24.12.2007 | 14:42
Að hengja sig í hefðirnar!
Það var ekki að ástæðulausu að Leif Panduro skrifaði á sínum tíma Rend mig i traditionerne. Ég er farin að aðhyllast lífsspeki tannlæknisins danska, um að hefðirnar geti verulega þvælst fyrir fólki og eyðilagt annars góða afslappaða stemningu.
Ég átti skemmtilegt kaffibolla-spjall við gamlan vin, við eigum bæði börn sem eru skilnaðarbörn. Hann er ekki alinn upp á Íslandi og finnst íslensk stífni í samskiptum við hefðirnar geta verið fólki fangelsi fremur en þörf friðarstund. Ég er eiginlega svolítið sammála því.
Þegar maður á börn sem eiga foreldra sem búa á sitthvorum staðnum, er viðbúið að maður er ekki með þau á hverjum jólum. Þess vegna er það versta sem foreldrar skilnaðar-barna geta gert er að hengja sig í hefðirnar í of háu mæli.
Sem foreldri verður maður bara aðeins að sýna auðmýkt gagnvart lífinu og gangi klukkunnar og leggja meira í góða samveru eða friðarstund með sjálfum sér og öðru fólki en akkúrat börnunum sínum.
Ég er alltaf að verða meiri hippi með aldrinum og er búin að skippa öndinni og flestu öðru sem áður skipti mig máli.
Ég met meira vellíðan sem vaknar innra með mér við að sjá falleg ljósin, yndislegar híacinturnar, kertaljós í húminu, hlusta á góða tónlist og handleika góða bók.
Ég er svo heppin þessi jól að hafa börnin mín í kringum mig, og hlakka auðvitað til, en tek jólin ekkert allt of alvarlega annars, finnst þessi árstími hér á þessum breiddargráðum fallin til þess að fara í smá dvala og vera í afslöppuðum gír.
Ætla ekki að viðhafa neinar fastar hefðir nema þær sem börnin óska sér, ætla að forðast þær í lengstu lög í ár...og hver veit kannski tek ég upp á því á næstu jólum að elda fyrir heimilislausa eins og rokkarinn Robbie.
GLEÐILEG JÓL!
Megi ykkur líða sem best!Robbie Williams eyðir jólunum með heimilislausum | |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Athugasemdir
Gleðileg jól sömuleiðis Þrymur!
Anna Karlsdóttir, 26.12.2007 kl. 14:55
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.