Tortryggð vinasambönd

Ég á vini tvo úr sitthverri heimsálfunni sem eru mér afar dýrmætir. Þeir eru mjög ólíkir hver um sig og þó. Þeir eru báðir mjög góðir vinir mínir, einskonar sálufélagar þó á ólíkan hátt. Annar þeirra er Finni, hinn Brasilíumaður. Þeir hafa staðið með mér í gegn um þykkt og þunnt þótt oft væri það í fjarska. Við eigum í intellektual sambandi, elskum að tala saman um heima og geima, nördast svolítið, taka púlsinn á heimsmálunum og spjalla um eigin hag og annarra.

Margir hafa orðið til þess að tortryggja þessi sambönd mín, sérstaklega íslenskir karlmenn - sem mér finnst skrýtið. En Ok, eins og Leo vinur minn segir. Þú getur ekki ætlast til að karlmenn skilji að svona fögur kona eins og þú Anna sért svona mikill free spirit. Mér þykir auðvitað ekki leiðinlegt að vera skjölluð og ég er stolt yfir því að hafa haldið þessum vinasamböndum til streitu þrátt fyrir mótbyr á stundum frá ytra umhverfi.

Tek fram að ég hef aldrei átt þessa menn fyrir kærasta enda myndi það spilla því góða sambandi sem ég á við þá.

Fjarskiptasambönd geta þó verið flókin. Eins og um daginn þegar brasilíski vinur minn skypaði mig eins og hann gerir gjarnan (og þá ekki endilega á besta tíma. Oft er það um það bil þegar ég er að elda kvöldmat). Nú átti hann í hjónabandsörðugleikum og hvað átti hann að gera. Ég sálufélaginn dásamaði konuna hans, sem ég þekki vegna þess að ég hef heimsótt þau og hún er mér mjög kær..og sagði honum að hann væri líklega að ganga í gegnum tíu ára krísuna (yebb, alltaf svo gott að vera vitur fyrir aðra).  Reyndar tölum við sjaldnast á þeim nótum. Ég held þó og vona að mér hafi tekist að koma vitinu fyrir hann. Hann er háskólakennari og upplifir eins og þeir margir að nemendur eru bara alveg til í að gefa honum undir fótinn. Ég var að segja við hann að dirfast ekki að vera latino í því sambandi, ég vona að hann hafi hlustað. Þessir brasilísku eru, held ég, svoítið blóðheitir. Hann á bara svo frábæra konu. Hún er sálfræðingur af gyðingaættum og ég held einmitt að þess vegna hafi hún tekið mér svona vel, ég er ekki viss um að ef hún hefði verið kaþólsk að hún og hennar fjölskylda hefðu bara gúdderað einhverja íslenska vinkonu sisvona. Samtal okkar þennan dag var um margt óvenjulegt en aðstæðurnar eru væntanlega ekki óalgengar meðal fólks á okkar reki.

Við Leo tölum þó oftast um þjóðfélagsástandið í sitthvoru landinu, um vistvænt borgarskipulag, hagkerfi, félagskerfi og stundum spillingu og annað sem er sameiginlegt áhugamál enda höfum við starfað saman beint og óbeint í grænkortaverkefni í um áratug. Þegar ég heimsótti hann og Tönju í Brasilíu í vor pössuðu þau svo ofboðslega upp á mig að ég var með verndara í hverri einustu borg sem ég heimsótti. Ég hef bara aldrei upplifað aðra eins gestrisni.

Lassi, finnski vinur minn er stjórnmálafræðingur. Við spjöllum líka um heima og geima en þó mest um Norðurslóðarannsóknir sem eru sameiginlegt áhugamál, strauma og stefnur í pólitík og öryggismál og annað þvíumlíkt. Við vorum einmitt að hittast nú í kvöld því í hvert skipti sem hann á leið um Ísland borðum við saman og spjöllum. Lassi hefur að mörgu leyti verið mér mentor síðan ég kynntist honum fyrir tæpum áratug. Eg hef ferðast með honum á ráðstefnur og fundi í fjarlægum löndum ásamt öðru góðu fólki og í gegnum hann hef ég kynnst mígrút af fræðafólki í pælingum um Norðurslóðir. Fyrir það er ég honum einlæglega þakklát. Hann er svona maður sem á auðvelt með að gefa af sér og svo er hann týpískur Finni að því leyti að honum finnst bara alls ekkert óþægilegt að þegja saman, þegar þannig ber undir. Ég hef gert mér far um að sýna honum borgina eða nágrenni borgarinnar þegar hann hefur haft tíma og við höfum borðað saman picnic á þingvöllum. Þá var minn maður með finnskt rúgbrauð með og að sjálfsögðu vasahníf og við fengum okkur íslenskt álegg. Það var gaman.

Ég býst við að sumum gæti fundist skrýtið að vera svona þrjóskur - en fyrir mér er þetta nauðsynlegt frelsi að fá að eiga vini, sama af hvoru kyninu þeir eru, sem ég næ góðu sambandi við. Þeir eru báðir skemmtilegir í tilsvörum og analýtískir og ég met það mikils. Það er allt of mikið til af fólki sem einhvern veginn er alltaf að passa upp á einhvern front.  Ég er viss um að fleiri upplifa það sama og ég og aðrir munu væntanlega bara dæsa og tortryggja - eins og ég hef svo oft upplifað.

Skítt með það. Mér er sama. Góður vinur er meira virði en almenningsálitið.


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Steinunn Helga Sigurðardóttir

kæra anna, alveg yndisleg færsla. ég hef aldrei gert mun á vinskap við menn eða konur. einn besti og bestasti vinur minn mer maður, við höfum verið vinir í 20 ár !

knús inn í kvöldið

steina

Steinunn Helga Sigurðardóttir, 28.11.2008 kl. 22:44

2 Smámynd: Níels A. Ársælsson.

Ég kættist með fáum og mærði menn,

sem múgadómi sig trauðla háðu, -

leiður við einmæli allra senn;

oft átti mitt lof sá, er fæstir dáðu.

Ég mat ekki ljóðglapans lága hnjóð,

sem laklega hermdi, hvað aðrir kváðu,

- né þrælafylgið við fjöldans slóð

í forgönguspor, sem þeir níðandi tráðu.

Níels A. Ársælsson., 30.11.2008 kl. 10:21

3 Smámynd: Anna Karlsdóttir

Kæru Steina og Níels

takk fyrir innlitið. Steina! Þú átt góðan eiginmann fyrst hann lætur það ekki trufla sig, að besti vinur þinn sé karlmaður. Takk fyrir ljóðið - samdir þú það sjálfur Níels?

Anna Karlsdóttir, 30.11.2008 kl. 15:14

4 Smámynd: Níels A. Ársælsson.

Anna ég vildi að svo væri.

Einræður starkaðar eftir Einar Benediktsson.

Níels A. Ársælsson., 30.11.2008 kl. 15:46

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband