Hvernig ferðamannastaðir missa marks!

Ísland ber með sér margbreytilega ímynd allt eftir hvaða þjóðarhópar eiga í hlut eða hvaða þjóðfélagsstéttir um ræðir. Það má þakka fyrir það, því á það má spila í markaðssetningu..eitthvað sem við eigum hugsanlega eftir að læra heilmikið betur en hingað til (við dettum mjög oft niður í klisjukennda umfjöllun um okkur sjálf og landslagið, upphafningu sem að fjölmiðlalæsir neytendur sjá í gegn um).

Bretar sem ferðamenn eru samkvæmt öllum rannsóknum ekki mjög ævintýragjarnir ferðamenn, þeir eru bleyður inn við beinið - vilja ekki lenda í framandleika að of háu marki. Umfjöllun um Ísland í Bretlandi hefur markast af frásögnum um þjóð sem féll af stalli í svo mörgum blæbrigðum að ekki er undarlegt að það hafi síast inn í vitund fólks að hér er ekki eins og var (þó það sé líklega mjög orðum aukið eins og verða vill í fjölmiðlum. 

Hin heimsveldistregaða-heimóttalega þjóð er fræg fyrir að yfirfæra sín viðmið yfir á ferðamannastaði (umbreyta þeim í pöbba og beikonbúllu svæði) til að þeim hugnist staðirnir verulega. Það hefur Bretum sem betur fer ekki tekist hér, enda hefur Ísland svo sem aldrei verið fjöldaferðamennskustaður líkt og Miðjarðarhafslöndin. Þetta er þó ekki bundið endilega bara við sólarstaði sem Bretar heimsækja.  Ákveðin hverfi Amsterdam eru verulega löskuð á mánudagsmorgnum eftir ágang Breta á ýmsum búllum og húshornum sem þeir hafa migið upp við, snyrtipinnarnir. 

Amsterdam er þó annars borg sem mætti ætla að þyrfti lítið að sníða sig að þörfum þess fjölda heimsækjenda af öllum þjóðernum sem borgina sækir á ári hverju - hún er að mörgu leyti sannkölluð heimsborg -  en hún hefur sannarlega ekki farið ósnortin útúr samskiptunum við breska ferðamenn eftir að breskar ferðaskrifstofur og flugfélög fóru að markaðssetja helgarferðir þangað.

Flestir Bretar sem okkur sækja heim eru hin mestu prúðmenni, meira menntað fólk  en gengur og gerist þar í landi og af skemmtiferðaskipunum er ferðafólkið eldra en hinn dæmigerði rusltúristi þeirra. Svo við höfum verið að fleyta rjómann má segja. 

Ísland er "fandenivoldsk" (glannalegt og bíræfið), eitthvað sem ferðafrömuðir þessa lands hafa verið afar tregir að viðurkenna eða bera á borð.  Það gerir landið spennandi fyrir forvitnar sálir. Það er því ekki amalegt fyrir okkur að vera komin í flokk fornra stórvelda. Við höfum þó eitt fram yfir sem allavega ætti að höfða til Breta, og það er að við erum meðal öruggustu staða heim að sækja í alla staði. Hins vegar komumst við ekki með tærnar þar sem samanburðarríkin Grikkland, Tyrkland, Rússland og Rúmenía hafa hælana sem fornmenningarvöggur jafnvel þó við reyndum að flagga vímuþokuðum Íslendingasögunum. 

Eitt sinn rak á fjörur mínar áhugaverð bók sem ber nafnið "All poins North" eftir Simon Armitage. Bókin er samansafn fjölmargra smásagna sem eru "hálf-dokumentarískar". Þar er kafli sem ber heitið "Mum's Gone to Iceland".

Þetta er svona óbærilegur léttleiki tilverunnar frásögn af hvernig að móðir höfundar dregur hann með sér i sólarhrings-geðveikisferð til Íslands á vegum Thomas Cook. Fyrir utan að peningarnir (hinar íslensku krónur) líta út fyrir að vera einhvers konar leikfangapeningar er margt framandlegt í svona turboferð ekki síst meðal farþega. Fyrir utan að vera af eldri gerðinni voru þeir merktir til að enginn týndist og höfðu tekið hvatningunni um að vera klæddur til ferðarinnar bókstaflega. Klæðnaðurinn sagði jafnvel meira um hugmyndir farþeganna um hvaða áfangastað þeir væru að heimsækja en þörfina.

"Suitable ranges from Gortex cagoules, North Face rucksacks and strap-on compasses to M&S car coats and driving gloves, to pac-a-macs and five penny transparent rain-hoods available from all godd newsagents and tobacconists. For Mr Green, a seventy- or eighty-year-old complete with name-badge presumably sewn on by an anxious relative, "suitable" means a thick woolen suit, a thin wollen tie, a handknitted waistcoat and a pair of stout leather brogues. He stands next to you, rummaging in his pockets. somebody calls his nams over the tannoy, but he can't hear it because of the mound of black, wiry hair growing out of each ear, and the Sony Walkman playing tinnitus at full volume. You picture him at the end of the day, an Icelandic flag pinned to his tie, queuing up in the duty-free with a bag of toffees and a half-bottle of Navy rum in his basket." (bls.205)

Ferðalýsingin er hin skoplegasta, ekki síst frásögnin af ferðamönnunum . Þetta er greinilega engin nautnaferð fyrir utan fyrir þá fáu sem enda ofan í Bláa lóninu í ferðalok.  Flestum finnst matartilboð pakkaferðarinnar of dýr og nær allir hafa því smurt sér nesti til ferðarinnar sem þau eru að smygla upp í sig á kaffihúsum. Þau eru dregin í gegnum land og menningu sem að því er virðist er algjörlega tekið úr samhengi. Yorkshire post hefur sett saman ferð um vatn og fyrsta stoppið er glápstaða við útisundlaug í Reykjavík en síðan er brunað á ýmsa staði. Eftirfarandi lýsing gefur ef til vill til kynna hvað vakti mesta athygli í rútuferðinni.

"The woman behind you has become obsessed with the opening and closing of the back door of the coach. Stopping at the sulphur pools, she leans over to Mum, saying "The back door is open". Mum nods in agreement. "They haven't opened it this time" she announces at the fish processing plant, then "Open again" at the president's house. The president, as it happens is not at home, which is just as well for him because half the party go lumbering across the lawns and gawp through the windows. No doubt he saw the fleet of blue buses, trundling up towards him out of town, and slipped out the back, scooting along the spit of land in his Nissan Micra, making for the interior." (bls.209).

Sem betur fer lögðust svona turboferðir af í nafni mismunandi þema eftir því sem ég best veit, en lifa þó góðu lífi meðal farþega skemmtiferðaskipa sem hingað koma. ..um það er hægt að ræða frekar. 

Bretar eru fínir en ekki endilega áhugaverðasti ferðamannahópurinn að fá heim - margir aðrir ferðamannamarkaðir gefa okkur færi á að þróa meira spennandi ferðatilboð en akkúrat þeir.

Breskir fagurkerar og menntafólk mun halda áfram að heimsækja okkur eins og það hefur ávallt gert enda oft komið í öðrum tilgangi en til að eyða tímanum í að hrjóta inni í rútu eða smygla ofan í sig samlokur á kaffihúsum.

 


mbl.is Vilja ekki ferðast til Íslands
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Svanur Gísli Þorkelsson

Sæl Anna. Bara nokkuð skemmtilegur pistill.

Hef verið á ferð með Breskt miðstéttarfólk um landið í sumar. Hring og hótelferðir. Þrennt ber af í þeirra huga, Hildibrandur og hákarlsverkunin á Snæfellsnesi, lummur og kaffi á Sænautsstöðum í Möðrudal og steinasafnið hennar Petru á Stöðvarfirði. Hvar sem við komum í túristakraðak kvörtuðu Bretarnir yfir því. Þeim var greinilega í mun að upplifa Ísland sem það væri afskekkt og prímatívt.

Massatúrisminn sem tíðkast í kringum skemmtiferðaskipin er leiðinlegur en mjög arðbær. Að auki eru fáir staðir sem taka auðveldlega á móti 500-1000 manns í einu.

Svanur Gísli Þorkelsson, 5.8.2010 kl. 14:22

2 Smámynd: Anna Karlsdóttir

Sæll Svanur

Gaman að heyra að þú hefur verið í tengslum við Breta sem enn nenna að koma hingað;)  Mér sýnist að Bretarnir séu eins og flestir ferðamenn mest minnugir viðburða, staða og fólks sem hefur sérstöðu en það er alkunna í ferðamálum, að staðir sem hafa eitthvað sérstakt fram að færa hafa meiri möguleika á að öðlast sess í ferðamennsku. Hins vegar getur verið afar erfitt að skilgreina hvað þetta sérstaka er.  Vandinn er að ferðaþjónusta er að vissu leyti eins og show-business, þess er krafist að þú sért "original" en "originalitetið" getur fölnað þegar fjöldi annara hrífst með og vill gera nákvæmlega það sama og þú og bráðum nær allir..semsagt fyrirbæri sem við þekkjum afar vel á Íslandi..og svo hitt að mannapinn er svo mikil hermikráka eins og Majones konan (nú man ég ekki hvað hún heitir) skrifaði bók um.

Ég sat á rabbi fyrr í vetur við gamlan skólabróður minn hann Benna Erlings og við vorum mjög sammála um eitt. Hvað sem öðru líður í þessari ferðaþjónustu, þá er það ástríðan, hjartað og einarður áhugi fyrir því verkefni sem þú ert að glíma við sem ræður því hvort að það sem þú hefur fram að færa í ferðaþjónustu ber af öðru. Einmitt þess vegna er stétt leiðsögufólks afar mikilvæg fyrir þróun og mótun ferðamennsku á hverjum stað. Vönduð, skemmtileg og næm leiðsögn er lykilatriði.

Petra vann að sinni steinasöfnun með hjartanu, Hildibrandur er einlægur í því sem hann hefur verið að gera og hjónin á Sænautsstöðum tjalda fram því fáa sem bændur gátu fyrr á tímum og halda þarmeð á lofti fábrotinni arfleifð sem jú er afar heillandi..sem smakk. Ég trúi þessu...að hjartað, einlægur áhugi og ástríða fyrir hlutunum verði að ráða för.

Ég trúi því fremur en að ferðamennirnir sem þú varst hér með bíði bara eftir að fá fyrirframgefnar hugmyndir um menningu og þjóð staðfestar...þó um það sé vissulega til kenningabálkur í ferðamálafræði.

Þú segir "Að auki eru fáir staðir sem taka auðveldlega á móti 500-1000 manns í einu". Hvaða staðlahyggja er það eiginlega að halda að ferðamannastaðir á okkar breiddargráðum eigi að vera tilbúinir til þess? Hvaða hjarðhegðunarmynstur er það eiginlega að finnast bara allt í lagi að standa með 40 rútur á bryggjunni til að allir geti lullað í rútu sama hringinn?

Þarna er við ferðaskipuleggjendur að sakast að ekki er dreift meira úr ferðamannastraumnum/skoðunarferðunum. Þó ekki einungis þær íslensku, heldur þarf að höggva á hnút ferðaskrifstofa skipanna sjálfra, en þar eru oft starfsmenn sem lítið vita um landið (tek þó fram að það er ekki algilt) og finnst bara einhvern veginn þægilegra að geta bókað farþeganna í staðlaðar fjöldahópferðir á "endurteknar" slóðir fremur en litrófsrunu ólíkra smátúra. Það er semsagt um að kenna leti fólks fremur en stöðum að Mývatn og Gullni hringurinn verða yfirbókaðir og missa upplifanagildi sitt sem ferðamannastaðir fyrir vikið.

Lifðu heill!

Anna Karlsdóttir, 9.8.2010 kl. 11:15

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband