25.6.2007 | 11:36
Yndislegt að velta sér uppúr dögginni
Ferðalög | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
20.6.2007 | 15:02
Aftur um vinnuafl á faraldsfæti
Ýmsar goðsagnir verða til um innflytjendur. Goðsagnirnar festa innflytjendur í ákveðnum hlutverkum sem leiðir til alþjóðlegrar verkaskiptingar innan þjóðlegra marka þar sem þörf er á innfluttu verkafólki. Í Bretlandi hefur þannig orðið rótgróin hugmynd um Fillipseysku hjúkrunarkonuna, Karabísku barnfóstruna osfrv. Í Asíu hefur hugmyndin um tælendinga og vefjariðnað orðið ansi samofin. Í Bandaríkjunum er talað um mexíkanana í landbúnaðinum og latinó-fólk í matvælaiðnaði. Í London er talað um indverjana í samloku- og kaffibúðunum og raunar í öðrum þjónustustörfum. Þannig hefur orðið til ansi rótgróin hugmynd um pólska pípulagningamanninn. Um 120 þúsund pólverjar starfa í Noregi í dag, Um 250 þúsund starfa Bretlandi. Í Tékklandi eru það slóvakar sem er stærsti hópur iðnverkafólks af erlendum uppruna. Því miður hefur það orðið svo að sú hugmynd hefur orðið hávær í Bretlandi að pólverjar séu komnir til að stela störfum frá landsmönnum. Þetta á ekki við nokkur rök að styðjast því að það er hrópandi þörf eftir innflutningi vinnuafls í byggingariðnað og ákveðin þjónustustörf.
Mjög líklegt er að svipað sé uppi á teningnum í Kína þar sem kvika hefur orðið og mikið er um vinnuafl á faraldsfæti innanlands og þá aðallega frá vestri til austurs - en ljóst er að þjóðirnar og þjóðarbrotin eru þá nokkuð önnur, samsetning og goðsagnir aðrar.
Stærstu innflutningsþjóðir erlends vinnuafls eru Bandaríkin og Rússland - stærstu útflytjendaþjóðir heims eru Mexíkó og Kazakstahn. Þannig flytja Mexíkanar til BNA og Kasakstanar til Rússlands. En hæsta tíðni vinnandi fólks af erlendum uppruna er að finna í löndunum Lúxemborg, Kanada og Sviss (eða yfir 50% vinnandi fólks). Hér er auðvitað verið að gera fólk upp í ríkisborgararétti (umhugsunarefni ef fólk er búið að búa lengi á svæðinu).
Helmingur þessa fólks eru konur. Á Fillippseyjum eru konur helst hvattar til að fara. Ríkið treystir á fjárframlög þeirra. Oft eru þessar konur mæður og í þeim tilfellum taka ættingjar við uppeldiskeflinu en brottflutta konan verða fjárframlagsuppspretta fjölskyldunnar að utan. Slíkt breytir eðli móðurhlutverksins á mjög róttækan hátt. En hugmyndin um hlutverk móðurinnar hefur lengi einkennst af nánd, sterkum tengslum milli móður og barna. Það má ímynda sér að þetta horfi þannig við móðurinni að hennar samfélagsskylda stangist á við þörfina fyrir að kynnast börnum sínum náið.
Þegar maður reynir að bera samtímann saman við aðstæðurnar í Bretlandi eftir seinni heimstyrjöldina er ýmislegt líkt og annað ólíkt. Það sem er líkt er að það var mikill skortur á vinnuafli á bretlandi þá eins og er nú. Margar samverkandi ástæður ullu þessu, margar hendur þurfti til að vinna við uppbyggingu samfélagsins, þá var að konur voru draga sig út af vinnumarkaði inn á heimilin og vinnumarkaður dróst því verulega saman, en eins voru margir sem höfðu sinnt hernaði að hverfa aftur til síns heima; fyrrum nýlendna breta, skólaskyldualdur hækkaði einnig.
Það má segja að það hafi verið heppni breta á þessum tíma (þó kaldranalegt sé) að um 9 milljónir manns voru heimilislausar í Evrópu á þessum tíma. Bretar lögðu áherslu á að flytja inn konur og þeir forgangsröðuðu þeim. Þannig voru fluttar inn 18 þúsund konur. Margar þessara kvenna voru úr Eystrasaltsríkjunum, fátækar, grindhoraðar og niðurbrotnar eftir vinnubúðastrit og stríðið. Þarna fór fram eins konar "stock exchange of bodies" þar sem framboð og eftirspurn bætti hvert annað upp. Svipað og í dag þar sem er hagvöxtur og markaður og eftirspurn eftir vinnuafl þar má greina helstu aðliggjandi strauma vinnuafls á faraldsfæti.
Samkvæmt Lindu formgerast "etnísk" stigveldi í slíkum breytingum, bæði þá og nú. Oftast er viðmiðið sem liggur til grundvallar húðhvíta. Þannig var litið á konur úr Eystrasaltinu sem hreinar af góðum rótum (Baltic cygnets - clean of good stock), mögulegar mæður breta framtíðarinnar. Húðhvíta er notuð til að meta hvar í stigveldinu þú hefur möguleika á að staðsetja þig. Ýmsar tilfærslur urðu á sjálfsmynd fólks vegna þessa. Til dæmis urðu Írar allt í einu hvítir í Bretlandi en ekki lágstéttar- svertingjar eins og þeir höfðu upplifað sig í eigin landi gagnvart bretunum. Sú sjálfsmynd styrktist þegar bretar tóku að flytja skipulega inn fólk til vinnu frá Karabísku nýlendunum...
Já þessi heimur, félagslega umgjörð hans og hagrænn ráðahagur (imperative) er óumræðanlega margræður. Hér erum við að upplifa kapítalismann beint í æð en hann er auðvitað að anda í gegnum reynslu og upplifanir fólks sem þarf að flytja búferlum til að skapa sér og sínum aukin efnahagsleg tækifæri. Hvatar að flutningum eru auðvitað af ýmsu tagi, en ekki er hægt að horfa framhjá því að sífellt hnattvæddari fjármálageiri lifir góðu lífi á fjármagnsyfirfærslum alþjóðlega. Talið er að fjármagn að jafnvirði um 18 milljarða bandaríkjadala sé flutt í fyrrnefndum tilgangi (frá erlendum verkamanni til fjölskyldu heima) Í HVERJUM MÁNUÐI. Það er meira það fjármagn sem fer í þróunarhjálp. Hið hnattvædda samtengda heimshagskerfi er því háð "remittances" sem smyr gangverk vélarinnar ásamt öðru eldsneyti. Peter Dicken og félagar (Global Shift 2007) nefna reyndar svolítið aðrar upphæðir en Linda. Samkvæmt þeim jafngiltu fjármagnsyfirfærslur af fyrrnefndu tagi um 173 milljörðum bandaríkjadala árið 2003. Bara til Rómönsku Ameríku og Karabísku eyjanna var umfangið 54 milljarðar bandaríkjadala árið 2005, meira en samanlögð fjármagnsflæði Beinna erlendra fjárfestinga og þróunarhjálpar. Það segir allt sem segja þarf.
Landfræði fjallar um fólksflutninga (af ýmsu tagi), ný tengsl milli hins staðbundna og alþjóðlega, milli sjálfsmyndar og að heyra til einhversstaðar. Landfræði lætur menningarlega heimsveldisþróun varða, samfélög, staðfélög í tengslum við goðsagnir og tengslin milli hér og þar og svo framvegis.
enda á tilvitnun úr Dicken et.al (2007)
"For some people, remittances allow them to buy a basic basket of essential goods," says Rodolf Tuiran, of Sedesol, Mexico's social development ministry. "But overall, in terms of poverty, remittances do not have a significant impact. They do, however, have an important impact on inequality - they increase it. Of every $100 received, $75 goes to homes that aren't poor". Anecdotal evidence support this. In areas of high migration, the houses in good repair, with a satellite dish, are the ones that receive remittances."
19.6.2007 | 14:46
Um alþjóðlega fólksflutninga og vinnuafl
Linda McDowell prófessor í landfræði við Oxford háskóla nefndi erindi sitt "Hnattvæðing, kyn og fólksflutningar - stigveldi ójafnræðis og kynslóðabundinna hliðstæða og mismuns". Fyrirlesturinn var einu orði sagt frábær. Markmið Lindu var að sýna fram á hvernig fólk af holdi og blóði sem flytur milli landa vegna atvinnu er ofið inn í vef hnattræns hagkerfis. En einnig að sýna hvernig mynstur fólksflutninga í tengslum við atvinnu eru í samtímanum miðað við breytingarnar eftir aðra heimstyrjöldina þegar að um 9 milljón manns í Evrópu voru "displaced" (áttu hvorki heimili né opinbert sjálf) og voru flutt til nýrra heimkynna, nýs atgerfis og nýs lífs. Linda bar saman tvær konur frá Lettlandi, Önnu sem flutti til Bretlands árið 1944 úr útrýmingarbúðum og Karinu sem flutti til Bretlands árið 2005. Hver var munurinn?
Röksemdarmiðja Lindu er að aldrei í sögunni hafi umfang atgerfistengdra fólksflutninga verið eins stórkostlegt (stutt af tölfræðilegum gögnum) og í dag. Ég er reyndar ekki alveg sammála henni. Í tölum eru um 200 milljónir manns á faraldsfæti alþjóðlega vegna vinnu sem auðvitað er rosalegt en það er einungis um 2,9 % mannkyns á meðan að talið er að um 10% mannkyns hafi verið á faraldsfæti í leit að vinnu um aldamótin 1900 (vesturferðirnar). Alþjóða fólksflutningsstofnunin (IMO) og alþjóða vinnumálastofnunin (ILO) hafa reynt að spá fram í tímann og sjá fram á að ef fram fer sem horfir verði umfang atgerfistengdra fólksflutninga orðið um 260 milljónir árið 2030 (Dicken 2007). Við erum semsagt að upplifa sögulegar sviptingar í fólki talið og kvikari breytingar en áður hefur orðið vart.
Linda telur slíkt knýja þjóðríkið til að endurhugsa málefni ríkisborgararréttar (nationality & citizenship), fjölmenningar (multiculturalism) og samstöðu (cohesion) og að fulltrúar stjórnvalda verði að reyna að skilja upp á nýtt hvað það er að heyra til (belonging).
Sum hagkerfi gera út á að hvetja borgara sína til ferðalaga og þar eru Fillippseyjar án efa í fararbroddi.Hagkerfið yrði gjaldþrota ef ekki nyti það við peningayfirfærslur frá Filippseyjingum sem vinna í útlöndum til handa fjölskyldum sínum. ...framhald síðar..
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
19.6.2007 | 14:10
Til hamingju kynsystur?
Ég fór í bleikan bol í morgun í tilefni dagsins, á víst lítið í bleiku annað, enda verð ég eins og lifrarkæfa í framan í of bleiku (grá og ánamaðka hvít). En halda skal upp á daginn þó ég missi reyndar af kvosgöngu Kristínar Ástgeirs. Við vinkonurnar (æskuvinkonur frá 7.ára aldri) ætlum að hittast og gera menningaráætlanir enda er ferð á Edinborgarhátíðina á prjónunum. Það verður gaman og akkúrat í anda dagsins, konur sem ætla og geta vegna þess frelsis sem formæður þeirra börðust fyrir tekið sjálfstæðar ákvarðanir um húsmæðraorlof á eigin reikning. Viðurkenning kosningaréttar leiddi til margs annars. Mér finnst við jafnöldrurnar njóta ótrúlegra forréttinda en á sama tíma er mikilvægt að vera sér meðvitaður um að sjálfstæði kvenna er áunnið og hefur náðst vegna þrotlausrar barráttu sem oft hefur verið reynt að berja á bak aftur. Við megum ekki sofna á verðinum.
Ég var um rúmlega tvítugt sjálf frekar dofin gagnvart þessu, fannst þetta eiginlega alveg sjálfsagt og taldi mig ekki upplifa ójafnræði, skyldi eiginlega ekki þetta stanslausa þref um jafnréttisbaráttu og jafnrétti kynjanna. Mér fannst í alvöru að jafnrétti væri náð. Ég bjó reyndar ekki hér á landi þá, það getur hafa haft áhrif (danskir menn/jafnaldrar eru mun tilkippilegri í húsverkunum en þeir íslensku).
En eftir því sem ég varð eldri, eignaðist börn og sá að bræður mínir þurftu ekki eins að hafa fyrir að öðlast þessi réttindi sem ég taldi mig eiga rétt á jafnfætis þeim - breyttust viðhorf mín. Eftir að hlusta á reynslusögur vinkvenna og ýmissra annarra kvenna útum allt allstaðar. Eftir að hafa gengið í gegnum skilnaði þar sem byrðin af heimilishaldi og uppeldi skekktist talsvert. Eftir að hafa reynt að skapa mér starfsframa þar sem ég áttaði mig á að starfsbræður fengu einhvern veginn öðruvísi og hagstæðari kjör en ég, hef ég séð að það er á konur hallað á ýmsum sviðum.
Mér finnst karlmenn æðislegar verur en ég vil standa jafnfætis þeim. Og sumum finnst það frekja og óhemjuskapur þó þeir yrðu síðastir til að viðurkenna það. Lifi jafnrétti kynjanna, höldum áfram að berjast fyrir að öðlast sömu laun fyrir sömu störf, sama stað og verum ekki hræddar við að vera frekar.
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
19.6.2007 | 00:08
17 júní í Haakonshallen í Bergen
Jæja, þá er ég komin heim eftir ánægjulega ferð á Nordiske geografers möde, þar key note speakers voru næstum allir bretar (cultural imperialism öðru nafni). Margt nýtt hef ég lært og mun segja ykkur betur á næstu dögum frá sögulegri olíuferð, áhugaverðu efni og sögum frá Norge.
Við íslenska sendinefndin tókum forskot á þjóðhátíðardaginn kvöldið 16.júní í kvöldmat með kollegum í hinu fræga virki Hákons Haakonshallen. Sungum fyrir þau öxar við ánna þar eð við treystum okkur ekki í hinn rétta þjóðsöng. Við tilkynntum norðmönnum að við værum eins stolt af okkar þjóð og þeir eru af sinni. Ekta patriotism - þar erum við greinilega skyld. Eftir að hafa hlustað á veislustjórann halda hálftíma ræðu um stórkostlegheit norðmanna, gátum við auðvitað ekki orða bundist. Bergen skartar sínu fegursta á þessum árstíma, lyngrósabreiðurnar brosa til manns úr hverju horni, og hinir sérkennilegu og ósveigjanlegu frændur okkar brosa meira segja sínu breiðasta á götum úti.
Ég gat þó ekki varist því að sérkennileg tilfinning greip mig þegar ég áttaði mig á að fyrir 21 ári síðan nákvæmlega hvarf vinkona okkar Guðný Túliníus og fannst aldrei aftur á þessum slóðum, Vestur Noregi, í Balestrand Sognfirði. Það var erfið lífsreynsla þá 17 ára stúlkna að missa vinkonu sem valdi sjálf að fara. Það setti djúp spor í sálina. Ég var semsagt stödd í Vestur Noregi nákvæmlega 21 ári síðar og minningarnar þutu um hug minn, leitarþyrlurnar, norsku spákonurnar, norskir fjölmiðlar, Terry og Tobba, niðurbrotnir foreldrar, systkini og aðstandendur. Ég horfði á fjörðinn, horfði á þetta fallega og stórbrotna landslag. Í því búa margar sögur en enginn í Haakonshallen þekkti þá sem ég gat ekki varist að hugsa út í. Ég hneigði mig í lotningu fyrir minningu Guðnýjar og tók aftur upp við sönginn fyrir bræðraþjóðir okkar í höllinni.
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
12.6.2007 | 23:27
samstarf í samkeppni milli smárra og meðalstórra fyrirtækja
Ég efa ekki að ráðstefnan rural clusters á Akureyri þessa dagana sé hin áhugaverðasta. Hugmyndir um jákvæð áhrif skapist vegna samstarfs milli fyrirtækja á sama eða hliðstæðum sviði á samkeppnisstöðu svæða er ekki alveg ný af nálinni en hefur verið að aukast frá því á áttunda/níunda áratug þegar að ríkisbúskapur dróst saman og afskipti hins opinbera af beinum rekstri fyrirtækja var smám saman leystur af hólmi af auknum markaðsbúskap. Íslensk stjórnvöld hafa komið af stað nýrri bylgju í byggðaþróun sem kallaður er vaxtarsamningur byggður m.a á þessari hugmyndafræði. Ég er ein af þeim sem horfi nokkuð gagnrýnum augum á hvernig miðlæg stjórnvöld í raun búa til gulrót í nafni nýsköpunarhvata án þess að því fylgi endilega nauðsynlegt áhættufjármagn sem þarf til að nýtt framtak fái að dafna. En...vei ef ég hef á röngu að standa. Ég held raunar að það sé gott að fókus færist að því burðarafli atvinnulífs og hagvaxtar á dreifbýlli svæðum sem felst í rekstri smárra og meðalstórra fyrirtækja í stað "one company town" allsherjarlausna. Evrópusambandið hefur undanfarin tíu ár að minnsta kosti haft þetta sem grunntón í sinni stefnu. Það sem þó ekki má gleyma í þessu er að með slíkum fókus breytist eðli samkeppninnar að einhverju marki. Svæðin verða samkeppnisaðilar innbyrðis og sín á milli. Evrópa svæðanna er raunin í dag, erum við að skapa Ísland svæðanna með fyrrnefndri byggðastefnu og teljum við slíkt æskilegt? Erum landshlutarnir ákjósanlegar einingar í slíku? Annað sem ég spyr sjálfa mig að er hvernig íslendingar muni standa sig og hvaða menningarlegu forsendur þeir hafa til að skapa velheppnaða klasa? Milli hreppanna í landinu er landlægur rígur, og íslendingar hafa hingað til ekki verið heimsmeistarar í opnu samstarfi. Þeir eru alltaf að plotta eitthvað bakvið næsta mann. Fullir tortryggni og heimóttaháttar. Ja, svei mér ef ég hef á röngu að standa hvað þetta varðar.
Viðskiptamenning sú sem þrífst í dag í fjármála- og fyrirtækjaheiminum hefur stundum verið kennd við fylkingar og hópa (sumir myndu kalla það mafíur)...en svei mér ef ég hef á röngu að standa.
Sú innræting sem þarf að eiga sér stað til að fólk verði "opinminntara" þarf sjálfsagt strax að byrja á grunnskólastarfi og innan fjölskyldunnar.
Ég vona að klasasamstarf á landsbyggðinni muni ganga vel og að stjórnvöld átti sig á að sigurvegarar slíks samstarf eru þar sem hvatinn að samstarfi er sjálfsprottinn og einlægur áhugi er fyrir slíku meðal leikmanna. Þeir sem vinna við að hvetja til slíks og samræma aðgerðir þurfa því fyrst og fremst að vera í hlutverki ljósmóðurinnar fremur en annað.
4.6.2007 | 15:42
Fundur Althjoda hvalveidiradsins og vakning a Karabisku eyjunum
29.5.2007 | 12:43
Allt i s'oma i Rockley golf club four square
bestu kvedjur ur hitabeltinu
Ferðalög | Slóð | Facebook | Athugasemdir (2)
25.5.2007 | 23:28
Bridgetown bíður
Ferðalög | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
25.5.2007 | 14:48
Getur verið að höfundur greinar morgublaðsins sé uppspuni?
Síðastliðinn sunnudag birtist grein í morgunblaðinu með yfirskriftinni hættulegur femínismi sem ég las. Greinin var af mörgu athyglisverð, ekki síst fyrir þá heift sem þar skein í garð einhverra femínista elítu/femínistamafíu sem átti að blunda í HÍ en ekki var skilgreind frekar en óljóst vísað í kynjafræði. Talsvert var á þær skvísur og gæja borið, sem ég ætla ekki að fara telja upp. Höfundur hafði að auki sérstaklega horn í síðu rannsóknarstofnunar við Bifröst. Markmiðið með greininni var ekki alveg ljóst, en það var svolítið eins og höfundurinn ætti einhverra harma að hefna. Ekki var annað séð en að höfundur vildi leggja áherslu á að mafían (femínistarnir) væru að vinna gegn hagsmunum jafnréttis kynjanna í landinu með ýmiskonar rangfærslum. Máli sínu til stuðnings benti höfundur á að feministar vanræktu og litu niður til kvenna í kvennastéttum (heimavinnandi húsmæður, í kennarastétt og heilbrigðisþjónustu) og að verkakonur finndust ekki á radar þeirra. Þetta eru auðvitað rangfærslur sem afhjúpa vanþekkingu á ýmsum rannsóknum sem hafa verið framkvæmdar, þar á meðal rannsóknum undirritaðrar.
Ég hef reyndar aldrei kallað sjálfa mig femínista en hef ekkert á móti konum sem velja að kalla sig femínista, það er kannski svipaður munur og í stað þess að klæðast bleiku að klæðast grænu og fjólubláu (báðir litir hafa verið symbol kvenfrelsisbaráttu). Tengslasjálfsmynd, ég og hinir osfrv. Sameiginlegt baráttumál er jafnræði og jafnrétti. Óþarfi er því að stinga fleyg á milli, eins og um svart og hvítt sé að ræða.
Við lifum í lýðræðissamfélagi þar sem skoðanaskipti eru leyfð - það er aðal málið. Sumir eiga erfitt með að una öðrum því, en þetta er nauðsynlegt skref í átt að opnu lýðræðissamfélagi þó stundum sé erfitt að kyngja því að fólk geti verið á öndverðum meiði. Megin inntak fræða sem kennd hafa verið við feminisma er svokölluð afbygging, þar sem afhjúpaðar eru forsendur t.d rótgróinna gilda, valdastofnana samfélagsins. Slíka nálgun er að finna í fjölmörgum fræðigreinum og er hreinlega ekkert nýtt. Ég hef ekki kynnst því að fræðimenn og konur sem leyfa sér að skoða samfélagsmálefni útfrá kynjuðum forsendum telji sig handhafa hins endanlega sannleika. Engir fræðimenn eða vísindamenn með skynsemina í lagi eru svo hrokafullir.
Í hádeginu var ég að ræða þessa grein við samstarfskonu mína sem sagði mér að hana grunaði að þessi grein væri skrifuð af einhverjum öðrum og raunar finnist þetta nafn ekki í þjóðskrá. Mér varð hverft við, getur verið að einhver óljós mynd af konu sé sett í grein, en annar standi að baki og skráður höfundur sé í raun bara tilbúinn frontur. Frontur til að koma pólitískum sjónarmiðum á framfæri á rætinn hátt og vega að trúverðugleika þeirra sem um er fjallað. Ég veit ekki, ef rétt er, er ég sárhneyksluð. Þetta hlýtur að vega að trúverðugleika blaðsins!