5.7.2007 | 10:42
Fiskifélag Íslands í sæng með norrænum nágrönnum?
Það heyrir til tíðinda að forsprakkar sjávarútvegsins hér á landi telji sig græða eitthvað á sjónarmiðum annarra þjóða hvað varðar fiskveiðar og sjávarútvegsgreinina. Hingað til hafa mennirnir í brúnni í íslenskum sjávarútvegi á hvaða vettvangi sem er talið sig yfir aðrar þjóðir hafnar hvað varðaði snilld og útsjónarsemi í tengslum við greinina. Mér þykir stofnun norrænna fagsamtaka því fréttnæm. Ég fagna því, en er líka leið yfir að slíkt hafi ekki gerst fyrr og einkum áður en að norræna samstarfið í gegnum ráðherranefndina og norðurlandaráð lippaðist niður þegar samstarfsþjóðirnar hættu að veita þangað fjármagni svo einhverju næmi. Norræna samstarfið má muna sinn fífil fegurri, það er orðið verulega dauflegt eins og nú er. Ályktanir ráðherranefndarinnar og Norðurlandaráðs eru auk þess bara ráðgefandi og samstarfsþjóðunum ekki skylt að taka tillit til þeirra. Þar er mér mest minnisstætt ályktun norrænu ráðherranefndarinnar um að efla neytendavitund og hvetja til þess að fræðsla á þeim vettvangi yrði hluti af námsefni grunnskóla. Verulega góð ályktun og mjög þörf í íslensku samhengi. En viti menn, hún var ekki tekin upp af stjórnvöldum hérlendis og er því ein mýmargra ályktana af þessum vettvangi sem íslendingar hafa hundsað. Ég myndi hvetja Pétur Bjarnason og félaga til að kynna sér tilhögun og starfsemi svæðisbundinna ráða í ráðgjöf um veiðiheimildir innan Evrópusambandsins (þeir gætu eflaust fengið ESB fjármagn til þeirrar athugunar og beitt sér faglega á þeim vettvangi)..... Því fjármagnið færðist úr Norðurlandasamstarfi yfir í það evrópska á sínum tíma. Völdin liggja þar nú og í stjórnkerfinu taka menn mun meiri mið af ályktunum og samþykktum frá Brussel, Strassbourg, Lúxemborg osfrv, en þeir gera frá Kaupmannahöfn og Osló.
Norræn samtök um útgerð sett á fót | |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.