Gengið á hjara veraldar - Græna kortið.. og Ómar og Þórunn!

Nú fer að líða að því að vinnudagana stytti - því að ef allt gengur eftir get ég farið að hreyfa mig Norðaustur á bóginn, á hjara veraldar, útnára Íslands - minn uppáhaldsstað á Íslandslandakortinu. Er raunar að vona að ég komist til að ganga Melrakkasléttuna eða ströndina eins og hefur verið vaninn undanfarin tvo ár. Það er allra meina bót að leggja land undir fót og þá á ég ekki við að fara utan, heldur ganga, eins og ég geri ráð fyrir að upprunaleg merking orðatiltækisins sé.

Það er blásið til Sléttugöngu á laugardaginn 9.ágúst  og ég ætla bara rétt að vona að það verði góð mæting. Kannski er heldur tæpt að ég nái í byrjun göngunnar en kannski á hálfleiðinni næ ég hópnum í strandhluta ferðarinnar. Ætla samt að ganga eins og ég get. Ég get nú ekki farið að missa af því að koma við og enda í Grjótnesi, ættgarði forfeðranna.

Vona síðan að potturinn hennar Birnu frænku standi til boða að enduðu rölti (það hefur verið hrein unun að hvíla þreytt læri þar liðin ár í góðum félagsskap).

Síðan er ég að plana göngu um Langanesið - 12 og 13 ágúst. Ætla að vitja rústa býlis forfeðra minna í Ásseli, og langar að líta Font og Skála augum líka. Eyþór er búin að senda mér göngukortið frá Þórshöfn og ég vænti einhvers liðsinnis kunnugra við ráðleggingar um gönguna þar eð ég er ókunn staðháttum nákvæmlega. Síðan ætla ég að athuga hvort að Vilhjálmur pabbi Margrétar skólasystur minnar sem býr í Heiði geti ekki sagt mér góðar sögur. OH, ég hlakka til.

Umhverfið er ógleymanlegt, það er fallegt og snertir viðkvæma strengi (mig langar að semja ljóð, hefði ég talentana) og einhvern veginn er eins og sálin róist á einhvern hátt sem ekki er útskýranlegur. 

Baldur frændi minn benti mér á alveg frábærar bækur í fyrra. Sagnaþætti Benjamíns Sigvaldasonar um fólk og viðburði á 19. öld og byrjun 20. aldar þar sem koma fyrir skemmtilegar sögur af svæðinu. Ég hef notið þess að lesa þetta mér til fróðleiks, en hafði upp á bókunum eftir mikla leit í fornbókabúð þeirra feðga Braga og Ara Gísla. 

Græna Íslands-kortið er annars tilbúið þó það sé í sífelldri þróun og er aðgengilegt á síðunni www.natturan.is og á www.nature.is.

Heiðurinn af því verki eiga einkum Guðrún Tryggvadóttir myndlistarkona og framkvæmdastjóri og Einar Bergmundur tækniþróunarstjóri, með aðstoð minni og Tryggva þýðanda.  Þetta er mikilvægur áfangasigur. Verkefnið er þó eðli málsins samkvæmt endalaust.

Og svo verð ég að lokum að nefna hann Ómar og óska honum til hamingju með að hafa unnið alþjóðleg  umhverfisverndarverðlaun Seacology. Hann er sannarlega vel að þeim kominn, loks fékk hann uppreisn æru, því mér fannst þjóðin einhvern veginn hikandi í að hrósa honum eftir allt það sem hann hafði lagt á sig til að kynna sér auðlindanýtingarmálefni nágrannalandanna til að upplýsa íslenskan almenning um umhverfisleg áhrif virkjanaframkvæmda. 

Að síðustu langar mig að segja að mér fannst Þórunn umhverfisráðherra standa sig vel í Kastljósinu þar sem hún var í eldlínunni gagnvart hárbeittri Jóhönnu Vilhjálmsdóttur. Þar fóru tvær ákveðnar konur, en Þórunn hafði betur, svaraði rökföst öllum tilbrigðum spurninga um að baki ákvörðun hennar væri hvati til að stöðva áform um framkvæmdir. Ég vildi sjá fleiri stjórnmálamenn á þennan hátt.

 

 


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Steinunn Helga Sigurðardóttir

gangi þér vel eð lífið á íslandi.

Kærleikur til þín og allra

steina

Steinunn Helga Sigurðardóttir, 12.8.2008 kl. 16:47

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband