Ballið vestanhafs rétt að byrja

Greip orð Hildar Helgu Sigurðardóttur á lofti þar eð ég var að koma að vestan, nánar tiltekið af fundi með samstarfsfólki í verkefninu Arctic Observation Network - social indicator project. Þar voru gamlir kunningjar frá Ameríkunni BNA, Kanada, Noregi, Svíþjóð, Danmörku og Rússlandi. Við vorum á yndislegum stað nærri Amherst, Leverett heitir hann. Hæðóttir skógar, gamalt landbúnaðarsvæði sem áður var þekkt fyrir tóbaksrækt og nú hefur breyst í búsetulandslag velmegandi sem vilja svæði, læki og fuglasöng í kringum sig. OH, það var  borðaður nýr maís alveg út í eitt, enda uppskerutímabil - leiðinlegt að ég skildi hafa misst af því að stinga tönnunum í gott og safaríkt epli. Ég er mikil eplaæta og sakna þess ávallt hvað íslenskir kaupmenn hafa lítinn sans fyrir gæða eplum. Massachussetts fylki er í eplabelti Bandaríkjanna og ekki vantaði hlaðbúðirnar við vegina sem seldu maís, tómata og aðra dýrindis uppskeru.

Nú og tilbaka til ballsins. 

Með mér voru talsvert af Alaska búum sem ég þurfti að sjálfsögðu að spyrja útúr hvað varðaði varaforseta-framboð fylkisstjóra þeirra, nefnilega hana Söru Palin. Marie vinkona mín og samstarfskona var ekki allt of uppveðruð. Hún hefur reyndar verið dugleg í Alaska en á greinilega erfitt með að aðgreina persónulega hagsmuni frá starfslegum þar eð hún er viðriðin dómsmál í augnablikinu vegna þess að hún gerði yfirmann í fylkisstjórninni brottrækan vegna þess að hann vildi ekki reka fyrrverandi mág hennar sem hafði skilið við systur hennar nokkru áður. Mér finnst það auðvitað ekki meðmæli. Sharman hafði á hornum sér að hún væri svo trúuð að hún gæti ekki séð út fyrir þau gleraugu, t.d hefði hún mikið á móti fóstureyðingum og finndist að guð ræki stríðið í Írak. Ég er sammála því að það eru ekki beysin baráttumál en er viss um að mörgum Ameríkönum finnst það alveg ágæt stefna. Svo segir hún sig  vera baráttukonu gegn andsnúnum fjölmiðlum, sem mér skylst að sé sama stefna og Nixon rak á sínum tíma og gekk vel í almenning. Matt Berman samstarfsmaður minn sagði hana vera "social conservative" og að hún væri absolut ekki sín Ella. Við ræddum um að það væru örugglega margir miðstéttar-ameríkanar sem þó finndist hún einmitt svöl vegna þess að hún hefur skorið upp herör gegn fjölmiðlum og finnst blaðamenn of einstrengingslegir i umfjöllun sinni. Aðstandendur fatlaðra barna sjá líka fyrir sér góðan fulltrúa í lobbýi fyrir þroskaheftum innan ríkisins.

Athyglisverðust fannst mér þó innsend lesendagrein í dagblaðinu USA Today einn daginn, þar sem að kona kvartaði yfir umfjöllun dagblaða um að  gerð hefði verið athugasemd um að Sarah Palin hefði einungis fyrir mjög skömmu síðan eignast vegabréf. Sem er auðvitað nokkur vísbending um að hún er ekki mjög mikill kosmopolitan eða mjög fjölreist manneskja. Sendandinn vildi benda á að margir Bandarikjamenn ættu ekki vegabréf vegna þess að í eigin landi væri svo gífurlega mikill fjölbreytileiki að lítill þrýstingur væri á að sjá aðra heimshluta. Við innsendu greinina var ljósmynd af nýlegri ferð Sörunnar til Afganistan þar sem hún heimsótti bandaríska hermenn. Það má til sanns vegar færa að einungis 15-20% bandarísku þjóðarinnar á vegabréf og eru rök innsendandans því allskostar rétt þó að athugasemdir megi gera við að hugsanlegur fulltrúi eins mesta heimsveldis heims sé svo lítið sigldur. Það ætti allavega ekki að styrkja víðsýni í utanríkisstefnu, svo mikið er víst.

Kollegar mínir töldu að lítil ferðareynsla dömunnar væri ávísun á heimsku, sbr. íslenska orðatiltækið heimskt er heimaalið barn. Þannig að það má segja  að ég hafi ekki komið heim með mjög jákvæða umsögn um dömuna. Tel þó að Obama hafi farið fram úr sér með því að líkja henni við svín. Það finnst mér pínulítið ósmekklegt...og er reyndar alveg viss um að margar bandarískar konur snéru sér í rúminu ergilegar yfir að Hillary komst ekki áfram og urðu honum andsnúnar í kjölfarið. Kallinn skaut sig í fótinn, svo mikið er víst. Því að þó að Sarah sé örugglega ekki besti varaforsetakostur þessarar 300 milljóna borgara þjóðar er hún kona sem hefur ýmsa fjöruna sopið.  Það falla margir fyrir því, jafnvel þó hún sé með varalit og að ýmissra mati í of stuttu pilsi (afhverju rannsakar enginn buxnasídd karlframbjóðendanna).

Bandaríkjamenn eru gífurlega ginnkeyptir fyrir hégóma. Sarah er orðin uppáhalds grín tól spjallþátta stjórnenda sem hafa tveimur vikum eftir látið gera dúkkur sem að sýna konu með gleraugu og hnút í stuttu pilsi að skjóta úr byssu. Humm. Voðalega er ég fegin að vera ekki alvöru hluti slíks samfélags. Einhvern veginn. Úff. 

Finnst samt gaman að borða á diner..þegar ég er í AMERICA.


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband