Færsluflokkur: Kvikmyndir

Hver er svo að tala um kreppu?

Jóhanna Kristjónsdóttir er algjör hetja. Ég þekki fleiri en einn sem eru næstum áskrifendur að ferðum hennar til Miðausturlanda, svo gaman er að skyggnast inn í veröld hennar þar. Hún á heiður skilinn og allavega jafn mikinn og landsliðsgaurarnir. Mér finnst reyndar með ólíkindum að einhverjir hafi svo mikið ráðstöfunarfé að þeir geti púngað út einni milljón fyrir sveitta treyju. Maður má aldeilis vera hjátrúarfullur ef maður heldur að heppni fylgi því. En það er fyrir góðan málstað, svo ég ætla að hætta að ibba mig.

Ég sá annars alveg frábæra bíómynd Guy Maddin um Winnipeg í dag í Háskólabíói. Ég skemmti mér konunglega, líka í umræðunum á eftir. Salurinn var nær fullur af fólki. Í myndinni er dregin upp mynd af borginni eins og hún sé að sofna og margir draugar fólks, náttúru og mannvirkja vaktir upp. Draumur sögumanns er að finna leið til að yfirgefa borgina. Mér fannst þetta talsvert frumleg nálgun á heimildarmynd um borg. Winnipeg er í sjálfu sér lítið sjarmerandi borg fyrir utanaðkomandi en ég fékk einhverja sérkennilega löngun til að heimsækja borgina aftur eftir að hafa séð hana í þessu annarlega ljósi.


mbl.is Skólinn er í höfn
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Áfangasigur á fleiri vígstöðvum og tattúþref

Ég verð seint áhangandi sjónvarpsefnis um íþróttir en í dag var erfitt að halda sig frá skjánum. Ég hlustaði reyndar meira en horfði. TIL HAMINGJU ÍSLAND! Nú hefði Sylvía Nótt getað sungið fullum hálsi með örlítið breyttum texta svo við ætti. Ég er rosalega stolt af þeim drengjunum og vona svo sannarlega að þeim vegni sem best á sunnudag gegn Frökkum.

 Annar áfangasigur náðist í máli Paul Ramses þegar að Björn Bjarnason tók ákvörðun um að taka upp mál hans að nýju. Þetta þýðir að fjölskyldan getur sameinast á ný..Það er góð ákvörðun og í leiðinni sigur fyrir þá sem börðust fyrir því að mál hans yrði tekið upp. Gleði, gleði. Eg fékk einmitt póst frá henni Önju vinkonu minni sem var að segja mér að það væri sko ekkert grín að búa í Nairobi þessa dagana. 

Á meðan að ég tvísteig hér heima yfir hvort ég ætti að taka þátt í hlaupinu á morgun (róleg! bara skemmtiskokk hlutanum, ég er víst ekki hæf í hálfmaraþonið ennþá, hvað þá það heila), tilkynnti sonur minn mér að hann væri mjög lítið gefinn fyrir að streða og hann væri nú bara ánægður ef hann fengi fimm í einkunn í menntaskólanum.

Mér hraus hugur við þessum staðhæfingum. Mundi allt í einu eftir hvað ég var sjálf var lítið gefin fyrir metnað á menntaskólaárunum, nema auðvitað bara í því sem ég hafði einhvern persónulegan áhuga á.

Hann er blessaður á einhverju tilkynningaskeiði þessa dagana. 

 Í leiðinni tilkynnti hann að hann ætlaði að láta fara að tattúvera sig. OOOHHH. Mér finnst tattú ekki fallegt, en ég er búin að humma svona hluti, þegja eða þykjast vera upptekin yfir einhverju þegar hann tekur þessa takta, einmitt til að efla hann ekki í þessari dillu sinni í á annað ár. Allir vinirnir eru orðnir stimplaðir einhvers staðar á kroppnum.

Í þetta skiptið tók ég umræðuna upp við hann og benti honum á að einhvers konar slagorð sem hann ætlaði að  láta setja á brjóstkassann á sér gætu verið orðin úrelt eftir nokkur ár. Hlutir hreinlega breyttust stundum með tímanum og tiltrú manns á ákveðnum fyrirbærum eða persónum gæti einnig tekið breytingum. Ég sagði honum sögu af manni sem ég þekki úr æsku minni sem að var með amorsör í hjarta á upphandleggnum og upplitaðan borða yfir sem á stóð María. Vandinn var að konan hans hét eitthvað allt annað. Börnin hans þurftu því oft að svara fyrir hver þessi María væri. 

Við rifjuðum líka upp tattúsögu Troels frænda hans sem að hafði tattúverað allar kærusturnar sínar á einum handleggnum, þar sem nafn einnar tók við af annari þartil að armurinn var uppurinn og sú síðasta sem hafði fengið arma-ástarjátningu var farin úr hreiðrinu.

Troels fór þá í danska herinn og gegndi störfum víða um heim til að gleyma þessum bernskubrekum sínum og er nú með "tribal" tattú frá öxl niður að úlnlið til að fela öll kvenmannsnöfnin.

Ég veit svo sem ekki hvort ég náði einhverju fram með þessum vangaveltum um misheppnað tattú. Það mátti altént reyna. 


Næring óánægðu konunnar

Ég lyfti mér upp og fór í  bíó að sjá sænsku myndina Himlens hjerte. Hún er frábær...segi ekki meir.

Ætla að hjúfra mig undir sæng og lesa bók sem Sören gaf mér úr dánarbúi móður sinnar, og heitir Bryd! um kvenleika og feminisma eftir Mette Bryld og Nina Lykke. Hún er algjört bíó þessi bók, andar hugmyndum frá áttunda áratug síðustu aldar. Ég veit ég á eftir að skemmta mér konunglega yfir kafla sem fjallar um líkamstjáningu og kynin.  Þar er tugur mynda þar sem menn gera sig breiða og nýta talsvert pláss á meðan að konurnar eru eins og þvörur og reyna að gera sig mjórri á ýmsa vegu, t.d með því að sitja og standa með fæturnar læstar saman....og ef mér leiðist get ég jú alltaf flett upp í tímaritinu alt for damerne sem er næring óánægðu konunnar!Cool


Uppáhalds jólakveðjan!!!

Heiðursfólkið Philip Vogler og Helga Svanhvít sem reka ferðaþjónustufyrirtækið Islingua senda mér á hverju ári uppáhaldsjólakveðjuna. Þetta eru alltaf mjög frumlegar hreyfimyndir sem þau hafa virkjað ýmsa listamenn til að gera. Í ár hafa Guðjón Bragi Stefánsson gert hreyfimynd en hljómsveitin bloodgroup sá um tónlistina. Þetta er hressandi jólakveðja, ekki hægt að segja annað. Ég stenst hreinlega ekki mátið og set hér krækjuna.

Jólakveðja Islingua


Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband