er heild

já hvert og eitt sín veröld og sín deild.   

 

 

 


Mannlíf skrýtið og hálft hjarta

Það er að færast yfir mig ró og ég hlakka til friðargöngunnar í dag. Hef einsett mér að láta verkefni dagsins vera a) klára að fara yfir verkefni og próf og gefa einkunnir svo blessuð börnin fái nú námslán. b) gera harissa, niðursoðnar sítrónur og heimagerðan ís, c) skrifa almennilegt jólabréf (eitthvað sem rekið hefur á reiðanum þetta árið, skítt með það, það verður þá bara áramótakveðja í staðinn).

Jólakveðju Lingua -  Norðan Jökuls ( fékk ég um daginn og má til með að láta hana fljóta með til ykkar því þau vanda sig alltaf svo á hverju ári, mér finnst það aðdáunarvert.Í ár er hreyfimyndin eftir Guðjón Braga Stefánsson en tónlist og flutningur er í höndum kvennabandsins Dúkkulísur. Ljóðið sem er gullfallegt er eftir Börk Stefánsson. Sjá hér!

Þar er minnt á mikilvægi fjölskyldunnar og heimilis sem griðastaðar fyrir ást og væntumþykju - þar sem hægt er að öðlast innri frið. Því miður er ekki svo fyrir suma. Sum börn eiga ekki heimili og lítið hjartarúm meðal hina fullorðnu. Reyndar er það svo að sumir t.d skilnaðarbörn eru klofin, eiga tvö heimili, tvö hálf heimili á stundum og þegar að þau eru á einum staðnum sakna þau hins og öfugt.

Umfjöllun um þetta í fjölmiðlum undanfarna daga hefur verið þörf og bráðholl, og þeir sem hafa lagt orð í belg hafa sem betur fer haft skynsama og eðlilega nálgun á þessa hluti að mínu mati. Gott væri að heyra frá fleirum sem hafa svipaða reynslu.

Ég skil þetta svolítið með að vera alltaf svolítið hálfhjarta - en maður verður að lifa með því og viðurkenna söknuðinn innra með sér. Öll þessi átta ár sem ég hef búið hér á Íslandi hef ég verið klofin því stundum hef ég verið með börnunum mínum og stundum ekki, ég hef verið mismunandi sátt við það en hef þurft að læra að lifa með því glöð. Þannig kemst maður helst í gegnum hremmingar í lífi sínu að enduruppgötva gleðina í því smáa.

Ég er að auki klofin vegna þess að ég sakna alltaf míns gamla heimalands Danmerkur og þá sérstaklega á jólunum. Ég sakna alls notalega og rólega umstangsins í kringum mismunandi huggustundir og þá serstaklega áherslu fólks á ánægjulega samveru (sem ég held að íslendingar gætu lært eitthvað meira um). En þá hef ég bara lært að vera með mínu fólki í Danmörku í huganum (skála í snafs og borða síld í draumum mínum og hugsa hlýlega til vina minna og gömlu fjölskyldu).

Laila með jólakörfu úr héraði

Laila ein besta vinkona mín í Danaveldi (sem raunar er grænlensk/dönsk) er orðin ferðamálastjóri Frederikssund sveitarfélagsins og tók upp á því í haust að gera samning við nær alla framleiðendur héraðsins á ólíkum sviðum. Það er því hægt að markaðssetja algerlega staðbundna matarkörfu frá firðinum beggja vegna Ísafjarðarins (við Hornsherred).

Ég sakna samverustunda við hana og hennar fjölskyldu um jólin. Við höfum átt mörg góð jól saman í gegnum tíðina, en þá er gott að hugsa að vonandi eigum við eftir að eiga aftur góð jól saman einhvern tíma seinna. Ég keypti fasana í tilefni af því að þá get ég farið í huganum að Selsö marken og Selsö slot (horfið í tíma og rúmi en samt verið á staðnum).

 Jæja best að koma sér að verki - svo ég missi ekki af skötunni í kvöldTounge

 

 


Jólin nálgast

anna_yulelad1.jpg

Fyrir fimm árum sagði ég upp áskriftinni að jólunum. Ég var langþreytt á neysluæðinu og átinu sem einkenndi hátíðina og flúði með fjölskylduna til Sikileyjar upp á fjall og eldaði dúfur á aðfangadagskvöld. Það voru að mörgu leyti góð jól þar sem samvera við fólk, sætar appelsínur og villiketti voru í forgrunni fremur en að æði af öllu tagi, saltur og sætur matur ásamt myrkri væru aðalsmerkið.

Í ár verð ég heima og hlakka bara til. Ég var svo heppin að vera með á fundi á Húsavík um daginn um verkefnið Wild North og í tengslum við hann fórum við um Mývatnssveitina og upplifðum sitt lítið af hverju, t.d hitti ég jólasveina í Dimmuborgum (sjá mynd að ofan) og fann aftur jólabarnið í hjarta mér, hló eins og ær og langaði að syngja jólalög (humm, það er af sem áður var). Keypti hangilæri í Vogafjósi og skellti mér í jarðböðin ásamt hópi yndæls fólks frá Íslandi, Grænlandi, Færeyjum, Noregi og Skotlandi. 

Sonurinn eldri fer úr landi og mun ég sakna hans töluvert en líka una honum að fá hvíld frá neikvæðum fréttum og áhyggjum sem fylla andlegar kyrnur fólks hér á Fróni um þessar mundir. Sá yngri verður hér með mér og hans jólaskap feilar ekki. 

Hvet alla til að kveikja kerti og spara við sig í ofdekri - göngutúr í snjónum getur gert meira kraftaverk en hálfur konfektkassi. ...Og svo er bara að syngja með jólasveinunum.


Yndislegt að gefa!

Ég á alveg yndislega syni (þó ég segi sjálf frá). Ég varð fertug fyrir tíu dögum síðan og sá litli vildi endilega gefa mömmu sinni afmælisgjöf þó ekki sé hann fjáður. Hann mundi eftir að hafa lánað mér þúsund krónur sem ég borgaði honum til baka einhverju áður. Hann fór bísperrtur út í búð og kom eins og stoltur páfi til baka með afmælisgjöf handa mömmu sinni. Þegar ég opnaði aðra gjöfina sem var úr Tiger kom í ljós jarðkúla sem einnig var baukur. OH, mig hefur alltaf langað í globus, en hann sniðugur. Drengurinn klikkti síðan með að segja mér að þetta væri þarfaþing í heimskreppunni. Heimskringla sem hægt væri að setja peninga í. Ég átti ekki til aukatekið orð yfir snilld barnsins sem er jú bara níu ára en veit sínu viti.

Globusinn hefur fengið heiðurstað á heimilinu og ég hugsa með hlýju til drengsins í hvert sinn sem ég ber hann augum, enn hafa ekki neinir aurar leitað ofan í búk jarðkúlunnar en vonandi mjatlast þetta nú einhvern veginn samt. 

Þetta er ein besta gjöfin sem ég hef fengið - hún var gefin af svo mikilli hjartahlýju og hugulsemi að ég þarf ekkert annað. Ég hélt skemmtilegt hóf og hitti vini og bað þá helst ekki að gefa gjafir, því mér leið þannig að mig vantar ekkert nema bara skemmtilegt fólk í kringum mig og þúsund bros. Þá er ég glöð. 

Eldri sonur minn hélt ræðu um hvað ég væri skrýtin en samt allt í lagi, hálfgerður nörd en þó góður matargerðarmaður þrátt fyrir að vera alltaf að hugsa um lífrænt!! (fyrir honum er það skammaryrði). Ég áttaði mig á að það helsta sem ég hef gefið honum hingað til eru upplifanir af mörgum toga og að hann mun njóta þeirra sem minninga í tengslum við mig mun fremur en veraldlegra hluta þegar fram í sækir. Það fékk mig til að skæla af gleði, svo snortin varð ég.

Það besta í heimi er að eiga fólk í kringum sig sem elskar mann og maður elskar.


Tortryggð vinasambönd

Ég á vini tvo úr sitthverri heimsálfunni sem eru mér afar dýrmætir. Þeir eru mjög ólíkir hver um sig og þó. Þeir eru báðir mjög góðir vinir mínir, einskonar sálufélagar þó á ólíkan hátt. Annar þeirra er Finni, hinn Brasilíumaður. Þeir hafa staðið með mér í gegn um þykkt og þunnt þótt oft væri það í fjarska. Við eigum í intellektual sambandi, elskum að tala saman um heima og geima, nördast svolítið, taka púlsinn á heimsmálunum og spjalla um eigin hag og annarra.

Margir hafa orðið til þess að tortryggja þessi sambönd mín, sérstaklega íslenskir karlmenn - sem mér finnst skrýtið. En Ok, eins og Leo vinur minn segir. Þú getur ekki ætlast til að karlmenn skilji að svona fögur kona eins og þú Anna sért svona mikill free spirit. Mér þykir auðvitað ekki leiðinlegt að vera skjölluð og ég er stolt yfir því að hafa haldið þessum vinasamböndum til streitu þrátt fyrir mótbyr á stundum frá ytra umhverfi.

Tek fram að ég hef aldrei átt þessa menn fyrir kærasta enda myndi það spilla því góða sambandi sem ég á við þá.

Fjarskiptasambönd geta þó verið flókin. Eins og um daginn þegar brasilíski vinur minn skypaði mig eins og hann gerir gjarnan (og þá ekki endilega á besta tíma. Oft er það um það bil þegar ég er að elda kvöldmat). Nú átti hann í hjónabandsörðugleikum og hvað átti hann að gera. Ég sálufélaginn dásamaði konuna hans, sem ég þekki vegna þess að ég hef heimsótt þau og hún er mér mjög kær..og sagði honum að hann væri líklega að ganga í gegnum tíu ára krísuna (yebb, alltaf svo gott að vera vitur fyrir aðra).  Reyndar tölum við sjaldnast á þeim nótum. Ég held þó og vona að mér hafi tekist að koma vitinu fyrir hann. Hann er háskólakennari og upplifir eins og þeir margir að nemendur eru bara alveg til í að gefa honum undir fótinn. Ég var að segja við hann að dirfast ekki að vera latino í því sambandi, ég vona að hann hafi hlustað. Þessir brasilísku eru, held ég, svoítið blóðheitir. Hann á bara svo frábæra konu. Hún er sálfræðingur af gyðingaættum og ég held einmitt að þess vegna hafi hún tekið mér svona vel, ég er ekki viss um að ef hún hefði verið kaþólsk að hún og hennar fjölskylda hefðu bara gúdderað einhverja íslenska vinkonu sisvona. Samtal okkar þennan dag var um margt óvenjulegt en aðstæðurnar eru væntanlega ekki óalgengar meðal fólks á okkar reki.

Við Leo tölum þó oftast um þjóðfélagsástandið í sitthvoru landinu, um vistvænt borgarskipulag, hagkerfi, félagskerfi og stundum spillingu og annað sem er sameiginlegt áhugamál enda höfum við starfað saman beint og óbeint í grænkortaverkefni í um áratug. Þegar ég heimsótti hann og Tönju í Brasilíu í vor pössuðu þau svo ofboðslega upp á mig að ég var með verndara í hverri einustu borg sem ég heimsótti. Ég hef bara aldrei upplifað aðra eins gestrisni.

Lassi, finnski vinur minn er stjórnmálafræðingur. Við spjöllum líka um heima og geima en þó mest um Norðurslóðarannsóknir sem eru sameiginlegt áhugamál, strauma og stefnur í pólitík og öryggismál og annað þvíumlíkt. Við vorum einmitt að hittast nú í kvöld því í hvert skipti sem hann á leið um Ísland borðum við saman og spjöllum. Lassi hefur að mörgu leyti verið mér mentor síðan ég kynntist honum fyrir tæpum áratug. Eg hef ferðast með honum á ráðstefnur og fundi í fjarlægum löndum ásamt öðru góðu fólki og í gegnum hann hef ég kynnst mígrút af fræðafólki í pælingum um Norðurslóðir. Fyrir það er ég honum einlæglega þakklát. Hann er svona maður sem á auðvelt með að gefa af sér og svo er hann týpískur Finni að því leyti að honum finnst bara alls ekkert óþægilegt að þegja saman, þegar þannig ber undir. Ég hef gert mér far um að sýna honum borgina eða nágrenni borgarinnar þegar hann hefur haft tíma og við höfum borðað saman picnic á þingvöllum. Þá var minn maður með finnskt rúgbrauð með og að sjálfsögðu vasahníf og við fengum okkur íslenskt álegg. Það var gaman.

Ég býst við að sumum gæti fundist skrýtið að vera svona þrjóskur - en fyrir mér er þetta nauðsynlegt frelsi að fá að eiga vini, sama af hvoru kyninu þeir eru, sem ég næ góðu sambandi við. Þeir eru báðir skemmtilegir í tilsvörum og analýtískir og ég met það mikils. Það er allt of mikið til af fólki sem einhvern veginn er alltaf að passa upp á einhvern front.  Ég er viss um að fleiri upplifa það sama og ég og aðrir munu væntanlega bara dæsa og tortryggja - eins og ég hef svo oft upplifað.

Skítt með það. Mér er sama. Góður vinur er meira virði en almenningsálitið.


Ástin er besta ljósið

Svart ljós í myrkri sagði Hallgrímur Helgason. Hann er svo orðheppinn að það hálfa væri nóg.


mbl.is Svart ljós í myrkri
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Lingling og Stykkishólmur

Ég er frekar óvirk á blogginu þessa dagana þar eð kennsla í efnahagslífi og samfélagi Asíu ásamt undirbúningi undir námsferð nemenda á Snæfellsnes í Október hefur tekið yfir líf mitt í augnablikinu. Reyndar ásamt umsóknarvinnu til ýmissa rannsóknarsjóða og þáttaka í stofnun áhugasamtakanna bíllauss lífstíls hafa haldið mig frá tóminu sem jú oft getur af sér einhvers konar vangaveltur um lífið, pólitík, samfélag og daglegt eigið líf.

Get samt sagt að áður en ég dett sofandi á koddann á kvöldin er ég að lesa hreint alveg frábæra bók sem eflaust margir hafa lesið. Ég er bara svo seintæk. Það er fólkið í kjallaranum eftir Auði Jónsdóttur. Hún er frábær í alla staði.

Ég vakna því stundum með bauga undir augum á morgnana af því að ég hef lesið of lengi. Svona er þetta. 

Það er gaman að lifa, maður verður stundum að passa sjálfan sig þó í öllu umstanginu. Ég læt mig til dæmis dreyma um að einhver faðmi mig á næstunni eða að ég fari í nudd. Uhm. Það er góð tilhugsun.


Hver er svo að tala um kreppu?

Jóhanna Kristjónsdóttir er algjör hetja. Ég þekki fleiri en einn sem eru næstum áskrifendur að ferðum hennar til Miðausturlanda, svo gaman er að skyggnast inn í veröld hennar þar. Hún á heiður skilinn og allavega jafn mikinn og landsliðsgaurarnir. Mér finnst reyndar með ólíkindum að einhverjir hafi svo mikið ráðstöfunarfé að þeir geti púngað út einni milljón fyrir sveitta treyju. Maður má aldeilis vera hjátrúarfullur ef maður heldur að heppni fylgi því. En það er fyrir góðan málstað, svo ég ætla að hætta að ibba mig.

Ég sá annars alveg frábæra bíómynd Guy Maddin um Winnipeg í dag í Háskólabíói. Ég skemmti mér konunglega, líka í umræðunum á eftir. Salurinn var nær fullur af fólki. Í myndinni er dregin upp mynd af borginni eins og hún sé að sofna og margir draugar fólks, náttúru og mannvirkja vaktir upp. Draumur sögumanns er að finna leið til að yfirgefa borgina. Mér fannst þetta talsvert frumleg nálgun á heimildarmynd um borg. Winnipeg er í sjálfu sér lítið sjarmerandi borg fyrir utanaðkomandi en ég fékk einhverja sérkennilega löngun til að heimsækja borgina aftur eftir að hafa séð hana í þessu annarlega ljósi.


mbl.is Skólinn er í höfn
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Þegar minnið þvælist fyrir

Ertu eitthvað skyggn spurði kunningi minn mig um daginn þegar ég innti hann svara um hvernig dvöl hans við skriftir fyrir austan fjall hefði gengið. Ég varð hálf hvumsa, er farin að gleyma að taka eftir að fólk í kringum mig er svo minnislaust. Ég minnti hann á að við hefðum síðast hist þegar hann var á leið þangað og ég bað hann að heilsa melgresinu í flóanum frá mér. Hann var auðvitað búinn að steingleyma því.

Stundum líður mér eins og ég búi á einhverri annari plánetu. Af hverju man fólk ekki eftir mér. Af hverju man það ekki eftir um hvað var verið að tala síðast þegar hist var? Er ég eitthvað brjáluð. Það er eins og harði diskurinn uppi í hausnum hafi verið eitthvað prógrammeraður skringilega.

Frá því ég man eftir mér hef ég þjáðst af því að vera mjög mannglögg (en hins vegar man ég sjaldan nöfn). Þetta lím minni hefur oft komið mér í vandræði af því að gjarnan man ég eftir öllum öðrum en muna eftir mér á augnaráði, líkamsburðum og andlitsdráttum. Ég reyni að heilsa fólki sem að ranghvolfir bara augunum og heldur að ég sé eitthvað andlega skert.

Þetta er óþægilegt og gerir mig feimna. En stundum broslegt að þurfa að kynna sig upp á nýtt, setja fólk inn í aðstæður þar sem hist var og svo framvegis.  Á stundum var ég farin að halda að ég væri ósýnileg - væri með huliðshjálm. Eins gott að ég þjáist ekki líka af því að vera hraðlyginn.

En svo áttaði ég mig á því að það getur verið mjög gagnlegt að vera gæddur þessum kostum, ég yrði til dæmis algjört súper vitni ef til þess kæmi. Svo snúast hlutirnir í höndunum á manni. Um leið og ég var farin að meta þessa áráttu að verðleikum byrjaði mannglöggvi minnið að daprast. Eftir að fleiri nemendur fóru að fara í gegnum námskeiðin mín urðu nöfnin þokukenndari og stundum andlit.

Svo ég hef reynt að taka þá stefnu að brosa bara til þeirra sem vilja brosa til mín - og taka þessa hluti ekki inn á mig. 

Og fyrir þá sem halda að ég sé skyggn - mæli ég með inntöku á fiski og bláberjum með slettu af spínati. Það bætir nefnilega minnið. 


Frekar Þorgrímur en Goggi mega!

Mér er farið að líða eins og mömmunni í bókinni 101 Reykjavík, nema ég er ekki lesbísk. Sonur minn fékk fartölvu og hefur setið nánar stanslaust síðan við spilið World of warcrafts. Hann hefur ekki sinnt vinnu undanfarna daga og er algjörlega "hooked", talar online við æskuvini sína í Kaupmannahöfn....klukkan þrjú um nótt, í miðju spili. Ég er algjörlega að fara úr límingunum.

Sumum finnst Þorgrímur væminn, mér finnst hann sætur maður með einlægan vilja og hann hefur fallegt og einlægt bros, það er allt sem ég þekki til mannsins.  Ég er mest hrædd um að sonur minn verði gjörsamlega glataður maki til framtíðar, haldi hann svona einarður áfram þessari tölvuleikjaiðju. Það eina sem fékk hann til að gera hlé á þessari iðju sinni, var að fara að sjá Batman myndina í bíó. Sér er nú hver veruleikaflóttinn.

Það er yndislegt að eiga góðan maka. Það er eitt. 

Það væri mjög gaman að eiga unglingsson sem að lifir nokkuð heilbrigðum lifnaðarháttum. Leikur tölvuleiki í hófi og hefur eðlileg samskipti við sína líka. Ég sem kvartaði sáran undan því fyrir hálfu ári að drengurinn væri svona ákaflega félagslyndur, hef nú séð að það er skárra en skjálíferni hans.

Samstarfskona mín sagði mér fyrr í dag að jafnaldrar hennar, strákar á þrítugsaldri hefðu margir misst kærustur, eigur, vinnu, flosnað úr námi og annað verra vegna fíknar sinnar á tölvuleikjum. Ég er dugleg að mála skrattann á vegginn- veit það, en er samt áhyggjufull.

En vona svona að hann Jónas Hrafn minn muni frekar líkjast Þorgrími en Gogga mega. OOOHHHH! 


mbl.is Karlmenn læra um konur
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Næsta síða »

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband