Mamma! Komdu heim úr vinnunni NÚNA!

Ég er ein af þeim sem á barn sem er á biðlista í skólaskjól. Ég er á barmi taugaáfalls þessa dagana vegna margra samverkandi þátta. Skólastarfið í Háskólanum er að byrja, ég er með deadline á þrjár greinar og sonurinn situr heima og horfir á sjónvarpsmarkaðinn, það er að segja áður en hann vogar sér að hringja í mig og kalla mig heim úr vinnu. Hann greyið er eina barnið í bekknum sem ekki er í skólaskjóli.  Í dag er annar dagurinn sem ég vakna klukkan fimm að morgni í svitabaði, sest fyrir framan tölvuna og byrja á verkefnum dagsins áður en þarf að koma drengjunum í skóla. Ég tel þetta svo sem ekkert eftir mér. En það er auðvitað í mér beigur af því ég er ein um þá og engin sem getur backuppað mig ef ég crasha.  Það er nú svo - sumt af stressinu er sjálfskapað og sumt í samfélaginu hér gerir manni ekki auðveldara fyrir.

Ég þarf einhvern veginn að merja þetta þangað til blessað barnið kemst inn! Ekki get ég minnkað við mig í vinnu, því að það veit almáttugur að við lifum ekki á því og auk þess er sá kostur ekki falur á mínum vinnustað.

Sonur minn plataði mig til að afskrá sig úr skólaskjólinu í sumar á þeim forsendum að hann væri að verða stór. Jú, hann er átta ára.... Ég fékk bakþanka síðar í sumar og endurskráði hann, en viti menn þá var plássið ekki lengur til.

Mér varð ekkert um sel þegar ég heyrði að yfirmaður frístundaheimila borgarinnar hefði sagt í fréttum að þó hún væri bjartsýnismanneskja að eðlisfari þá myndi ekki verða mannað starfsmönnum þannig að allir þeir sem væru á biðlista kæmust að.

Já, ég veit ekki! Ég vona bara að einhver lausn finnist, því mér er ekki skemmt þessa stundina.


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 identicon

Kæra frænka, ég er með lausnina. Flytja í Þorlákshöfn og þá þarftu litlar áhyggjur að hafa af drengnum, hann leikur úti allan daginn :) Ekkert mikið mál að keyra í vinnuna í Reykjavík og svo vinnur þú örugglega talsvert heima og líka útum allt heyrist mér ;)

Aðalbjörg Jóhanna (IP-tala skráð) 29.8.2007 kl. 09:10

2 Smámynd: Anna Karlsdóttir

Ég er viss um að lífið í Þorlákshöfn er skemmtilegt...ertu annars flutt þangað búferlum? En ég verð að viðurkenna að ég er í hálfgerðum vistarböndum hér á mölinni vegna skólagöngu afkomendanna.  Kem við tækifæri í heimsókn á suðurlandið.

Anna Karlsdóttir, 31.8.2007 kl. 17:10

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband