Afturför - afturhvarf til hráefnisútflutnings

Á tíunda áratug síðustu aldar hreyktu talsmenn sjávarútvegsfyrirtækja sér af nýsköpun og áherslubreytingum frá einhæfum fókus á magn veiðar, vinnslu og útflutning yfir í áherslu á gæði og aukna fullvinnslu ásamt fjölþættingu veiðar í fleiri tegundir meðal annars fyrir tilstuðlan stofnunar fiskmarkaða. Aldrei var þó gámaútflutningur á slægðum og óunnum fiski lagður alveg af, þrátt fyrir velvilja og ákafa forsvarsmanna í sjávarútvegi. Tilhneigingin til hráefnisútflutnings fremur en nýsköpunar í vinnsluaðferðum eða afurðum er einn helsti akkilesarhæll hátekjuþjóðar í norðri og nú sýnist mér að yfirvöld slaki á þannig að minni hvati verði fyrir vinnslu héðan. Fyrirtæki eins og Bakkavör hafa notfært sér hnattvæðingu og nálægð við markaði, og unnið fiskinn þar sem fjöldamarkaðirnir eru. Það hafa stóru og gömlu og endurskipulögðu útflutningsfyrirtækin einnig gert í Bretlandi, Bandaríkjunum, Frakklandi og víðar um langa hríð. Það er svosem ágætt og kemur þeim fyrirtækjum vel, en nýliðin aðgerð stjórnvalda neglir enn einn kistunaglann í byggðarlög sem byggja að öllu leyti eða hluta afkomu sína á sjávarútvegi svo ekki sem minnst á vinnslu sjávarafurða.  Sú var tíðin að yfirvöld sendu nýkrýndar fegurðardrottningar á útflutningshátíðir þar sem þær skörtuðu colgate-brosi við hlið skjannahvítra íslenskra fiskiflaka. Sú tíð er liðin, og í dag halda flibbastífðir bankamenn teiti á sjávarútvegssýningum í Brussel og Boston og plotta um hvaða aðgerða er þörf í sjávarútvegi þannig að hægt sé að kreista sem mesta arðsemi úr greininni. 

Fyrirsögn á forsíðu fréttablaðsins í nýliðinni viku hljóðaði eitthvað á þá leið að umræða um kvótakerfið væri stóru sjávarútvegsfyrirtækjunum skaðlegt. Mér finnst með ólíkindum að fulltrúar stærri fyrirtækja sem hafa grætt mest á ríkjandi kerfi leyfi sér að ýja að því að þöggun á vanda fiskveiðistjórnunarkerfisins væri betri en opin umræða. Hagsmunaaðilar í sjávarútvegi eru að vonum leiðir á því óöryggi sem slík umræða getur leitt af sér, sérstaklega ef hún leiðir til verulegra breytinga á ríkjandi ástandi.  Við stöndum frammi fyrir grafalvarlegu máli sem snertir marga. Aðalmálið er að komast hjá "collapse" sem annars staðar eru söguleg fordæmi fyrir. Mikilvægt er að fara með gát,  en ég er alls ekki viss um að rétt skref í þá átt sé að dömpa verði á fiski frá Íslandi með því að opna fyrir óheftan hráefnisútflutning, þegar fiskverð er í hámarki.


mbl.is Breskir fiskkaupendur fagna ákvörðun um afnám útflutningsálags á fiski
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Níels A. Ársælsson.

Sæl Anna og takk fyrir símaspjallið síðast.

Það er gott að þú skulir vera komin hér á bloggið og ekki veitir af skoðunum þínum varðandi sjávarbyggðir landsins.

Pistill þinn er mjög góður og þarft innlegg. Ég er sammála þér í öllum atriðum.

Gangi þér allt í haginn.

Níels A. Ársælsson., 25.6.2007 kl. 15:45

2 Smámynd: Jóhannes Ragnarsson

Takk fyrir mjög góðan pistil.

Jóhannes Ragnarsson, 25.6.2007 kl. 20:08

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband