Skemmdarfýsn, sér Reykvískt fyrirbrigði?

Hluti af starfi mínu er helgaður því að lýsa land og lýð. Eitt fyrirbæri er að mínu mati alveg sér Reykvískt, og ég get ekki sagt að ég sé stolt af því.

Það er hinn alkunni "vandalismi", eða skemmdarfýsn sem helst beinist að opinberum eigum á víðavangi. Undanfarna daga hefur greinilega geisað alda eyðilegginga á strætóskýlum víða um borg, þar sem glerið í skýlunum sem hannað er til að vernda bíðandi farþega fyrir vindi og veðrum hefur verið "smallað".  Þetta er alls ekki í fyrsta skipti sem þessi ótrúlega tilgangslausa eyðilegging verður á vegi mínum. Í fyrravor varð ég vör við að reynt hafði verið að bræða stopp-takkann við gangbrautina heima hjá mér, þá hafði verið krotað yfir leiðalýsingar strætó, og það hafði verið slökkt í sígarettum á bekknum sem nú var svörtum sárum lagður. Þá hef ég áralanga reynslu af því að vera "áhorfandi" að slíkum niðurbrotsverkum, sem hljóta að kosta hið opinbera drjúgan skilding að gera við á ári hverju.

Í erlendum borgum hef ég aldrei orðið vör við viðlíka skemmdir nema í ghettóum eða fátækrahverfum þar sem innibirgð reiði og vanlíðan ólgar vegna félagslegrar armæðu og fátæktar. Í mörg ár var ástandið þannig í Reykjavík að blóm sem settu höfðu verið í reiti í almenningsgörðum eða álíka viðleitni til að fegra umhverfið var rifið upp eða troðið niður, að því er virtist einungis til að svala einhverri sadistaþörf. Mér var sagt sem barni að ástæðan fyrir því að ekki væru svona tyggjókúlusjálfsalar í opinberum rýmum eins og erlendis, væri að íslendingar skemmdu þá um leið. Miðað við það og blómin hefur ýmislegt batnað frá því þá. En ég get ekki að því gert, að enn undrar mig hvað fær fólk til að níðast eins og apar á dauðum hlutum í þeim tilgangi einum að eyðileggja.

Ég bý í hlíðahverfinu og hef hingað til ekki álitið það vera neitt alvarlegt félagslegt ghetto, og hef reyndar talið að slíkum hverfum væri ekki fyrir að fara í Reykjavík. En ég held ég þurfi kannski bara að fara að endurskoða þetta eitthvað..


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Anna Karlsdóttir

Já varstu í Helsinki! Það er sérstök borg. Mér finnst Finnar líka frekar lokaðir en mjög líkir íslendingum. Gaman að vita að þeir eru vinalegri en landar okkar. Og ég er innilega sammála þér með agaleysið.

Anna Karlsdóttir, 4.11.2007 kl. 17:23

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband