15.6.2008 | 14:51
Lífið í beinni kallar!
Margt hefur á daga mína drifið undanfarið svo ég hef ekki haft í mér eirð til að setjast niður og skrifa örfáar línur hér í dagabókina mína er svo kallast blogg á nútíma máli. Heimkoman til Íslands var góð, og þó að ég unglingamamman hafi staðið sveitt og reynt að þrífa upp uppsafnaðan skít á heimilinu eftir dásemdarstundir unglingsins án foreldraleiðsagnar er ég hamingjusöm að innan að vera umvafin ungunum mínum aftur.
Ég fór í Reykholt, heimabyggð Snorra Sturlusonar stuttu eftir heimkomu í intensíva verkefnahópsvinnu fyrir verkefnið litróf landbúnaðarins, ekki veitti af. Mikið var gott að komast úr iðu bæjarins Reykjavíkur og geta ótruflaður hugsað heila hugsun með eins fallegt útsýni og blasir við úr gamla skólahúsi Reykholts. Andinn er góður og umgjörðin frábær fyrir fræðihópa og aðra sem vilja fleyta ofan af bunkunum.
Ég notaði tækifærið og týndi svolítið af birkilaufum til vetrarforða í te, enda rétti tíminn til slíkrar týnslu.
Því miður misstum við af tónleikum Graduale Nobile kórsins sem var að fara að syngja í kirkjunni. Reykholtskirkja hefur ótrúlegan góður hljómburð, ég veit það af því að ég söng einu sinni þar með freyjukórnum undir stjórn hinnar dásamlegu konu Zsusanne Budai. Ég sá að Ragnhildur Gísladóttir og Eivör áttu að halda tónleika þar síðar. Mikið hefði ég verið til í að fara á þá tónleika hefði ég verið heima.
Næstu tvo daga fórum við Elías síðan í Hveragerði að vinna með Gunnu og Einari (og Ingibjörgu) að grænkortagerð. Sjá
Þau eru frábært fólk og gaman að vinna með þeim, gaman að spjalla. Mér finnst ég hafa eignast góða vini þar.
...Og viti menn, ég upplifði tvo skjálfta og hef nú miklu meiri samúð með þeim sem er illa við þá. Annar gerðist meðan við vorum að fá okkur kaffi, og hinn um nóttina. Sá fyrri var rétt við húsið bara upp í næsta fjalli og kippti óþyrmilega í (milli 3 og 4 á richter), og sá síðari var um 3. Það er skrýtið hvernig að sjötta skilningarvitið vaknar, við fullorðna fólkið v'oknuðum 'oll svona fimm mínútur áður en allt fór að skjálfa og hristast. Ég trúi því að fólk noti sjötta skilningarvitið oftar en það er fært um að skilgreina eða tjá.
Við fórum um svæðið, og sáum meðal annars bæ þar sem gólfið lyftist upp í og veggirnir hrundu niður um hálfan metra niður í gólfið. Annars virðist íslensk húsagerð að mestu standast náttúruhamfarir af þessu taginu. Sprungan í gólfinu á upplýsingamiðstöðinni í Hveragerði sem að hefur verið gerð sýnileg fyrir forvitna ferðamenn hélt ekki alveg, smá hrun af grjóti úr henni kvarnaðist niður í sprunguna, en það er auðvitað ekkert á við sprungurnar og jarð og steinskrið sem er sýnilegt úr fjöllunum.
Næsta dag var komið að því að fara til Osló á fyrsta fund minn í stjórn Norræna þróunarsjóðsins þar sem ég er varamaður. Í þeim sjóð eru margar blikur á lofti og starfsfólk sjóðsins orðið langþreytt á óvissuástandi um framtíð sjóðsins sem að norrænir (einkum danskir) ráðherrar sköpuðu fyrir nokkrum árum síðar (nánar tiltekið á afdrifaríkum og visions lausum fundi í október 2005).Nú er komið að vatnaskilum og málið orðið all bólgið pólitískt fyrirbæri innan ráðherranefndarinnar og norræna ráðsins sem er farið að krefja stjórnina um að útskýra mál sitt og koma með lausnir.
Fyrir mig var fundurinn afar athyglisverð lexía um lagskipta stjórnsýslu, kænsku embættismanna og leikrit á nokkrum plönum. Aðalmaðurinn fyrir hönd Íslands í stjórninni Egill Heiðar Gíslason er mjög fær og gaman að kynnast honum, en embættismenn úr utanríkisráðuneytum hinna norðurlandanna voru líka áhugaverðir einkum í ljósi framkomu og orðræðu (notkun á terminologíu, röksemdarfærslum og hagsmunagæslu).
Ég ætla að nota tækifærið og skrifa meira um það á næstu dögum svona milli þess sem ég held smá sólarfrí (það er alveg glatað að sitja við tölvu í of dásamlegu veðri).
Þegar heim kom beið mín vinkona mín Marie frá Alaska sem er að vinna með mér í verkefninu Arctic Observation Systems - Human Dimension. Hún er á ferð um norðurlöndin að byggja tengsl við samstarfsaðila og safna gögnum um sjávarútveg landanna. Eins og alltaf nutum við samveru hvor annarar, skrýtið hvað maður tengist sumu fólki auðveldlega. Við stöndum auðvitað í svipuðum sporum, erum mömmur í fullu starfi, háskólakonur í fullu starfi og kennarar og eigum samtímis að vera eins og hamstrar á hjóli í útgáfustarfsemi, gera garðinn frægann fyrir háskólastofnanir okkar sem oft á tíðum virða lítið við okkur púlið. Við höfum því margt að ná saman á.
Marie hafði tekið Tommy eldri son sinn með sem var skemmtilegt kompaní og fjörugt. Hann er bara sex ára og talar eins og foss rennur (hrikalega sætur). Á meðan að Marie var á hagstofunni sátum við og skemmtum okkur á kaffi amokka og manni lifandi, fórum síðan í bæjarferð þar sem við nutum hinna ýmsu uppákoma hins hússins. Í gær nutum við síðan lífsins á austurvelli eftir að þau mæðgin höfðu heimsótt bláa lónið og fórum síðan niður að tjörn (uppáhalds stað Tommy).
Tommy var himinlifandi yfir hvað mikið væri að gerast í Reykjavík. Hann býr í Anchorage og sér lítið annað en bílstólinn sinn, hina bílana í umferðinni og stór bílastæði þegar hann er á ferðinni. Hvernig ætli sé að alast upp sem barn með það fyrir augunum?
Jæja, nú kallar lífið í beinni - garðurinn og illgresið hrópar á mig inn um gluggann. Ég er til í þerapíu garðsins. Lífið í beinni bregst ekki.
Flokkur: Stjórnmál og samfélag | Facebook
Athugasemdir
Anna, góður pistill hjá þér.
Varðandi vinkonu þína Marine frá Alaska !
Hefur hún frætt þig um fiskveiðistjórnunina í Alaska og hvernig málum er almennt háttað í samanburði við Ísland ?
Níels A. Ársælsson., 15.6.2008 kl. 22:45
Sæll Níels
Já Marie (öðru nafni Marine) og ég höfum verið að skrifa bók saman undanfarið ár um áhrif fiskveiðistjórnunar á sjávarútvegssamfélög, svo við höfum rætt heilmikið saman um það. Hún hefur í mörg ár búið í Dutch Harbour á Aleutian eyjabeltinu þar sem fiskveiðar eru ríkur þáttur samfélagsins. Þar er auðnum í samfélaginu mjög misskipt. Greg maðurinn hennar er fyrrum sjómaður þaðan, hefur raunar einu sinni komið til Íslands í miður góðum tilgangi. Hann kom hingað með látinn félaga sinn íslenskan sem fórst í sjóslysi í Beringssundi, Greg var sá eini sem komst lífs af.
Anna Karlsdóttir, 16.6.2008 kl. 00:16
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.