12.6.2007 | 23:27
samstarf í samkeppni milli smárra og meðalstórra fyrirtækja
Ég efa ekki að ráðstefnan rural clusters á Akureyri þessa dagana sé hin áhugaverðasta. Hugmyndir um jákvæð áhrif skapist vegna samstarfs milli fyrirtækja á sama eða hliðstæðum sviði á samkeppnisstöðu svæða er ekki alveg ný af nálinni en hefur verið að aukast frá því á áttunda/níunda áratug þegar að ríkisbúskapur dróst saman og afskipti hins opinbera af beinum rekstri fyrirtækja var smám saman leystur af hólmi af auknum markaðsbúskap. Íslensk stjórnvöld hafa komið af stað nýrri bylgju í byggðaþróun sem kallaður er vaxtarsamningur byggður m.a á þessari hugmyndafræði. Ég er ein af þeim sem horfi nokkuð gagnrýnum augum á hvernig miðlæg stjórnvöld í raun búa til gulrót í nafni nýsköpunarhvata án þess að því fylgi endilega nauðsynlegt áhættufjármagn sem þarf til að nýtt framtak fái að dafna. En...vei ef ég hef á röngu að standa. Ég held raunar að það sé gott að fókus færist að því burðarafli atvinnulífs og hagvaxtar á dreifbýlli svæðum sem felst í rekstri smárra og meðalstórra fyrirtækja í stað "one company town" allsherjarlausna. Evrópusambandið hefur undanfarin tíu ár að minnsta kosti haft þetta sem grunntón í sinni stefnu. Það sem þó ekki má gleyma í þessu er að með slíkum fókus breytist eðli samkeppninnar að einhverju marki. Svæðin verða samkeppnisaðilar innbyrðis og sín á milli. Evrópa svæðanna er raunin í dag, erum við að skapa Ísland svæðanna með fyrrnefndri byggðastefnu og teljum við slíkt æskilegt? Erum landshlutarnir ákjósanlegar einingar í slíku? Annað sem ég spyr sjálfa mig að er hvernig íslendingar muni standa sig og hvaða menningarlegu forsendur þeir hafa til að skapa velheppnaða klasa? Milli hreppanna í landinu er landlægur rígur, og íslendingar hafa hingað til ekki verið heimsmeistarar í opnu samstarfi. Þeir eru alltaf að plotta eitthvað bakvið næsta mann. Fullir tortryggni og heimóttaháttar. Ja, svei mér ef ég hef á röngu að standa hvað þetta varðar.
Viðskiptamenning sú sem þrífst í dag í fjármála- og fyrirtækjaheiminum hefur stundum verið kennd við fylkingar og hópa (sumir myndu kalla það mafíur)...en svei mér ef ég hef á röngu að standa.
Sú innræting sem þarf að eiga sér stað til að fólk verði "opinminntara" þarf sjálfsagt strax að byrja á grunnskólastarfi og innan fjölskyldunnar.
Ég vona að klasasamstarf á landsbyggðinni muni ganga vel og að stjórnvöld átti sig á að sigurvegarar slíks samstarf eru þar sem hvatinn að samstarfi er sjálfsprottinn og einlægur áhugi er fyrir slíku meðal leikmanna. Þeir sem vinna við að hvetja til slíks og samræma aðgerðir þurfa því fyrst og fremst að vera í hlutverki ljósmóðurinnar fremur en annað.
Flokkur: Stjórnmál og samfélag | Facebook
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.