27.9.2011 | 08:56
Prumpið úr Michael Jackson
Það er komin út bók um minni sem ber það sérkennilega nafn: Moonwalking with Einstein. Bókin fjallar hreinlega um hvernig mannskepnunni tekst að muna og hún fjallar á opinskáan hátt um að hægt er að þjálfa minnið ótrúlega með því að þjálfa sjónminni og nýta sýnir sem brenna sig í heilabörkinn (úps, ætli sérfræðingar myndu ekki mótmæla þessu, ég er ekki nógu vel að mér til að vita hvar minnisttöðvarnar eru í heilanum).
Ég hef ekki enn lesið þessa bók en hún stendur efst á óskalistanum yfir ólesin verk. Höfundurinn heitir Joshua Foer.
Ég hef oft velt því fyrir mér í kennslu, að með öllum þeim aukahlutum/tækni sem mannskepnan hefur tekið til notkunar sér til hjálpar í námi er mikið af þessum tækjum haldið þeim eiginleikum að mannfólkið hefur meiri tilhneigingu til að útvista minnið, gleyma meira, muna minna sjálf. Um þetta ritaði Nicolas Negroponte áhugaverða bók sem bar heitið Being Digital og ég las einhvern tíma fyrir fimmtán árum síðan.
Hans hugmynd var sú að fólk útvistar minninu með aukinni notkun stafrænnar tækni og það getur verið kostur. Við getum melt meira en munum það ekki.
Ég hef af þessu smá áhyggjur því að þetta þjálfunaratriði. Minnið er mjög vanmetið í skólum samtímans. Það er mikilsvert að muna hlutina. Mér hefur oft verið núið um nasir að vera með límheila, muna allt. Sjálf held ég því fram að heilinn í mér hafi alveg sérstaka gáfu til að safna saman ónærtækum og lítið mikilvægum upplýsingum til að stríða mér. Þannig man ég ólíklegustu og alveg ónýtilegustu hluti, og ég ræð illa við að stjórna þessari náðargáfu eða galla, allt eftir því hvernig á það er litið.
Samkvæmt umfjöllun bókarinnar tunglganga með Einstein var minnið áður fyrr í mun meiri hávegum haft. Sókrates taldi til dæmis ekki sitt eigið verk að skrifa niður eigin vangaveltur og hugmyndir. Hann hélt því fram að hið ritaða orð væri minna um vert en minnið. Á þessum tíma æfðu menn sig í að muna og notuðu til þess ýmis konar tækni og æfingar. Á þeim tíma var slík þjálfun jafn mikilvæg faggrein og stafsetning, lógík (stærðfræði) og retorik (málfarslist).
Athyglisvert er að í þessari bók er því haldið fram að minni hafi lítið með greind að gera, en sálfræðingar samtímans hafa reynt að koma þeirri tálsýn haganlega fyrir í vitund almennings. Hvorki háskólapróf né gáfuleg framkoma eru tengd góðu minni.
Kúnstin felst í að skapa "kreativar" ímyndanir/hugmyndir í höfðinu og staðstetja þessar eftirminnilegu myndir á leiðir í svokölluðum hugmyndahöllum. Á góðri íslensku heitir þetta hugskotssjónir og hugrenningar. Maður býr til myndir í hugrenningum sínum og tengir þær við það sem maður er að læra eða melta til að muna það og svo staðsetur maður það á góðan stað, sem er erfitt að gleyma. Ég veit þetta hljómar pseudo, en aðeins of spennandi til að maður vilji ekki reyna sig við það. Samkvæmt bókinni er tenging við æskuheimili afar árángursrík leið, vilji maður örugglega muna hlutina.
Eitt af minnisverðari dæmum í bókinni er þegar höfundurinn í Bandaríkjameistarakeppninni í minni sér fyrir sér Michael Jackson kúka á hamborgara og prumpa inn í blöðru.
Aðalmálið er að því skrýtnari, skældari og óvenjulegri hugskotssjónirnar og hugrenningatengslin eru við það sem á að læra þess betur munum við. Þetta vissu munkar á miðöldum sem rjóðir í kinnum viðurkenndu að fagurleggjaðar ungmeyjar héldu þeim við efnið:)
Mér finnst þetta áhugavert eins skrýtilega og það hljómar.
Gera má ráð fyrir að siðmenning okkar vanmeti mátt minnisins vegna tæknivæðingar sem hefur útvistað flest allt minnisvert á tölvutækt og rafrænt form. En mun okkar siðmenning ná einhverjum hæðum án innra minnis fólksins? Er líklegt að nýsköpun, brandarar, skilningur og listaverk verði sköpuð af útvistuðu minni í framtíðinni?
Hm. Það er nú það.
Meginflokkur: Stjórnmál og samfélag | Aukaflokkar: Bækur, Menntun og skóli, Tölvur og tækni | Facebook
Athugasemdir
Skemmtileg færsla um ólesna bók.
Ég tel ég nokkuð víst að minni langskólagenginna sé betra og nákvæmara en þeirra sem ekki hafa fengið langa skólagöngu. Það hefur verið rannsakað nokkuð mikið. Það hefur þó ekki endilega neitt með greind að gera í hvaða formi sem hún kann að vera.
FORNLEIFUR, 27.9.2011 kl. 09:41
Það er örugglega nokkuð til í því að langskólagengnir hafa beint og óbeint þjálfað minni sitt með lestri og miðlun á lesnu efni, þannig að þetta síast inn einhvern veginn. Ég er íhaldssöm og kann vel við skilgreiningar Howard Gardner á fjölgreind. En ég held að einhver einhlýtur greindarmælikvarði sé grófleg einföldun.
Anna Karlsdóttir, 27.9.2011 kl. 10:17
Hefurðu lesið The Art of Memory eftir Frances Yates? Heillandi rit um minnislistina frá fornöld til endurreisnar. Það er reyndar allt of langt síðan ég las hana. Svo minnir mig að ég hafi eitt sinn lesið að einhver miðaldahöfundur á meginlandinu (eða var það Bretlandi?) hafi sagt að íslenskir heldri manna synir væru eftirsóttir sem diplómatar því það væri hægt að lesa yfir þeim langar ræður, senda þá síðan í langferð til fjarlægra höfðingja þar sem þeir endurtóku ræðuna orð fyrir orð, villulaust frá upphafi til enda. Eitt er víst að í elstu hetjukvæðum, t.d. Eddukvæðum á Norðurlöndum og Hómerskviðum í Grikklandi virðist minnistæknin stjórna forminu mikið frekar en nokkur fagurfræðileg sjónarmið.
Elías Halldór Ágústsson, 27.9.2011 kl. 12:05
Nei Elías því miður missti ég af Yates og bókinni hans. En gaman væri að hafa upp á henni. Skemmtilegt það mannorð Islendinga sem þú vísar til. Landar okkar eru sagnafólk og ef okkur ber gæfa til þess að vilðhalda þeirri hefð ætti það að vera jákvætt fyrir minnið.
Anna Karlsdóttir, 27.9.2011 kl. 17:25
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.