20.1.2009 | 23:46
Sögulegur dagur
Í dag mætti ég á mótmæli við þingsetningu á alþingi á Austurvöll klukkan eitt í dag. Ég stóð þar ásamt fjölda fólks, m.a þingmönnum úr stjórnarandstöðu og öðrum. Ef ekki hefði verið fyrir gálgafrest á verkefnum í vinnunni hefði ég staldrað við lengur því að ég er ein þeirra fjölmörgu sem ekki er lengur hlynnt sitjandi stjórnvöldum þó ég hafi verið það þar til hrina uppsafnaðra afleiðinga af mistökum í hagstjórn landsins hlóðst upp og misbauð flestum. Ég yfirgaf semsagt svæðið um tvöleytið en þá var allt með kyrrum kjörum, einhver hópur fólks hafði safnast í alþingisgarðinum en flest virtist friðsamlegt í þeirra framgöngu.
Í síðdegið fylgdist ég með innsetning Baracks Obama til 44. forseta Bandaríkjanna og naut sérstaklega ræðu hans. Þar fer maður sem getur sætt sjónarmið og getur blásið vonarneista í brjóst ólíkt því sem forsvarsmenn okkar stjórnvalda geta státað af. Ég var sérstaklega hrifin af því að Aretha Franklin ein af mínum uppáhaldssöngkonum söng í tilefni athafnarinnar. Skrýtið og ég sem var einmitt að hugsa um hana fyrir svefninn í gær, um hvað ég þyrfti nú að fara að grafa upp gömlu spólurnar með henni til að upplifa swing.
Obama talaði fyrir jafnræði og því að enginn þjóð væri sterk þjóð sem einungis legði áherslur á og hyglti þeim sem meira mættu sín í samfélaginu. Mikið óskaplega er ég sammála manninum.
Við íslendingar þurfum einnig að huga að því að með þeim sársaukafullu aðgerðum sem eru óumflýjanlegar nú á vordögum er mikilvægt að muna að ef að aðgerðirnar hafa þau áhrif að veikja þjóðina sem heild erum við enn verr stödd. Við eigum að vera jöfn, ekki bara fyrir guði þeirra sem slíkan hafa heldur líka sem jafnréttháir borgarar. Ef að stjórnvöld hefðu haft þetta að leiðarljósi hefði sýslumaður Suðurlands skammast sín fyrir að tilkynna að hann ætlaði að handtaka 370 manns sem ættu óuppgerðar skuldir. Sem betur fer hafði Björn Bjarnason dómsmálaráðherra þó það mikla dómgreind að stöðva hann í blindni sinni.
En snúum aftur að mótmælunum við Austurvöll. Mér er nær að spyrja hvort að forsvarsmenn ríkisstjórnarinnar eru nú eins og aparnir þrír, vilja ekki heyra, vilja ekki sjá og geta ekki mælt.
Svo virtist manni ef marka má viðtal við forseta alþingis Sturlu Böðvarsson sem taldi að ótækt hefði verið að fresta fundi og lét þar að auki loka þingpöllum því hann hefur augsýnilega engan áhuga á lýðræði í þessu landi. Geir Haarde sem að hneykslaðist yfir því að fá ekki vinnufrið til að ....gera hvað.
Þjóðin er ekki með ríkisstjórninni en hún velur að heyra ekki, sjá ekki og tala sem minnst nema við þá sem hlusta hvort eð er lítið á aðra.
Hin íslenska orðræðuhefð að tala á hvern annan í stað þess að tala við hvern annan heyrir vonandi sögunni til von bráðar.
Ég varð ekki vitni að uppistandi, handtökum eða kylfuslætti lög-þjálfaðrar lögreglu en veit þó eitt að sonur minn 17 ára stumraði yfir miðaldra konu með piparúða í augum í um klukkutíma sem enginn af þeim umhyggjusömu lögþjálfuðu lögreglumönnum virtust sinna annað en að beita yfirgangi og ofbeldi.
Ég er sannarlega búin að fá nóg og vil kjósa. Fyrir mér birtust í dag andstæður - Andstæður þeirra sem hanga á valdinu hugsjónalausir eins og hundar á signu roði og velja ekki að hlusta á þjóð sína og ný dögun nýs manns á valdastóli sem vill slá nýjan tón með þjóð sinni og ekki án hennar.
Beittu kylfum á mótmælendur | |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Flokkur: Stjórnmál og samfélag | Facebook
Athugasemdir
"Ég er sannarlega búin að fá nóg og vil kjósa."...sama hér!
Anna Benkovic Mikaelsdóttir, 20.1.2009 kl. 23:49
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.