Frásögn af ferðamálaþingi

Mér er bæði ljúft og skylt að rapportera frá þinginu sem ég tók þátt í, í dag. Ætla þó að hoppa á fjallatoppum.  Og þá vil ég bæta við að Elding var vel að umhverfisverðlaunum ferðaþjónustunnar komið. Vei því, að fyrirtæki sem sameinar náttúrutengda, menningartengda og fræðslutengda ferðaþjónustu og sem að auki hefur haft sjálfbærni í starfsemi að leiðarljósi bæði með umhverfisvottunum og tilraunum í nýjum endurnýjanlegum orkugjöfum, skuli vera viðurkennt. Ég gæti ekki verið glaðari hvað það varðar.

Ég fagnaði erindi hæstvirts ferðamálaráðherra Össur Skarphéðinssonar þegar hann lýsti því yfir að hann myndi beita sér fyrir að áhersla yrði lögð á að styðja við frekari rannsóknir í ferðamálagreininni. Nú er ljóst að aðgerðir hans með niðurlögn þróunarsviðs byggðastofnunar munu mæta ákveðinni andstöðu en svo virðist sem að hann hafi áttað sig á að það verði ekki gert nema að bæta upp fyrir það með aukinni áherslu á ferðamál. Ein spurning stendur þó eftir í því sambandi hvaða stofnunum ætlar hann að muni eiga að fylgja eftir byggðaáætlun á Íslandi þegar að byggðastofnun er orðinn banki einn. Mér fannst þó í heild ræða hans bera keim af sterkri sýn og fagna því.

Eitt af því sem Össur lagði verulega áherslu á var að til að mæta aukinni þörf í markaðssetningu á Íslandi sem ferðamannastað á þeim þröngu tímum sem við lifum á væri fyrirsjáanlegt að tekna til þess yrði að afla i greininni, annað hvort með brottfarargjaldi eða svokölluðu veltugjaldi af starfsemi fyrirtækjanna. Hann óskaði eftir stuðningi greinarinnar til að beita sér fyrir því máli. Nú er ég ekki ekspert í gjaldtöku, en einn úr salnum taldi að tryggingagjald væri varhugaverður kostur þar eð margir ferðaþjónustuaðilar á Íslandi væru nú starfandi í neðanjarðarhagkerfinu og því myndi aukin gjaldtaka af því tagi einungis freista fleiri að gefa ekki fram starfsemi sína. Ég tel mig ekki nógu reynsluríka eða lesna til að geta ályktað um það en maðurinn hefur þó væntanlega eitthvað til síns máls. 

Ian Neale forsvarsmaður frá alþjóðafyrirtækinu Regent Holiday sem er hluti af alþjóða samsteypunni Western & Oriental Plc. og hefur starfsemi í 155 löndum, meðal annars Íslandi talaði fjálglega um að Ísland væri land tækifæranna og þá ekki síst í stöðunni. Hann taldi helstu tækifæri íslendinga liggja í að þróa ennfrekar afþreyingageirann því bretar væru óþreytandi ferðamenn og ef að gengið væri þeim í vil væru þeir enn frekar ágengari í að kaupa ferðir. Ísland hefði góðan hljómgrunn sem ferðamannaland jafnvel þó annað væri upp á teningnum um ímynd Íslands sem viðskiptaland.

Ég tók eftir því að nýjasti ferðabæklingur fyrirtækisins á þessar slóðir var Iceland - Greenland 2009 en enginn kommenteraði á það. Við Íslendingar erum alltaf jafn sjálfhverfir (þrátt fyrir nýliðin áföll) höldum alltaf að við séum í fyrirrúmi. Reyndar var enginn, ekki einn maður sem að tengdi okkur við Norðurslóðir eða hluta af leiðakerfi Norðurslóða. Það fannst mér býsna áhugavert.

Þór Sigfússon var næsti frummælandi og talaði hann um að nú væri afruglarinn í okkur bilaður og allt hefði breyst. Hann sá m.a tækifæri í að ferðaþjónustufyrirtæki sem ekki endilega væru stór gætu jafnvel meldað sig á kauphallarmarkað þar eð viðmið þar hefðu breyst og meira væri litið til stöðugleika og spennandi kosta. Það sem hann sagði þó ekki og ég hjó eftir, var að hin óeðlilegu viðmið í arðsemi hefðu vikið. Mér fannst hann vera jákvæður en svolítið fastur í farinu að því leyti að hann klifaði á klisjum sem kauphéðnar markaðarins hafa á undanförnum misserum gengið nánast af þjóðinni dauðri með. Sorrý Þór! Godt forsögt, eins og daninn segir, en afruglarinn í þér er ekki alveg stoppaður enn.

Ég var spenntust að heyra í nýjum ferðamálastjóra Ólöfu Ýrr. Hún brást ekki, mikið er gaman að við höfum fengið svona kröftugan ferðamálastjóra. Ég baunaði reyndar aðeins á hana en hún er þannig týpa að hún þolir það alveg.

Sigrún Björk Jakobsdóttir var síðan með alveg frábært erindi og ég verð að viðurkenna að hefði ég kosningarétt á Akureyri myndi ég örugglega kjósa hana.

Páll Ásgeir sveik sömuleiðis ekki, var bæði fyndinn og málefnalegur. Hnykkti út með því að villiböð væru auðvitað bara dulin stríphneigð og uppskar talsverðann hlátur úr salnum - þó megin boðskapu hans væri að við byggjum að mun meiri náttúrulegri auðlegð í náttúru og umhverfi en ferðaþjónustan væri að færa sér í nyt.

Allt í allt var þetta hressandi ferðamálaþing - með skemmtilegu fólki - Vei, vei! Ég var á einu fyrir þremur árum síðan þar sem ég hélt að ég myndi deyja úr leiðindum. Gott að framför er í gangi.

Leyfi mér að lokum að leggja hér við áskorun úr neistahópnum vegna þingsins. Ég tel það mikilvægt innlegg í þessa umræðu alla.

 

Að tilstuðlan Bjarkar Guðmundsdóttur sameinuðust virkustu náttúruverndaröfl
Íslands í áskorun til Össurar Skarphéðinssonar um að beita sér fyrir
náttúruvernd.
 
Áskorun til ferðamálaráðherra um að beita sér fyrir náttúruvernd !
 
Náttúruvernd samtvinnuð ferðaþjónustu er öflug leið til að markaðssetja
Ísland sem áhugaverðan áfangastað fyrir ferðamenn.
 
Náttúran er okkar mikilvægasta auðlind og sú náttúruverndarbarátta sem háð
hefur verið undanfarin ár og áratugi er öflugasta tækið til að kynna
sérstöðu og aðdráttarafl Íslands. Náttúruverndarbaráttan hefur sett í
forgrunn brýnasta viðfangsefni samtímans. Íslendingar gætu verið í
fararbroddi á heimsvísu í mótun nýrrar orkustefnu og afstöðu til
náttúrunnar. 
 
Við blasir, samkvæmt fáanlegum upplýsingum, að hvorki álver né orkuver verði
byggð eða stækkuð á Íslandi næstu mánuði og misseri. Framleiðsla áls hefur
að undanförnu dregist hratt saman, verð áls lækkað og fjármögnun
risavirkjana því næsta vonlítil. Stjórnvöldum ber að leita allra raunhæfra
leiða til að byggja upp fjölbreytilegt atvinnulíf og stuðla að sjálfbærri
þróun í sátt við náttúruna.
 
Í dag fjallar ferðamálaþing
(http://www.ferdamalastofa.is/displayer.asp?cat_id=621&module_id=220&element
_id=4342 
<http://www.ferdamalastofa.is/displayer.asp?cat_id=621&amp;module_id=220&amp
;element_id=4342> ) um það hvernig efla megi ferðaþjónustu á Íslandi. Að
undanförnu hefur komið fram fjöldi nýrra hugmynda um ónýtta möguleika í
ferðaþjónustu. Þær frjóu hugmyndir mega ekki stranda vegna stóriðjuhugmynda
sem hafa of lengi rutt annarri uppbyggingarviðleitni úr vegi.
 
Neðangreind náttúruverndaröfl skora á ferðamálaráðherra, Össur
Skarphéðinsson, að lýsa því yfir á ráðstefnu Ferðamálaráðs í dag að nú verði
náttúruvernd og ný orkustefna að vera í öndvegi ferðaþjónustu á Íslandi til
framtíðar.
 
Nattura.info
Náttúruverndarsamtök Íslands
Natturan.is
Framtíðarlandið  
Landvernd
 
Nánari upplýsingar veita: Björk Guðmundsdóttir, Árni Finnsson, Oddný Eir
Ævarsdóttir, Bergur Sigurðsson, Irma Erlingsdóttir, Guðrún Tryggvadóttir.
 

 

 


mbl.is Elding fékk umhverfisverðlaun Ferðamálastofu
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband