Hugleiðingar um vaxtakerfið og hinn skynsama óvita rifjaðar upp!

Ég er stödd í húsi afa míns og ömmu á norðurhjara Íslands og finn texta eftir danann og ísfirðinginn M.Simson í skrifstofu afa míns, rúmum 20 árum eftir að hann lést. Þessi rykugi bókarvísir hefur árið 1965 (þegar hann var gefin út) verið innlegg í þjóðfélagsumræðu þess tíma þó hann sé skilgreindur sem andleg vísindi á málfari þess tíma. Mér finnst ég hafa fundið gullmola nú þegar Ísland siglir inn í það að ætla sér að verða bankaþjóð og fjármálastofnanir og starfsemi þeirra er fjórða stoðin í gjaldeyristekjum þjóðarinnar. Orðræðan í bókinni er í anda Helga Sæmundssonar, mikilfenglegar lýsingar sem þykja kannski fornar en bera með sér að skrifandinn hefur verið innblásinn.

M.Simson virðist hafa átt fjölskrúðugt lífshlaup. Fram kemur á baksíðu að hann hafi komið frá Norður Jótlandi af fátæku sveitaheimili og gerst trúður í sirkus frá 17 ára aldri til þrítugs. Þá hafi hann farið til Íslands árið 1915 með fjölleikasýningar en síðan sest að á Ísafirði þar sem hann lærði ljósmyndun og starfaði sem ljósmyndari síðan. Hann virðist hafa verið ákaflega handlaginn og listskapandi - hann hafi smíðað 50 útvarpstæki á byrjunarstigi þess undurs en einnig gerst myndhöggvari og eftir hann sé meðal annars myndastyttan sundkonan og sundmaðurinn fyrir framan sundhöll Ísafjarðar. Eins að hann hafi verið brautryðjandi skógræktar á Vestfjörðum.  

Meginkjarni bókarinnar er að vaxtakerfið sé rót hins illa í samfélaginu og að það sé í rauninni lögleiddur glæpur í dulargervi..eða með orðum höfundarins sjálfs lögvernduð fjárkúgun. Fyrir þessu eru ótal rök færð sem bæði hafa skemmtanagildi en er þó að mörgu leyti óhemju sannleikskorn í. Það er til dæmis rétt hjá höfundi að "Vextir eru ávallt auðsöfnunaraðferð þeirra sem hirða þá".  Það er hreinlega svo mikið af gullkornum í þessum bókarpésa að ég ætla að láta nokkra fljóta með að gamni.

"Vaxtakerfið er í vitund flestra manna eðlilegt og sjálfsagður hlutur. Þeim finnst það bæði réttlátt og nauðsynlegt. Hin dýrslega valdafíkn er ennþá svo mikils ráðandi í mannlegum hugarheimi, að flestum finnst það eðlilegt, að hinn sterkari kúgi og arðræni hinn veikari."

"Vog, mál og peningar eru aðeins hugmyndir - andlegar stærðir - og ekki verða með nokkrum rétti leigðar hugsanir, þ.e.a.s. hugsaðar stærðir, eins og maður getur t.d leigt hús. ..Efnisleg verðmæti hafa ávallt sama notagildi, hver svo sem gildismælirinn er. Þar sem gullið í þessu falli telst gildismælir (þegar að gengi gjaldmiðla miðaðist við gullfótinn; mín athugasemd), fylgir það hækkun og lækkun peninganna, og er því einskisvirði sem hugmyndalegur gildismælir, og gullið hefur ekki einu sinni neitt efnislegt gildi, fyrr en því hefur verið breytt í nytjamuni, og hið eina efnislega gildi peningaseðla, er að nota þá á salerni, og á ekki að taka þetta sem neina fyndni."

Uppáhaldskafli minn er nefndur Hið lögverndaða þrælahald. Hér eru nokkrar tilvitnanir úr honum.

"Þrælar nútímans eru langtum ver settir en fyrri stéttarfélagar þeirra, og fjöldi þeirra er óteljandi og spennir um allan heim...Þrælahaldarar nútímans hafa sína þræla ókeypis með öllu, og er þetta gífurleg framför á sviði þrælahalds. Abraham Lincoln barðist gegn hinu opinbera þrælahaldi, sem hann kallaði hinn mesta allra glæpa. Vaxtakerfið var þá ekki orðið allsráðandi, og sjálfsagt hefur hann ekki rennt grun í, að vegna fávisku manna og hinnar mannlegu illvitundar, yrði myndað falið (dulbúið) þrælahald um allan heim.......Það er nefnilega þrælahald, sem er svo snilldarlega dulbúið, að þrælarnir sjálfir gera sér yfirleitt enga grein fyrir því, að þeir séu þrælar. Þeim virðist jafnvel að kerfið sé réttlátt, og hinir ríku, sem lifa ríkmannlega á þrælum sínum , mega vissulega prísa sig sæla vegna botnlauss skilningsleysis mansmanna sinna."

og þá spyrja ef til vill einhverjir - hvað með hinn skynsama óvita - hver er það? Hér er svarið!

"Hinir skynsömu óvitar segja: Vaxtakerfið er ekki verra en önnur kúgun, og þótt vextir verði bannaðir verður bara notuð önnur kúgunaraðferð. Ójá, ekki er nú sálarfræðin á háu stigi hjá blessuðum óvitunum með alla sína skynsemi. Við erum hér við hina..þýðingarmiklu skoðun Arthurs Millers, um samviskuna og "siðferðisvegginn" sem þessi frumstæði hugsunarháttur alls ekki getur yfirstigið...."

Svo slær hann svipunni til vitsmuna og þroskastigs!

"Fyrstu ávextir vitsmuna eru helvíti þó flestir vaði í þeirri villu að vitsmunir séu í sjálfu sér hátt þroskastig. Á vorum dögum höfum við mikinn fjölda hálærðra stærðfræðinga, vísindamanna og teiknimeistara og ennfremur mikla og gáfaða bófaforingja, samfara hinum miklu vitsmunum sinum hafa þessir menn frábærlega frumstætt og snoðið tilfinningalíf, sem svo veldur því að siðgæði þeirra og sálarlíf er á hreinu frumskógarstigi. Og í þessum lærðu og hálærðu mannverum höfum við einmitt þá manntegund sem er mest ráðandi í mannfélagi nútímans, og sem er í fyllstu merkingu hinn skynsami óviti....Hinir tilfinningasnauðu vitsmunamenn nota auðvitað vitsmuni sína (vegna hins lága siðgæðisstigs) í þágu hinnar dýrslegu sjálfselsku, ef til vill oft án þess að gera sér grein fyrir því sjálfir."

Ég er búin að liggja yfir þessu undanfarin kvöld og hef haft heilmikið gagn og gaman af. Mér finnst auðvitað margt eiga við í samtímanum þó ég sjálf myndi vera sparlegri á stóryrði. Mér finnst einnig ákaflega merkilegt að maður sem á bakgrunn í sirkuslífinu og trúðsskapnum skuli vera svona glöggur á að sjá í gegnum fjármálasirkusinn. Ég vissi bara ekki að svona merkilegur maður (sem örugglega hefur dansað á línunni milli andlegs heilbrigðis og kreppu) hefði búið á Ísafirði. Ég myndi vilja lesa ævisögu hans eða sjá um hann bíómynd.


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Árni Gunnarsson

Þetta hefur greinilega verið stórmerkilegur karl. Og heimspekingur út í fingurgóma.

Gaman hefði verið að fylgjast með þeim Hannesi Hólmsteini takast á um siðfræði frjálshyggjunnar.

Ég er ekki alveg sammála þér um línuna milli andlegs heilbrigðis og kreppu. Ég held að hann hafi bara verið búinn að hreinsa vel út úr sálinni.

En það, útaf fyrir sig er náttúrlaga galskapur.

Bestu þakkir.

Árni Gunnarsson, 6.8.2007 kl. 07:25

2 Smámynd: Anna Karlsdóttir

Já, finnst þér ekki! Já Hannesi Hólmsteini litist væntanlega ekki vel á þessa speki. Það sem ég átti við um að dansa línuna milli andlegs heilbrigðis og kreppu var að fólk sem þorir að tala um hlutina umbúðalaust hefur oft ýmsa fjöruna sopið (meint í skilningi þess að hafa upplifað flóð og fjöru andlega), já kannski búið að hreinsa aðeins til í huganum.

Anna Karlsdóttir, 7.8.2007 kl. 21:38

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband