10.12.2007 | 23:23
Hristingur yfir Grænlandssund og menningarsjokk eftir beljandann!
Þá held ég áfram með Kúbu-pistilinn úr dagbókum mínum frá því fyrir tæplega ári síðan.
Hvar á maður að byrja?
Ég kom hingað til Havana í gær (23.12.2006) eftir langa og hálf glæfralega ferð. Eitt versta veður ársins geisaði á landinu í mesta skammdeginu. Drægi úr vindi myndi vélin fara á loft. Eftir nokkra stund á hörðum bekkjum Leifsstöðvar var ákveðið að reyna að sigra veðurguðina. Við fórum á loft og hristumst yfir Grænlandssund. Ferðalangarnir í flugvélinni voru af ýmsum gerðum og stærðum. Mest bar þó á farþegum fyrstu sætanna sem skvettu duglega í sig. Einstæðir karlmenn dómineruðu fyrstu raðir vélarinnar. Markmiðin ljós með ferðinni, drekka og sóla sig.
Sessunautar mínir, tveir vinir á þrítugsaldri voru eftirvæntingafullir. Gamall maður sat fyrir framan mig og lyktaði af óþrifnaði og svita. Sessunautar mínir af gerjuðum bjór og reykhúsi. Ég veit ekki hvor lykthrifin voru skárri. Skötulyktin á Þorlák jafnvel skárri.
Í Halifax settist ég í þægilegan ruggustól og horfði út á flugbrautina á meðan að vélin var fyllt eldsneyti. Nokkrum Íslendingum fannst ég forvitnileg og héldu að ég væri fararstjórinn af því að ég sat í eina ruggustólnum í biðsalnum. Ég tók þá tali, þrjá unga menn sem voru ferðafélagar. Þeir ætluðu að skoða og stúdera Kúbu í lengri tíma. Sá þeirra sem ætlaði að vera lengst eða fram að páskum hafði áform um að skrifa kvikmyndahandrit. Hann sagðist hafa lært í Tékklandi en væri mjög spenntur að dvelja í Kommúnisku landi, það hefði hann aldrei gert!!! Þá áttaði ég mig á að kynslóðin sem er orðin fullorðin og á vonandi bjarta framtíð fyrir höndum hefur ekki lifað tímana tvenna. Það hef ég svosem heldur ekki, en munurinn er kannski sá að ég upplifði refjar kalda stríðsins og upplausnina í kjölfarið.
Hér í Havana eru karlmennirnir myndarlegir. Þeir minna mig á pabba minn. Enda kannski ekki skrýtið að pabba væri haldið í skipinu þegar byltingin átti sér stað áramótin 1958. Þeir sem þekkja hann og þekktu á þessum tíma gátu séð stór líkindi með Fídel og honum (enda hann með alskegg í þá daga).
Hitinn tók á móti okkur á Kúbu. Eftir komuna tóku Óli, Gunnþórunn og Málfríður á móti okkur. Ólafur sagði að ég ætti að búa hjá gamalli konu á móti helsta klaustri Kúbverja, Convento de st.Clara.
Fyrir utan rútu númer fimm þurftum við íslendingarnir enn hálf svefndrukknir af myrkrinu heima að bergja á vatni. Flestir völdu þó Cerveza.
Ein af konunum sem var ein á báti eins og ég tók mig tali og sagðist heita Jóna og spurði hvort við ættum ekki bara að sameina kraftana og halda saman í ferðinni? Það leist mér vel á. Hún átti að búa á Hótel Plaza - svo við urðum samferða í rútunni.
Á leiðinni var stoppað við útsýnisstað þar sem var ægifagurt útsýni og Pina Colada á tilboði.
Á meðan að hópurinn sötraði saltsætan drykkinn gátum við staðið á himinháum svölum og horft yfir djúpt gilið þar sem tugir gamma svifu yfir . Okkur var ekki ljóst hvaða æti þeir gímdu yfir en eitthvað áhugavert hlýtur að hafa verið í skóginum fyrir neðan.
Þegar við komum til Havanaborgar tók við ævintýri sem kristallaði ræðu herra Ólafs úr rútunni.
Í þessu sérkennilega landi er ekki allt sem sýnist!
Mér fannst einkum áhugavert að átta mig á að Kúbanar hafa ótrúleg þolrif og að ein meginástæða þess að íbúar lansins hafa staðið þétt viið bakið á félaga Castro (sem þeir tala um af mikilli aðdáun), þrátt fyrir fátækt og þvergirðingslega stefnu hanns, er að þeir átta sig á að hann er að verja eitt helsta vígið sem Bandaríkin telja sig hafa heimtur til, hér í Karabíska hafinu.
Ég hafði hreinlega ekki áttað mig á fyrr, hversu miðlæg eyjan hefur verið sem bitbein í pólitískri sögu svæðisins.
Ég er að hlusta á band sem heitir Mageyr, hljómfallið og tregafullur söngurinn vekur uppí mér nostalgíu til Mexíkó, Guatemalla ferðarinnar forðum daga. Það er aðfangadagur og íslendingar líklega um það bil að setjast að borðum. Ég er að borða yndislegar baunir og hrísgrjón, ánægð og glöð yfir að vera langt fjarri ofurbústnum væntingum um gjafir og gaum.
Ævintýrið sem tók við í Havanaborg var að hefjast.
Óli fór með mig og herbergislausan Íslending seem ég man ekki lengur hvað heitir í leigubíl til gamla borgarhlutans. Á leiðinni talaði hann fjálglega um að herbergið sem var á fimmtu hæð, það væri mjög sérstakt. Uhm, mér var ætlað að upplifa eitthvað frábrugðið. Frábært!
Þarna var þakveranda (að hans sögn) svo sást yfir alla Havana viejo.
Gamla borgin er hrörlegust og eins og Óli minntist á, sorglegt að þessar fallegu byggingar hafi verið látnar grotna svona niður.
Hér er þó engin eignahaldstengd stéttaskipting og fólkið allt mjög vinalegt.
Leigubílstjórinn æddi um götur gömlu borgarinnar og kallaði öðru hverju út um gluggann til íbúa eins og þeir gera hér gjarnan - eins og til að leggja áherslu á að erfitt sé að rata um - og væntanlega til að treina sér tímann svo ferðin verði eilítið dýrari. Þetta er leiksvið og maður verður var við það í mörgu.
Þegar við loks komumst að klaustrinu í einum hrörlegasta hluta borgarinnar sem er kominn á heimsminjaskrá UNESCO fyrir hnignun - gengum við upp dimmar þröngar tröppur með allan farangurinn (hvenær læri ég eiginlega að pakka almennilega!!).
Loks þegar við komum upp var læst og eðla skreið á vegg mér til friðþægingar (hata sporðdreka þó ég sé sjálf einn og aðrar pöddur).
Framhald síðar......
Meginflokkur: Ferðalög | Aukaflokkur: Stjórnmál og samfélag | Breytt s.d. kl. 23:38 | Facebook
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.