17 júní í Haakonshallen í Bergen

Jæja, þá er ég komin heim eftir ánægjulega ferð á Nordiske geografers möde, þar key note speakers voru næstum allir bretar (cultural imperialism öðru nafni). Margt nýtt hef ég lært og mun segja ykkur betur á næstu dögum frá sögulegri olíuferð, áhugaverðu efni og sögum frá Norge.

Við íslenska sendinefndin tókum forskot á þjóðhátíðardaginn kvöldið 16.júní í kvöldmat með kollegum í hinu fræga virki Hákons Haakonshallen. Sungum fyrir þau öxar við ánna þar eð við treystum okkur ekki í hinn rétta þjóðsöng. Við tilkynntum norðmönnum að við værum eins stolt af okkar þjóð og þeir eru af sinni. Ekta patriotism - þar erum við greinilega skyld. Eftir að hafa hlustað á veislustjórann halda hálftíma ræðu um stórkostlegheit norðmanna, gátum við auðvitað ekki orða bundist. Bergen skartar sínu fegursta á þessum árstíma, lyngrósabreiðurnar brosa til manns úr hverju horni, og hinir sérkennilegu og ósveigjanlegu frændur okkar brosa meira segja sínu breiðasta á götum úti.

Ég gat þó ekki varist því að sérkennileg tilfinning greip mig þegar ég áttaði mig á að fyrir 21 ári síðan nákvæmlega hvarf vinkona okkar Guðný Túliníus og fannst aldrei aftur á þessum slóðum, Vestur Noregi, í Balestrand Sognfirði. Það var erfið lífsreynsla þá 17 ára stúlkna að missa vinkonu sem valdi sjálf að fara. Það setti djúp spor í sálina.  Ég var semsagt stödd í Vestur Noregi nákvæmlega 21 ári síðar og minningarnar þutu um hug minn, leitarþyrlurnar, norsku spákonurnar, norskir fjölmiðlar, Terry og Tobba, niðurbrotnir foreldrar, systkini og aðstandendur. Ég horfði á fjörðinn, horfði á þetta fallega og stórbrotna landslag. Í því búa margar sögur en enginn í Haakonshallen þekkti þá sem ég gat ekki varist að hugsa út í.  Ég hneigði mig í lotningu fyrir minningu Guðnýjar og tók aftur upp við sönginn fyrir bræðraþjóðir okkar í höllinni.

 


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband