Til hamingju kynsystur?

Ég fór í bleikan bol í morgun í tilefni dagsins, á víst lítið í bleiku annað, enda verð ég eins og lifrarkæfa í framan í of bleiku (grá og ánamaðka hvít). En halda skal upp á daginn þó ég missi reyndar af kvosgöngu Kristínar Ástgeirs. Við vinkonurnar (æskuvinkonur frá 7.ára aldri) ætlum að hittast og gera menningaráætlanir enda er ferð á Edinborgarhátíðina á prjónunum. Það verður gaman og akkúrat í anda dagsins, konur sem ætla og geta vegna þess frelsis sem formæður þeirra börðust fyrir tekið sjálfstæðar ákvarðanir um húsmæðraorlof á eigin reikning. Viðurkenning kosningaréttar leiddi til margs annars. Mér finnst við jafnöldrurnar njóta ótrúlegra forréttinda en á sama tíma er mikilvægt að vera sér meðvitaður um að sjálfstæði kvenna er áunnið og hefur náðst vegna þrotlausrar barráttu sem oft hefur verið reynt að berja á bak aftur. Við megum ekki sofna á verðinum.

Ég var um rúmlega tvítugt sjálf frekar dofin gagnvart þessu, fannst þetta eiginlega alveg sjálfsagt og taldi mig ekki upplifa ójafnræði, skyldi eiginlega ekki þetta stanslausa þref um jafnréttisbaráttu og jafnrétti kynjanna. Mér fannst í alvöru að jafnrétti væri náð. Ég bjó reyndar ekki hér á landi þá, það getur hafa haft áhrif (danskir menn/jafnaldrar eru mun tilkippilegri í húsverkunum en þeir íslensku).

En eftir því sem ég varð eldri, eignaðist börn og sá að bræður mínir þurftu ekki eins að hafa fyrir að öðlast þessi réttindi sem ég taldi mig eiga rétt á jafnfætis þeim - breyttust viðhorf mín. Eftir að hlusta á reynslusögur vinkvenna og ýmissra annarra kvenna útum allt allstaðar. Eftir að hafa gengið í gegnum skilnaði þar sem byrðin af heimilishaldi og uppeldi skekktist talsvert. Eftir að hafa reynt að skapa mér starfsframa þar sem ég áttaði mig á að starfsbræður fengu einhvern veginn öðruvísi og hagstæðari kjör en ég, hef ég séð að það er á konur hallað á ýmsum sviðum.

Mér finnst karlmenn æðislegar verur en ég vil standa jafnfætis þeim. Og sumum finnst það frekja og óhemjuskapur þó þeir yrðu síðastir til að viðurkenna það. Lifi jafnrétti kynjanna, höldum áfram að berjast fyrir að öðlast sömu laun fyrir sömu störf, sama stað og verum ekki hræddar við að vera frekar.


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband