3.4.2008 | 20:39
Búin að skipta um skoðun varðandi mótmæli atvinnubílstjóra
Ég var stödd í bílabiðröð við Kúagerði í gærmorgun á leið með flugrútunni til Keflavíkurflugvallar vegna þess að atvinnubílstjórar ásamt liðstyrk frá 4x4 félaginu höfðu blokkerað veginn. Við biðum rúman klukkutíma. Ég spjallaði við bílstjórana og lögreglu sem gat lítið aðhafst. Einn bílstjórinn sagði við mig þegar ég spurði hvort að þeir ættu ekki hvort eð er viðtal við samgönguráðherra: Við viljum fá svör frá dýralækninum, hann virðist ekki vilja hlusta á málstað okkar! Ég hváði, mundi síðan fljótlega að fjármálaráðherrann okkar er menntaður dýralæknir.
Nema hvað. Við tókum þessu sem sannir Íslendingar, með þolinmæði og húmor þó okkur þætti þáttur jeppagreifanna skrýtinn í þessu öllu saman.
Klukkan hálf sjö losnaði um götuna og við svifum í átt að flugvellinum, enginn missti af fluginu, og við sem áttum flug klukkan 7.15 sem fór fyrst klukkan 7.40 vegna uppákomunnar vorum lent á áætluðum tíma í Kaupmannahöfn, klukkan 12.25.
Ég átti hugsanatíma með sjálfri mér á meðan að við vorum að bíða og horfa á fallegt hraunið á Suðurnesjum, sem maður reyndar gefur sér allt of sjaldan tíma til að horfa á án þess að líða framhjá - og komst að þeirri niðurstöðu með sjálfri mér að mótmæli þessi væru bara allt í lagi. Þegar ég hugsa til þessa fólks sem hefur atvinnu af að þeysa um vegina og flytja ýmsan varning átta ég mig á að það hefur ekki þjálfun í að tjá sig á skrift, eins og við hinar skrifandi stéttir. Það hefur þjálfun í að beita bílunum fyrir sig. Hvað er því eðlilegra en að bílstjórar sýni afstöðu sína með kúplingunni og bremsunni! Ég bara spyr?
Þó mér finnist eðlilegra að tjá sjónarmið mín á prenti helgast það fyrst og fremst af því sjónarhorni að ég er þjálfuð í, og mér er tamt að setja mál mitt fram í riti. Ég get hinsvegar ekki ætlast til að svo sé með fólk sem hefur starfa af einhverju sem er öðrum lögmálum háð.
Ég tilkynni því hérmeð að ég skil að atvinnubílstjórar hafi valið að mótmæla á þann hátt sem þeir gerðu óháð því hvaða skoðun ég hef persónulega á inntaki mótmælanna.
Það sem skiptir máli, er að atvinnubílstjórum tókst að koma málefnum sínum á framfæri. Fjölmiðlar tóku eftir, stjórnmálamenn tóku eftir og þarmeð er takmarkinu náð. Vil þó bæta því við að jeppafólkið í 4x4 var ekki að sannfæra mig í þeirri baráttu, svo það sé á hreinu.
Flokkur: Stjórnmál og samfélag | Facebook
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.