16.5.2008 | 15:46
Frægðarför í rússneska sendiráðið
Ég er búin að bíða í óratíma eftir opinberu boði til Rússlands, eftir um mánaða bið kom það svo með hraðpósti DHL og ég gat drifið mig í rússneska sendiráðið hér í Kaupmannahöfn til að sækja um vegabréfsáritun. Rússar hafa fyrir löngu áttað sig á að það borgar sig að hafa féþúfu úr vegabréfsáritunum og því skemur sem sótt er um fyrir brottför þess dýrara er að fá áritunina. Þegar ég mætti í Kristianiagade var biðröð langt út á götu. Röðin hreyfðist varla. Einn og einn komst inn í einu og ég sá fyrir mér að það yrði skellt á nefið á mér því lokun var boðuð strax um 11.30.
Og mikið rétt. Klukkan 11.30 kom vörðurinn út og sagði að sendiráðið væri nú lokað, fólk sem ekki hefði komist að þyrfti bara að mæta eftir helgi. Ég var í sjokki þegar að um tugur fólks hvarf vonsvikinn frá. Tveir menn sem höfðu verið framarlega í röðinni ætluðu ekki að láta þar við standa og stóðu þrjóskulega við dyrnar sem nú voru læstar. Ég fór upp tröppurnar að húsinu og spjallaði við þá. Þetta voru menn frá danska útvarpinu sem sendir höfðu verið með passa starfsfólks sem átti að dekka einhvern viðburð (örugglega fótbolta eða eitthvað ámóta ómerkilegt!haha). Þeir voru með kontaktmanneskju í sendiráðinu sem þeir hringdu í og hún kom út til að ræða við þá á tröppunum. Þrátt fyrir ýmsar röksemdir tvímenningana gaf hún sig ekki. Ég sneri mér þá að konunni og setti upp mitt valdmannslega íslenska fas og kvaðst hafa beðið óratíma eftir opinberu boði (sem ég veifaði framan í hana) og ég væri alveg farin að örvænta hvort ég fengi nokkuð þessa blessuðu áritun sem væri nauðsynleg. Þegar ég sagðist í ofanálag vera íslenskur ríkisborgari breyttist allt hennar fas og ég sveif inn um dyrnar eins og ekkert væri á meðan að hurðinni var skellt á nefið á vonsvikna DR mennina.
Þegar inn var komið fékk ég nánast konunglegar móttökur og afgreiðslan á árituninni gekk svo greiðlega fyrir sig miðað við aðra sem sátu og biðu inni að ég hálf skammaðist mín.
Fyrir þá dani sem virkilega aðhyllast samsæriskenningar og trúa enn að tengsl séu milli íslendinga og rússnesku mafíunnar var þetta vatn á mylluna. Ég var sjálf auðvitað dauðfegin að fá afgreiðslu og ódýrari vegabréfsáritun en danirnir frændur okkar.
Hvort sem það var opinbera boðsbréfið sem var svona fallega orðað, ríkisborgarastatus minn eða valdsmannlegt fasið sem hafði svona hressileg áhrif á starfsfólkið mun ég sjálfsagt aldrei komast að, en það gekk. Fegin er ég.
Ég vorkenndi bara dönunum greyunum sem máttu fara fýluferð í morgun í sendiráðið.
Flokkur: Stjórnmál og samfélag | Facebook
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.