14.6.2009 | 11:06
Vatns-sóun og meðvitundarleysi Íslendinga
Eftir að hafa búið á annan áratug annars staðar en hér á landi varð ég meðvitaðri um að vatn væri þverrandi auðlind, en að sama skapi áttaði ég mig á sóunartilhneigingu landans og andvaraleysi gagnvart einmitt því að vatn er ekki sjálfsagt.
Íslendingar eru ljónheppnir að eiga miklar vatnslindir, geta baðað sig í heitum laugum, látið vatnið renna viðstöðulaust, geta verið nær hugsunarlausir um hvernig og hvort vatnið er mengað af skólpi, rusli, matarafgöngum ofl. án þess að finna tilfinnanlega fyrir því í gluggapósti eða reikningum sem berast til heimilisins.
þetta meðvitundarleysi gæti til lengri tíma unnið gegn okkur. Það gerði það svo um munaði þegar að umræða um hin frægu vatnalög sem að mikið málþóf varð út af á vordögum 2006, svo mikið að þinginu þótti ástæða til að breyta reglum um málsmeðferð og umræðufrelsi í þinginu.
Ég tók þátt í þessum umræðum sem áhorfandi ofan af áhorfendapöllum alþingis ásamt nemendum í landfræði hnattvæðingar sem voru með mér í vettvangsferð að kynna sér breytta stöðu þjóðríkisins og stjórnvalda á hnattvæddum tímum. Sólveig Pétursdóttir var þá forseti Alþingis og þegar að Jóhann Ársælsson birtist í ræðustóli í örugglega tíunda skipti með möppu sem hann las uppúr nánast ranghvolfði hún augunum. Engir aðrir en ég og nemendur og þingverðir stóðu á pöllunum - enginn eða nær enginn þingmaður var í salnum eða lét sig málið eitthvað sérstaklega varða nema málþófsfólkið sem ætlaði að standa í vegi fyrir að vatnslindir Íslands yrðu einkavæddar (ég verð siðgæðisins vegna að nefna þá sem voru í salnum, það var Siv, Valgerður Sverrisd, Kolbrún, Hlynur Hallsson, Helgi Hjörvar, Jón Bjarnason, Jóhann og Sólveig, ef ég man rétt - en skal ekki útiloka að aðrir hafi tekið rúntinn inn í þingsalinn einhvern tíma á því langa tímabili sem að umræða um málið stóð).
Málið er að landsmenn og þingmenn voru almennt ekki að fatta að þetta væri eitthvað sem skipti máli til lengri tíma.
Þegar að starfsmaður þingsins hélt smá erindi fyrir nemendur mína um starfsemi þingsins og mér varð að orði að það væri undarlegt að einkavæða ætti auðlindir sem að gætu tryggt sérstöðu okkar til framtíðar í alþjóðasamfélaginu að þá varð starfsmaðurinn eins og súr appelsína í framan, henni fannst ég greinilega svona fríkuð.
Vatn og vatnsgæði eru ekki mannréttindi en þau geta tryggt betri lýðheilsu, betri landbúnað, betri matvæli og lengra líf - þess vegna á vatnið að vera almannagæði og ekki einkagæði.
Einu sinni átti ég kærasta sem var svona einnota gaur - hann henti bókstaflega öllu í gám, sóaði pappír eins og hann yxi á eldhúsborðinu og hugaði aldrei að hverju hann var að henda. Mér fannst það til marks um ákveðinn karakter sem vill vera meðvitundarlaus og er alveg sama um umhverfið á meðan að það abbaðist ekki upp á hann. Eins gott að við héngum ekki lengi saman. Raunar held ég að meðal íslendinga leynist margir af því hugarfarinu sem bara sjá ekkert í heildstæðu samhengi, bara útfrá eigin nefi. Sem betur fer er þetta hugarfar að breytast og verður vonandi útdautt innan kynslóðar.
Styrkir innlenda matvælaframleiðslu | |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Flokkur: Stjórnmál og samfélag | Breytt s.d. kl. 11:26 | Facebook
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.