7.7.2008 | 00:31
Flogið á vængjum sumarsins (væri flottara ef það væri vorsins)
Þrátt fyrir að vera ein án strákanna um þessar mundir er margt skemmtilegt að sýsla.
Helgin hefur sannarlega verið viðburðarík og full af skynhrifum og upplifunum. Eftir að hafa farið að skoða íbúð með Völu vinkonu og spjallað við hana yfir hvítvínsglasi á vegamótum um framtíðina, málningarvinnu og skemmtileg matarboð, hjólaði mín heim.
Einhverra hluta vegna er Rósa sambýlisköttur minn ekki alveg að uppfylla félagslega þörf mína um þessar mundir þannig svo að ég hjólaði yndislegan spotta meðfram nauthólsvíkinni yfir í skerjafjörð og sá hvernig sumarið fer með ungviðið sem dansaði fjöruglega við logandi varðeld á ylströndinni og naut lífsins (mér sýndist þetta vera allt í sómanum, allir að skemmta sér).
Lykthrifin bárust að vitum mér á leiðinni og það eru gæði hjólamannsins, að þau skiftast, sætur keimur blómanna berst í vitin, grasið og hvönnin hafa annan og svo mætti lengi telja og úr verður besta sinfónía vitanna. Ekki er verra að vera með góða tónlist í eyrum - þá líður mér eins og fugli, frjálsri - er einhvern veginn að lifa í botn.
Við tók spjall við Pálma og Sigrúnu fornvini mína um lífið og tilveruna og skrýtnar aðgerðir borgarinnar í bakgarðinum...fram á nótt.
Sumarnóttin er þögul við Nauthólsvíkina - ég flaug tilbaka á hjólinu, hélt að klukkan væri rétt eftir miðnætti en leit á klukkuna...úps, hún var að ganga fjögur.
Í gær fórum við Sigrún Birgis síðan í fjallaferð, nánar tiltekið í anddyri Höfuðborgarsvæðisins og gengum á Hengilssvæðinu í nokkra klukkutíma. Þar var ægifagurt og jarðhitaholurnar hvissuðu og hvæstu, einar um að rjúfa friðinn í ólíkum dalverpum. Við enduðum síðan á að borða nestið okkar í laut og horfðum á ægifagurt útsýni að Skeggja og í hina áttina til Þingvallavatns. Veðrið var með besta móti, sól að mestu og hlýtt. Við völdum Fræðslustíginn í gegnum Dyradal. Hittum engann nema nokkra ferðamenn á einstaka útsýnispöllum og svolítið rjátlulegar kindur sem að hefðu þurft rúningu. Ég mæli með því að fara ekki of langt yfir skammt, og fá útrás fyrir hreyfiþörfina í þeim mörgu göngumöguleikum sem að svæðið býr yfir.
Eftir að hafa legið eins og skötur og notið lífsins í sundlauginni í Laugaskarði í Majorka veðri var stefnan tekin á þokulagt Reykjavíkursvæðið í dásamlegt matarboð hjá Heiðu sætu og Einari - þar sem urðu ánægjulegir endurfundir við menntaskólavinkonur ásamt öðru góðu fólki.
Í millitíðinni höfðum við Sigrún komið við í nýrri íbúð hennar sem er með útsýni yfir gömlu höfnina, eitthvað sem að kitlaði sjóntaugar mínar. Ég elska að horfa yfir hafnir og ekki er verra skoða mannlífið í leiðinni. Hópur fólks var að koma tilbaka úr hvalaskoðun með Eldingu. Það var gaman að sjá höfnina svona lifandi, þó á nýjum forsendum væri.
Þá var stefnan tekin á ölstofu Kormáks og Skjaldar þar sem margt var um manninn og nokkuð af kunnuglegum andlitum, auk vina. Skrýtið samt hvað maður nær lítið sambandi við fólk svona til að eiga einhverjar vitrænar samræður. Ég ílentist út í reyktjaldi þar sem gömul skólasystir úr menntaskóla söng og gerði grín. Önnur (líka gömul skólasystir) bættist í hópinn og fór mikinn (mikill húmoristi þar á ferð). Sú fyrrnefnda byrjaði þá að segja mér að hún hefði í mörg ár reglulega mætt á ölstofuna til að finna ástina og eftir að vera algjörlega búin að missa vonina, hefði hún nú loks fyrir stuttu hitt mann sem að hefði snortið hana í hjartastað (úti í tjaldinu). Hún var algjört kjútípæ þegar hún var að segja frá þessu. Ég eins takmörkuð og ég er, á samt erfitt með að sjá sjálfa mig vera svona þolinmóða. Mörg ár! Mér finnst að auki þessi rammi (þ.e barinn og umgjörð hans) ekki alveg vera staðurinn þar sem maður bara hittir þann rétta. En hver veit.
Í dag skellti ég mér í kolaportið og kom út klyfjuð...af bókum. Mér er ekki bjargar auðið, þegar ég kemst í bækur. Fann tvær ferðasögur, aðra frá nítjándu öld um Íslandsferð Dufferin lávarðar og er nú alveg djúpt sokkin í hana, aðra eftir danskar konur tvær frá fjórða áratug tuttugustu aldar. Ég fann að auki algjöran dýrgrip um síldarsögu Íslendinga.
Ef þetta heldur svona áfram enda ég á því að þurfa að borða bækur.
Í lok síðdegisins fór ég að sjá heimildarmyndina Kjötborg í Háskólabíói. Það er ekki oft sem ég er stolt af að vera Reykvíkingur en svo snart þessi mynd mig að ég kom gangandi út stolt sem páfi yfir því að í borginni okkar er griðastaður og sölustaður sem sameinar bæði mannkærleik og viðskipti. Gunnar annan kaupmannanna þekki ég úr æsku minni, við vorum nágrannar þegar ég var unglingur. Gunnar og Inga kona hans eru yndælisfólk og eljusemi þeirra bræðra er til að vera stoltur af. Ég þekki svosem líf hornkaupmannsins af eigin raun sem unglingur þar eð pabbi minn rak Birkiturninn ásamt félaga sínum til margra ára. Ég kynntist mörgum Vesturbæingnum á þeim árum þar sem ég hímdi í lúgunni og afgreiddi. Margt af því fólki sem kom fram í myndinni kynntist ég einnig þar. Þeir félagar gáfust upp á rekstrinum þegar að magninnkaup urðu reglan og lítil sjoppa mátti sín lítils í samkeppni við stórmarkaði og vídeóhallir. Birkiturninn er nú blómabúð (var áður bæði söluturn og blómabúð), og byggi ég í þeim enda bæjarins væri ég reglulegur gestur, enda mjög háð blómum og yndisauka þeirra.
Óvæntar gestakomur á reykvískum heimilum heyra orðið undantekningana til, en svo heppin var ég að eftir kvöldmat var hringt á dyrabjöllunni uforvarendes. Þar stóðu Helgi og Tóta sem höfðu verið að viðra nýju vespuna í fjölskyldunni. Ég heppin! Spjall yfir kaffibolla, hlátursrokur og gamanmál.
Þetta hefur greinilega bara verið annasamasta helgi eftir allt. Sannarlega flogið á vængjum sumarsins (oh bara að þessi árstíð væri lengri).
Meginflokkur: Dægurmál | Aukaflokkar: Ferðalög, Lífstíll | Facebook
Athugasemdir
kæra anna, þetta hljómar alveg yndislega, þetta með að hjóla fram og til baka var eitthvað sem maður þekkti varla þegar ég bjó á íslandi. takk fyrir að deila þessu !
kærleikur til þín á þriðjudegi.
steina
Steinunn Helga Sigurðardóttir, 8.7.2008 kl. 13:26
Kæra Steina
Borgin hefur tekið heilmiklum stakkabreytingum með sífellt fleira hjólreiðafólki. Veðrið hefur svosem ekki spillt fyrir. Allt í einu er vart þverfótað um fólk sem eru gangandi farþegar eða knapar á stálfákum. Það gerir Reykjavík yndislegri en ella væri.
Anna Karlsdóttir, 9.7.2008 kl. 17:10
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.