Færsluflokkur: Dægurmál

Raddleysi í rigningunni!

Röddin í mér hvarf og eftir sit ég hjáróma með kurr sem brýtur sér leið um barkann og hefur sig til flugs út í hvolfið sem dimmraddað urg. ÆÆ! Rakinn í loftinu og haustið hefur heltekið raddböndin. Ég fæ mér echinea, c-vítamín, olífulaufstöflur en ekkert virkar. Ég djúsa gulrætur, rófur og haug af engifer, en allt kemur fyrir ekki. Leggst upp í rúm og fer í þagnarbindindi þangað til að mín hljómþýða íðilfagra rödd er endurheimt.Crying


Rugl á sólarhringnum

Ja hérna tölvan mín segir að klukkan á Íslandi sé 7.47 og ég ekki enn farin að sofa enda hinum megin á hnettinum þar sem klukkan er að verða miðnætti. Ég er því miður orðin of gömul til að sitja við skriftir fram á rauða nótt, eins og ég var spræk hér áður fyrr, gat vakað 36 sólarhringa ef ég þurfti að koma einhverju frá mér. Það er af sem áður var og mér sjálfsagt umhugaðra um bæði andlega og líkamlega heilsu en þegar ég var yngri og algjörlega "reckless". Bíð ykkur góðan dag á landinu fróma og fer sjálf að sofa hér við Beringstræti.

Haustlitir í villta vestrinu

Þetta skrýtna og stórbrotna land, Ameríkan, færir mér alltaf hálfgerða andkófstilfinningu. Ég dvaldi um stund í Leverett, smábæ/sveit í Massachussets fylki að vinna áður en ég kom hingað norðvestur til Alaska. Í gær var eini dagurinn sem ég átti til að nota í afþreyingu og ég fór í siglingu frá Seward um firðina við Blying sound. Sá hryssingsleg fjöllin, jöklana m.a hinn ört smækkandi Ailik jökul, vöðusel, sæljón sofandi á hólma, svartabirni að ná sér í soðið, mjaldahvali, "orcas", otra osfrv. Það var frábært veður svo ekki sé meira sagt en auðvitað farið að hausta og hér í Alaska er stutt í harðan vetur. Lundarnir voru því farnir til sjávar, einhverjar nokkrar álkur eftir sem biðu haustsins á klettum.

Ég blandaðist hópi af efnafræðingaráðstefnu og eignaðist vinkonu úr þeim hópi. Hún heitir Judith Auslander og býr í Westport. Hún sagði mér að hún væri alin upp í Moldavíuhluta Rúmeníu og hefði eftir stríðið farið til Ísrael í nokkur ár en ekki alveg fílað það. Hafði síðan sem 24 ára ung kona komið til Bandaríkjanna og gifst þýskum gyðingi sem var innflytjandi í Bandaríkjunum. Mér finnst eftirnafnið hennar svo flott og lýsandi "auslander". Hún elskar Evrópu og finnst Bandaríkjamenn hátt talandi með eins og hún sjálf sagði "bad manners", en er ein af þeim, einhvern veginn. Hún bar okkur Íslendinga við Japani og sagði, já þið eruð ennþá svona "homogenic". Henni fannst það svolítið flott, en arrogant!

Ég er annars búin að vera umvafin fólki sem hefur svo áhugaverðar sögur að segja. Fyrstu dagana vorum við Jack, Marie og Larry að vinna. Jack og Marge konan hans fluttu frá Alaska til foreldra hennar svo þau gætu gætt þeirra betur síðustu lífdagana. Þau lifa enn foreldrarnir, eins og blóm í eggi, Fred og Betty. Marge er fædd og alin upp í Íran þar sem faðir hennar Fred var kristniboði. Hann er prestur og við kvöldmatartíma var hann við stjórnvölinn búin að elda guðdómlegan persneskan mat sem við nutum saman eftir borðbæn. Ég hef ekki alist upp við slíkt en að upplifa slíkt er að mörgu leyti yndislegt, af því boðskapurinn er að þakka fyrir matinn áður en hans er neytt, og þarmeð verður kvöldmatarstundin heilagri og mikilvæg samverustund að auki.

Fred er yndisleg persóna sem lenti í því að vera gerður að útherja Bandaríkjastjórnar eftir byltinguna í Íran þegar að gíslatakan átti sér stað. Fred þekkti vel til þar í landi átti marga vini og var eins og milli steins og sleggju í gíslaviðræðunum. Hann var vel virtur í Íran sem kristilegur trúboði en átti lítið upp á pallborðið hjá klerkastjórninni, þó að honum væri tekið með ákveðinni virðingu af fulltrúum hennar. Hann sagðist að sumu leyti hafa upplifað meiri arrogans og fyrirlitningu fyrir lífsafstöðu og aðstæðum fólks í Íran meðal fulltrúa Bandaríkjastjórnar. Hafði meðal annars upplifað að ganga inn á skrifstofu Ollie North þáverandi varnarmálaráðherra og við blasti stórt plakat með orðunum "Khomeini eats pork". Vitsmunirnir voru ekki á hærra stigi.

Ég gekk marga göngutúrana á fallegu landsvæði þeirra með árfarvegi sem hægt var að baða sig í , um plantekrur með ávöxtum haustsins ber af ýmsu tagi og epli og naut íkornana. Marie samstarfskona hló að mér þegar ég tók upp hnetur af götunni og dásamaði. Þær eru í tonnum á þessum árstíma íkornunum til mikillar gleði, og íslendingnum til mikils yndisauka.

Jack og Marge eru ævintýrafólk sem hafa lent í ýmsu. Voru meðal annars að segja mér hérna eitt kvöldið yfir matnum að þegar verið var að vinna í SLICA rannsókninni var mikilvægt að viðtalsvinnan í Rússlandi gengi vel fyrir sig. Starfsmaður verkefnisins í Chukotka var í vandræðum með peninga og því þurfti að bjarga. Þó að það sé næstum hægt að sjá héðan til Rússlands er engu beinu flugi fyrir að fara milli Alaska og Chukotka (Allir vegir liggja til Moskvu). Starfskonan og vinir í olíugeiranum í Barrow höfðu því gírað milljarðamæring svæðisins til að lána einkaflugvél sína til að flytja rannsóknarféð. Þau hjón sögðu það vissulega hafa verið undarlega tilfinningu að stíga uppí flugvél Abromovitz og fljúga yfir. Það tókst og verkefnið hafði sinn gang.

Til að vinna þvert á landamæri hér í norðrinu þarf maður að vera tilbúin að setja blóðið á ísstig og framkvæma hlutina. Ég er til dæmis ábyrg fyrir að safna gögnum um ferðamál þvert á norðurheimskautið og hef vægast sagt kvíðatilfinningu fyrir hvernig mér eigi að takast það í Rússlandi. En kannski tekst það með hjálp góðs fólks.

Eitt er allavega víst að ég er búin að vera að kynnast mikið af óhemju góðu fólki hér sem ýtir undir hamingjutilfinningu og bjartsýni. Það spillir heldur ekki fyrir að hér er náttúra og landslag alveg ógleymanlegt. Litirnir sem ég upplifa sterkar og lyktin sem ég skynja betur er örugglega góðs viti fyrir framhaldið.


Afturför í sláturgerð! Vambaleysi sláturhússtjóranna.

Blaðið er með umfjöllun um sláturgerðarfólk sem heldur hefðinni á lofti og tekur slátur á hverju hausti. Raunar kom í ljós þegar betur var að gáð að enginn viðmælendanna hafði tekið slátur síðast en tvö gerðu það reglulega. Ég elska slátur af dekkri gerðinni, þ.e blóðmör og er alveg sama um kaloríurnar sem fylgja fitukögglunum, þetta er örugglega mun hollara en gegnum-unnar pepperonipylsur kjötvinnslanna.

Því miður hefur orðið talsverð afturför eftir að yngri kynslóð framkvæmdastjóra tók við sífellt fækkandi sláturhúsum landsins. Þó ekki ætli ég að rekja þessar breytingar er ég á því að það hafi verið til mikillar miska fyrir bændur í landinu og dýravelferð sláturdýra. ...En nóg um það. Það eru VAMBIRNAR. Þær eru úr óætu plasti nútildags og fást ekki öðruvísi. Ég veit að Hildur nágrannakona mín á Hvanneyri forðum daga vissi orðið um eitt sláturhús á landinu sem eftir var sem hægt var að semja við um ekta vambir. Það er auðvitað búið að loka því.

Slátur er engan veginn það sama án lífrænna vamba. Ég þekki engan sem étur plast og hef aldrei orðið þess áskynja að það bæti bragð matarins.  Ég ætla að kenna framkvæmda- og verkstjórum sláturhúsanna um þessa leiðinlegu afturför....og þó þeir sjálfsagt væli um að erfitt sé að fá fólk í svo mannaflafrek störf, þá er þetta einungis spurning um forgangsröð í ákvarðanatöku og spurning um djúpstæðari skilning á því hvað er bragðgóður og heilsusamlegur hefðarmatur.


« Fyrri síða

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband