Væringar í evrópskum bönkum - menningin er meinið

Það eru greinilega margir bankastjórar stórra fjármálastofnana að hverfa frá um þessar mundir af einni eða fleiri ástæðu.

 Á dögunum vakti athygli mína greining á óförum eins af mikilfenglegustu bankastofnunum Svisslendinga UBS.

Viðskiptablaðið hefur einmitt sent frá sér grein um að þar séu að verða forstjóraskipti.

 

Ástæða þess er ekki bara að bankinn stendur höllum fótum heldur eru meira en sterkar vísbendingar um að hann hafi verið rændur innanfrá eins og okkur Íslendingum er því miður allt of kunnugt um í tengslum við okkar bankahrun árið 2008.

Bankar sem lenda í slíku og fjölmiðlar virðast hafa á því yndi að draga slíkt gjörninga fram eins og þeir væru verk EINS MANNS.  Bankaheimur hefur meira að segja hugtak yfir slíkt fólk og eru það kallað "Rogue Traders".

Í þessu tilfelli heitir maðurinn Kweku Adoboli en hann þótti djarfur og hugvitssamur starfsmaður bankans en olli tveggja milljarða evra tapi vegna gjaldeyrisviðskipta. Áður hafði bankinn þó sett sjálfan sig nær á hliðina vegna glæfrarlegs framgangs í undirmálslánakapphlaupinu sem heltók bankamenninguna um árabil.

Það sem hristir Evrópskt og Svissneskt fjármálalíf er að á þriðja ári eftir upphaf fjármálakreppu sem sendi vestræna heimsbyggð á barm gjaldþrots er að skandalar sem upp eru að koma NÚ sýna að stórbankar eins og UBS eða fjárfestingarbankarnir í Evrópu hafa ekkert lært. Innan þeirra er  stofnanamenning sem vinnur gegn stöðugleika fjármálakerfisins. 

Uppákomurnar sem flett er ofan af sýna svo ekki verður um villst að fjárhættuspilamenning er (enn) viðloðandi fjárfestingabanka um alla Evrópu. Þó að UBS muni sennilega lifa tapið af sem Adoboli olli er næsta víst að þó bankarnir vilji láta svona óheppileg viðskipti líta útfryrir að þau séu framin af ákveðnu fólki innan þeirra vébanda sem missti sig - þá er hæpið að horfa fram hjá stjórn bankanna og menningunni sem bankarnir innræta sínu starfsfólki.

Þannig skrifar Per Hansen professor við viðskiptaháskólans í Kaupmannahöfn að stofnanamenning fjárfestingarbanka sé ALMENNT vandamál. það er ekki bara áskorun fyrir stjórn bankanna en einnig fyrir fjármálaeftirlit landa um heim allan. 

Eitt af þeim málum bankaheims sem hafa hneykslað undanfarin ár var hneykslið í stórbankanum Sociéte Génerale en þar var bankamaðurinn Jerome Kerviel uppvís að hafa kostað bankann yfir 36 milljarða evra tap í fjárglæfraviðskiptum (speculation trade).  Sökudólgurinn hefur reyndar bent á að hann hafi einungis spilað með í þeirri stofnanamenningu sem hampað var í bankanum.

Þetta er umhugsunarvert, athyglisvert svo ekki sé meira sagt.

Ein af niðurstöðum rannsóknarskýrslu sem UBS lét gera, var að á tímum fjármálabóla freistast margir til að horfa fram hjá hefðbundnum reglum um góð bankaviðskipti. Gildismatið og viðmiðin sem liggja til grundvallar góðri bankastarfsemi geta þannig runnið til og breyst. Vinningsmiðaða og einstaklingsmiðaða menning fjárfestingarbankanna hampaði sérstaklega áhættusömu atferli. Bankinn reiddi sig nær alfarið á stærðfræðilega líkanagerð í mati og  niðurstöður einkunnagjafarfyrirtækjanna (!!! voðalega hljómar þetta allt saman kunnuglega!). Menningarvandamálið er semsagt víðtækara en að það nái einangrað til þessara glæfralegu einstaklinga sem brennimerktir eru "Rogue Traders".

Hansen tekur dæmi af atburði sem átti sér stað árið 2004 í Londondeild Citibankans en þar höfðu starfsmenn leikið sér að því að græða 24 milljónir dollara á hálftíma með því að selja evrópsk ríkisskuldabréf (á meðan að enn var eftirspurn eftir þeim) og kaupa síðan aftur á þrefalt lægra verði. Þetta var útmálað sem afrek þó auðveldlega hefði verið hægt að sjá að verið var markvisst að "dömpa" skuldabréfunum. Slíkt þykir allajafna ekki góð latína hjá heiðvirðari bankastofnunum en þarna höfðu aðrar leikreglur öðlast viðurkenningu og þóttu jafnvel kúl meðal strákanna.

Stærsti hluti fjárfestingarbanka inniheldur svona menningu, hrægammamenningu. Til að hægt sé að stemma stigu við fleiri kreppum af þeim toga sem sopið er seyðið af nú og í náinni framtíð þarf að verða uppgjör í fjármálastofnanamenningu vesturlanda. Þjóðarleiðtogarnir virðast ekki alltaf vera að átta sig á því.

Árið 1987 var framleidd geysivinsæl kvikmynd um Wall Street þar sem aðalpersóna leikverksins hét Gordon Gekko. Gekki þessi átti slagorðið "Greed is Good".  Nokkrum árum síðar voru drengir bankaheims um víða veröld búnir að gera þau að sínum. Gildismatið var einnig orðið ámóta. Þeir upplifðu sig sem herra alheimsins. 

Hansen rekur upphaf gildismats skriðsins/breytinga til Bretlands á níunda áratugnum þegar að aukið frelsi bankastofnanna leiddi til aukinnar samkeppni, samruna og yfirtaka. Þannig voru heiðvirðar bankastofnanir með fleiri hundrað ára sögu og hefð undir í nýrri menningu sjálfmiðaðra, aggressívra og gróðamiðaðra manna sem voru drifnir af mótivinu að ná inn bónusum. Þeir hröktu þannig aðra strákamenningu frá sem byggðist á "old boys" tengslaneti sem tengdist gegnum menntastofnanir, nám og stéttvísi. Barings bank átti sér 233 ára sögu þegar að menningarumskipti leiddu á endanum til þess að einn hinna nýju menningarbera bankans, Nick Leeson varð uppvís að og ásakaður fyrir ólöglega gjörninga tengdum bókhald bankans og eiginfjárstöðu.

Þegar öllu er á botninn hvolft fjalla umskipti og breytingar í fjármálakerfinu um meira en einstaklinga og fráfarandi og komandi bankastjóra. Það var uppsafnað atferli heils menningarkerfis sem leiddi til þráhyggju á endalaust hækkandi hlutabréfamarkaðsvísitölur og ofurflóknar nýskapanir í fjármálaafurðum (t.d afleiður og undirmálslán). Þessi uppsöfnuðu atferli bankamannamenningarinnar leiddu til djúpstæðustu fjármálakreppu heimsins síðan 1930.

(tilvitnanir og teksti þýddur að hluta úr grein Per H. Hansen - Kasinokultur sem birtist í Weekendavisen, 23.September 2011).

 

 


mbl.is Seðlabankastjóri ESB kærður
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband