17.9.2010 | 14:30
Vítaverð embættisafglöp
Einbeittur brotavilji opinberra starfsmanna/embættismanna hefur mismunandi birtingarmyndir.
Í tilfelli þessu er skattyfirvalds-starfsmaður sem á innangengt í afgreiðslu mála að tryggja endurgreiðslu virðisaukaskatts af upplognum framkvæmdum. Þar er greinilega um það fyrirbæri að ræða sem erlendis myndi vera kallað - skipulögð glæpastarfsemi. Þetta eru aðferðir sem hafa sama bragð og mafían á Ítalíu hefur beitt og reyndar mafíur annara landa. Vonandi verður svindlurunum refsað í samræmi við aðra dóma um slíka glæpi. Heilalausir glæpamenn sem smygla t.d eiturlyfjum fá nú reyndar oft harðari dóma en svona hvítflibbaglæpamenn. Það er meiri refsing við að fremja heilalausan glæp en hafa notað heilann til að fremja glæpinn. Að mínu viti eru þó slíkir glæpamenn oftast mun hættulegri en þeir sem stíga kannski ekki beinlínis í vitið.
Nú virðist einnig sem íslenskir fiskframleiðendur eigi einmitt óvart svona embættismenn á sínum snærum í matvælastofnun ríkisins. Þó er þar ekki um skipulagða glæpastarfsemi að ræða fremur er hægt að saka þartilbæra starfsmenn um vítaverð embættisafglöp eða að þeir hafi brugðist skyldum sínum. Í gær komu fréttir um að Karl Sveinsson fiskverkandi á Borgarfirði Eystri hefði sagt upp starfsfólki vegna ónægra verkefna verkunarinnar. Það vakti athygli að ástæða verkefnaskortsins var döpur sala á saltfiski sem eitthvað var gulari á holdið en óeðlilegt gæti talist.
Ástæðan var sú að markaðurinn hefði verið vaninn á að saltfiskur væri hvítur á hörundið, þó öll eðlisfræðileg lögmál séu sett úr skorðum við þá sérkennilegu hugmynd.
Ástæða þessa brenglaða hugarfars neytendanna var nefnilega að framleiðendur notuðu málningu á fiskinn, hvíttuðu hann þó ólöglegt væri og ekki í samræmi við gildandi reglugerðir.
Og hvert var svar hins opinbera starfsmanns matvælastofnunar þegar hann var ynntur eftir sofandalegum viðbrögðum við ólöglegri starfsemi í greininni (hér á landi).
Svarið var að þeir létu þetta viðgangast vegna þess að Færeysk og Norsk fyrirtæki (ef ég man rétt) beittu þessum ólöglegu aðferðum til að efla samkeppnisstöðu sína.
Auðvitað er rót vandans hér fáviska neytendanna sem setja upp í sig ókennilegt fæði og hafa misst allt næmi fyrir hvað er raunverulegur matur og hvað er feikuð matvara. Hins vegar eru þartilbærar eftirlitsstofnanir (t.d matvælastofnun) settar á laggirnar til að tryggja að bíræfnir svindlarar geti EKKI vaðið uppi með framleiðslu og söluvöru svo að neytendum verði meint af.
Umræddur embættismaður hefur greinilega eitthvað misskilið stöðu sína. Hann hefur ruglað saman því að stunda lögmæt vinnubrögð (sjálfsagt útlistuð í ráðningarsamningum) og því að standa vörð um samkeppnisstöðu islenskra sjávarafurða á erlendri grund.
Svo má aftur spyrja sig ef að starfsmanninum var svona umhugað um að passa upp á það, afhverju hafði hann þá ekki samband við fjölmiðlafólk í löndum þar sem varan er markaðssett til að láta vita af stórfelldu svindli Færeyinga og annara í vinnslu saltfisksins.
Afhverju beitti hann sér ekki eins og lög gera ráð fyrir, í gegnum þartilbærar stofnanir innan Evrópulandanna sem að tryggja eiga almannahag á þessu sviði.
Starfsmaðurinn íslenski valdi að vera meðvirkur í svindlinu svo við gætum öll verið með Færeyingum og öðrum í svindlinu með fiskinn gagnvart heiðvirðum borgurum sem ekki höfðu hugmynd um óheiðarleika íslenskra fiskframleiðenda og annarra.
Orðspor okkar á erlendum mörkuðum mun til lengri tíma verða betra ef við störfum heiðarlega.
Gangi þér vel í baráttunni gegn óheiðarlegum öflum Karl Sveinsson og megi fiskvinnslan þín aftur starfa!
Eigendur vissu ekkert | |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Flokkur: Stjórnmál og samfélag | Facebook
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.