3.6.2008 | 10:48
Hvalkjöt vegna bragðs eða vegna fortíðarþrár?
Ég er ein þeirra sem finnst gott að leggja mér hvalkjöt til munns og ekki finnst mér selkjöt verra. Ég ólst upp við hrefnukjöt í nokkru mæli. Það var ódýrara og aðgengilegra en nautakjöt í upphafi þess að íslenskar húsmæður fóru að gera tilraunir með kjötsósur að ítölskum hætti, pizzu álegg og annað framandlegra en heimilismaturinn að danskri húsmæðraskólafyrirmynd hafði áður flörtað við. Hvalkjötið var þó ekkert nýmæli á borðum íslendinga við sjávarsíðuna, það hafði fylgt landanum um aldir og verið hluti af bjargráði kynslóðanna til að tryggja afkomu barna sinna.
Í dag eru aðrir tímar. Til forna voru hér hvalstöðvar sem gátu selt nánast hvert einasta innyfli hvalsins til einhverra nota en í dag virðist vera fátt um fína drætti. Það má segja að hvalstöðvarnar hafi hér orðið eins konar vísir að iðnvæðingu svipað og innréttingarnar talsvert fyrr.
Ég þekki engan sem er í bráðvantar krínólín með spöngum úr hvalnum. Og eins er tími lýsisljósanna yfirstaðinn, á tímum landsvirkjunar, OR, REI ofl. og hvað þetta allt heitir sem gerir íslendinga svo græna í orkunotkun í útlöndum.
Ég hef heldur ekki tekið upp hefðir afa míns sem gjarnan gekk um með sel-lýsisflöskuna í rassvasanum og bauð flot á fiskinn gestum og gangandi. Ég borða bara hvalspik í Grænlandi eða Kanada, og raunar ekki með gleði heldur af kurteisi við gestrisna frumbyggja.
Þar eð framboð annar ekki eftirspurn með öfugum formerkjum hefur útflutningsleiðin verið valin.
Kjötið hefur verið sent til Japans því þar í landi kunna borgarar landsins enn að njóta bitans.
Ég hef oft farið í Svalbarð eða til Sægreifans eða á Þrjá frakka að næla mér í bita þegar ég verð sérlega soltin eftir hval, jafnvel á tímum hvalveiðibanns og virtist vera nóg af bitanum.
Við upphaf hvalveiða bentu menn á að synd væri að hvalveiðiskipin þyrftu að grotna í höfninni án athafna. Eins vildu menn meina að það væri þjóðar-réttur (lesist ekki sem matréttur) landans að hlutast sjálfir til um nýtingu eigin náttúrauðlinda (fiskistofna). Það var sama röksemd og íslendingar hafa gegnum tíðina notað um kvótakerfið og ómöguleika þess að ganga inn í Evrópusambandið.
Það er því margt sem bendir til að innanlands eftirspurn eftir hval sé bara ekki fyrir að fara lengur. Útflutningurinn til Japans gæti þess vegna verið vísbending um "desperat" úrræði svo hægt sé að benda á neyslu alla vega einhvers staðar sem rök fyrir hvalveiðum íslendinga.
Þráhyggjan um hvalveiðar er tilfinningamál fyrir mörgum sem hafa séð þróun sjávarútvegs í landinu fara óblíðum höndum um sjávarbyggðirnar og fólkið sem þar býr og lifir. Fyrir mörgum eru hvalveiðar haldreipi í þjóðarstolti (Bjartur í sumarhúsum á sig sjálfur og ræður hvað hann gerir).
Fyrir marga fulltrúa ferðaþjónustunnar eru hvalveiðar enn ein staðfestingin á að stjórnvöld hafa aldrei verið höll undir stuðning við þá grein á sama hátt og frumframleiðslugreinar dreifbýlisins á Íslandi hafa notist við. Jafnvel þótt að ferðaþjónustan sé einn helsti vaxtarbroddur dreifbýlisins á þeim tímum sem blasa við okkur um þessar mundir.
Ég veg og met og eins og venjulega er ég á báðum áttum. Er verið að halda í hvalveiðar vegna hins ómótstæðilega bragðs, er það vegna þess að við höfum sterka þörf fyrir að marka okkur stöðu sem sjálfstæð og óháð þjóð í norður ballarhafi. Er það ef til vill vegna þess að við rómantíserum þá daga þegar að Gylfi Ægisson var vinsæll með slagarana sína í útvarpinu og amma stóð yfir hrefnuborgurunum þegar komið var heim úr frystihúsinu í hádegismat.
Hvað ætli hvalirnir segji sjálfir. Ætli einhver hafi spurt þá?
Hvalkjötið enn ekki tollafgreitt í Japan | |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Flokkur: Stjórnmál og samfélag | Facebook
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.