9.9.2007 | 12:14
Áhrif leiðinlegra forstjóra
Nýr forstjóri stórfyrirtækis hér á landi hefur á sér það orð að vera einn leiðinlegasti maður á Íslandi. Ég sel það ekki dýrar en ég keypti það - en orðsporið er að í 25 metra radíus í kringum hann stökkvi fólki ekki bros á vör. Síðan að eigendaskipti urðu á fjármálafyrirtæki í bænum hefur útskipting starfsmanna verið hröð og er það rakið til nýrrar stjórnunarstefnu. Á okkar tímum eru forstjóraskipti oft hröð vegna breytinga í eignahaldstengslum. Þá er oft í kjölfarið breytt um starfsháttareglur og ýmsar tilfærslur gerðar í starfseminni sem reyna meira á starfsfólk. Ég fór að velta fyrir mér áhrifum leiðinlegra forstjóra sem er víst víða að finna um bæinn. Það er auðvitað mikilvægt að þessir menn og konur standi sig og séu öðrum (sérstaklega innan fyrirtækisins sem þau stjórna) fyrirmynd. En það er svolítið eins og sú manneskjutegund sé í útrýmingarhættu um þessar mundir. Mér skylst að eftir að eignahaldsbreytingarnar urðu á flugfélagi hér í bæ og nýr forstjóri tók þar við hafi andrúmsloftið innan fyrirtækisins orðið kalt og grámuskulegt, svo leiðinlegt að á árshátíð fyrirtækisins þar sem samstarfsfólk jafnan gerir sér glaðan dag hafi fólk læðst út áður en maturinn var yfirstaðinn. Ég held því miður að dæmin um mannelska forstjóra fari fækkandi í síharðnandi samkeppni og kapphlaupi um arðsemi. Mér finnst ekki endilega að forstjórar eigi að vera skemmtikraftar en hegðun þeirra og framkoma hlýtur að hafa áhrif á starfsemi, starfsfólk og til lengri tíma velgengni fyrirtækisins.
Flokkur: Stjórnmál og samfélag | Breytt s.d. kl. 12:20 | Facebook
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.