Fáránleikaleikhús fjölmiðla og kassahugsun

Mér finnst með ólíkindum að íslenskir fjölmiðlar taki þátt í að koma umræðu um væntanlega verðandi forsætisráðherra niður á lágkúrulegt plan eins og þetta. AMX heldur úti dálk sem þeir kalla fuglahvísl og er einskonar kjaftasöguþing. Þar kom fram í grein að einhver elíta úr pólitíkinni og meðal menntamanna væri miður sín yfir að Jóhanna sem einungis ætti að vera lítið formlega menntuð (þetta var þó orðað á mun neikvæðari hátt) og flugfreyja ætti nú að taka um stjórnartaumana. Sérstaklega var vísað til þess að Jón Baldvin væri alveg miður sín eða eitthvað í þeim dúr (ekki beinar tilvitnanir, tek það fram).

Jóhanna fór inn á þing vegna m.a baráttu hennar fyrir betri kjörum sinnar starfstéttar sem þá voru flugfreyjur og síðan eru liðnir nokkrir áratugir. Það er bara eins og að starfsreynsla hennar síðan og pólitískir hæfileikar skipti engu máli í þessu samhengi. Það er svona svipað eins og að segja að ég væri þroskaþjálfi þó ég hafi ekki unnið með einhverfum unglingum síðan fyrir tuttugu árum síðan. Eða nefna sérstaklega að Davíð Oddsson hefði verið fugl dagsins (af því að hann gerði grín útvarpsþætti með félögum sínum fyrir fjórum áratugum). 

Það er hægt að setja fram reynslu fólks á þann hátt að það virki lítilvægt. Ég hef sjálf verið að býsnast yfir andmenntahrokanum í þessu þjóðfélagi um nokkra hríð en nú hefur þessi umræða fengið mig til að velta fyrir mér hvort þessi blessaða meingallaða þjóð þjáist ekki af ofstæki í báðar áttir. Mikið voðalega er fólk hér eitthvað vanstillt.

Samskipti íslendinga eru oft hálf-fötluð að því leyti að fólk hefur oft afskaplega lítinn áhuga á því að spjalla um hvað það eða þeir sem þeir eru að tala við séu að hugsa. Fólki er mjög umunað að spyrja hvað viðkomandi sé að gera af því að þá er hægt að setja viðkomandi í ákveðinn kassa.

Þetta er hinn mesti ósiður og afskaplega lítið aðlaðandi félagsógreind í fari margra.

Litlir kassar á lækjarbakka!

 


mbl.is Jóhanna vekur heimsathygli
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Snorri Magnússon

Þessi blessaða þjóð þjáist, einfaldlega, af samstöðuleysi, sem m.a. hefur komið til vegna aukinnar stéttaskiptingar hér á landi síuðstu árin og áratugina. 

Verst þykir mér að þurfa að segja þetta hér þar sem Sjálfstæðisflokkurinn, sem eitt sinn hafði að leiðarljósi slagorðin "Stétt með stétt" er búinn að vera við völd megnið af þeim tíma, í sögu landsins, sem stéttaskipting hefur verið að aukast og bilið milli "ríkra" og "fátækra" hér á landi hefur verið að aukast.

Tími Jóhönnu er kominn!!!!!!

Snorri Magnússon, 30.1.2009 kl. 01:00

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband