Áfangasigur á fleiri vígstöðvum og tattúþref

Ég verð seint áhangandi sjónvarpsefnis um íþróttir en í dag var erfitt að halda sig frá skjánum. Ég hlustaði reyndar meira en horfði. TIL HAMINGJU ÍSLAND! Nú hefði Sylvía Nótt getað sungið fullum hálsi með örlítið breyttum texta svo við ætti. Ég er rosalega stolt af þeim drengjunum og vona svo sannarlega að þeim vegni sem best á sunnudag gegn Frökkum.

 Annar áfangasigur náðist í máli Paul Ramses þegar að Björn Bjarnason tók ákvörðun um að taka upp mál hans að nýju. Þetta þýðir að fjölskyldan getur sameinast á ný..Það er góð ákvörðun og í leiðinni sigur fyrir þá sem börðust fyrir því að mál hans yrði tekið upp. Gleði, gleði. Eg fékk einmitt póst frá henni Önju vinkonu minni sem var að segja mér að það væri sko ekkert grín að búa í Nairobi þessa dagana. 

Á meðan að ég tvísteig hér heima yfir hvort ég ætti að taka þátt í hlaupinu á morgun (róleg! bara skemmtiskokk hlutanum, ég er víst ekki hæf í hálfmaraþonið ennþá, hvað þá það heila), tilkynnti sonur minn mér að hann væri mjög lítið gefinn fyrir að streða og hann væri nú bara ánægður ef hann fengi fimm í einkunn í menntaskólanum.

Mér hraus hugur við þessum staðhæfingum. Mundi allt í einu eftir hvað ég var sjálf var lítið gefin fyrir metnað á menntaskólaárunum, nema auðvitað bara í því sem ég hafði einhvern persónulegan áhuga á.

Hann er blessaður á einhverju tilkynningaskeiði þessa dagana. 

 Í leiðinni tilkynnti hann að hann ætlaði að láta fara að tattúvera sig. OOOHHH. Mér finnst tattú ekki fallegt, en ég er búin að humma svona hluti, þegja eða þykjast vera upptekin yfir einhverju þegar hann tekur þessa takta, einmitt til að efla hann ekki í þessari dillu sinni í á annað ár. Allir vinirnir eru orðnir stimplaðir einhvers staðar á kroppnum.

Í þetta skiptið tók ég umræðuna upp við hann og benti honum á að einhvers konar slagorð sem hann ætlaði að  láta setja á brjóstkassann á sér gætu verið orðin úrelt eftir nokkur ár. Hlutir hreinlega breyttust stundum með tímanum og tiltrú manns á ákveðnum fyrirbærum eða persónum gæti einnig tekið breytingum. Ég sagði honum sögu af manni sem ég þekki úr æsku minni sem að var með amorsör í hjarta á upphandleggnum og upplitaðan borða yfir sem á stóð María. Vandinn var að konan hans hét eitthvað allt annað. Börnin hans þurftu því oft að svara fyrir hver þessi María væri. 

Við rifjuðum líka upp tattúsögu Troels frænda hans sem að hafði tattúverað allar kærusturnar sínar á einum handleggnum, þar sem nafn einnar tók við af annari þartil að armurinn var uppurinn og sú síðasta sem hafði fengið arma-ástarjátningu var farin úr hreiðrinu.

Troels fór þá í danska herinn og gegndi störfum víða um heim til að gleyma þessum bernskubrekum sínum og er nú með "tribal" tattú frá öxl niður að úlnlið til að fela öll kvenmannsnöfnin.

Ég veit svo sem ekki hvort ég náði einhverju fram með þessum vangaveltum um misheppnað tattú. Það mátti altént reyna. 


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Guðrún Vala Elísdóttir

Besta forvörnin er að fá sér tattú sjálf.  Það gerði ég og stóru strákarnir mínir hafa ekki hugsað sér að vera eins og mamma. ha ha ha.

Guðrún Vala Elísdóttir, 24.8.2008 kl. 01:16

2 Smámynd: Anna Karlsdóttir

Frábær hugmynd Vala!
Finnst meðgönguslitin þó næstum ígildi tattús.

Anna Karlsdóttir, 24.8.2008 kl. 17:01

3 Smámynd: Guðrún Vala Elísdóttir

Ég er ekki með meðgönguslit þrátt fyrir fjórar meðgöngur  og tattú er bara flott í hófi, eftir fertugt... hí hí

Guðrún Vala Elísdóttir, 26.8.2008 kl. 22:29

4 Smámynd: Anna Karlsdóttir

Það er ansi vel af sér vikið. Ég er reyndar ekki með nein heldur, ég var eiginlega að grínast. Mér fannst þetta bara hljóma svo vel. kannski ég ætti bara að fá mér tattú eftir allt saman.

Anna Karlsdóttir, 27.8.2008 kl. 23:23

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband