Ég er ósammála yfirlýsingu ferðamálasamtaka Íslands og skil eiginlega ekki afhverju aðalfundiurinn er svona ragur við breytingar í stjórnskipan ferðamála hér á landi. Það eru fyrirséðar breytingar í honum hvort eð er þar eð Magnús Oddsson ferðamálastjóri ætlar að hætta um áramótin. Helga Haraldsdóttir hefur sinnt ferðamálum í samgönguráðuneyti. Um það er samið að hún flytjist yfir eftir því sem ég best veit.
Eins og kemur fram í fréttinni eru menn hræddir við að sú þekking sem hafi byggst upp í geiranum hverfi eða rýrni með tilflutningi málaflokksins úr samgönguráðuneyti yfir í iðnaðarráðuneyti. Ég gæti ekki verið meira ósammála, ég held að þetta snúist frekar um valdahlutföll en þekkingu. Það er nær óhugsandi að þekkingin glatist við að færa manneskju neðan úr hafnarstræti og upp í ráðuneytaþyrpingu við Arnarhólinn. Nema að henni verði byrlað eitthvað á leiðinni sem fær hana til að gleyma. En mér þykir það heldur ólíklegt að það komi fyrir.
Nú er það svo að mjög stór fyrirtæki í ferðaþjónustu hafa ráðið ríkjum hér á landi, þó flóran í ferðaþjónustunni (fyrirtækin) séu mun margbreytilegri. Kannski eru menn hræddir við það, að ríkjandi fyrirtæki missi völdin?
Samgönguráðuneyti og fyrirmenn stjórnskipunar ferðamála hafa allavega engan veginn verið að standa sig gagnvart öllum ferðaþjónustufyrirtækjum í valdaráni kynnisferða á BSÍ.
Vilja fresta flutningi málefna ferðamála til iðnaðarráðuneytis | |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Athugasemdir
Er ekki Seðlabankinn þarna nokkurn veginn á leiðinni - og aldrei að vita hvað gæti gerst þar eða á Kalkofnsveginum.
Annars hef ég nú ekki áttað mig almennilega á því hvers vegna ferðamál fara yfir í iðnaðarráðuneyti en ekki viðskiptaráðuneyti úr því að þeim var skipt í sundur. Er það til að gera þau ráðuneyti eitthvað örlítið veigameira hvort fyrir sig?
Ingólfur Ásgeir Jóhannesson, 19.11.2007 kl. 14:09
Það er vegna þess að ráðuneytið hans Össurs er ráðuneyti iðnaðar og byggðamála, en í ferðamálastefnu eru byggðamál og ferðamál samtvinnuð.
Anna Karlsdóttir, 19.11.2007 kl. 14:30
Sorrý, eitthvað fljót á mér. Ráðuneytið hans Össurar....
Anna Karlsdóttir, 19.11.2007 kl. 14:32
Já, svo ferðamálastefna er byggðastefna. O.k., má örugglega rökræða hvort ferðamálastefna eigi að vera samþætt við byggðastefnu umfram t.d. húsfriðunarstefnu í Reykjavík, t.d. finnst mér mjög gaman að vera ferðamaður á Laugaveginum (í Rvík), en hafði ekki áttað mig á að sú ferðamennska tengdist byggðastefnu. O, jæja, kannski þetta sé samt ágætis mál því að ferðamennska snýst náttúrlega engan veginn eingöngu um samgöngur eins og veran í samgönguráðuneytinu gæti gefið tilefni til að ætla ...
Ingólfur Ásgeir Jóhannesson, 19.11.2007 kl. 16:50
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.