Færsluflokkur: Trúmál
29.8.2010 | 13:57
Til heiðurs kvenprestum
Nær allir prestar sem hafa tjáð sig á opinberum vettvangi og þorað að mæla opinskátt gegn voðaverkum fyrrum biskups Ólafs Skúlasonar eru konur (með allri virðingunni fyrir hinum tveimur karl prestunum, Flóka og Þórhalli sem mælt hafa á svipaða leið).
Það er eins gott að kirkjan á öfluga presta enn innan sinna raða, ekki veitir af. Ég varð afar glöð í hjarta að heyra að Guðbjörg hefði notað tækifæri í messu sinni í morgun til að velta þessum hlutum fyrir sér. Það er hinn rétti vettvangur til að ræða um brot einstakra kirkjunnar manna, þó ég sé þeirrar skoðunar að það hefði þurft að gera miklu, miklu fyrr.
Ég ætla að vona að átaksbæklingadreifing þjóðkirkjunnar verði ekki eitthvað yfirklór. Þó mér finnist einhver plástursþefur af því átaki. Ég vona þá að ég hafi ekki á réttu að standa hvað það varðar.
Ég var fermingarbarn kven-níðingsins Ólafs. Við vorum fjórar vinkonurnar sem að byrjuðum að ganga til hans í fermingarfræðslu. Allar hinar þrjár hættu við að fermast eða allavega fermast hjá honum. Eftir stóð ég hrædd og óstyrk - algjör gelgja. Ólafur notaði þá tækifærið og króaði mig af út í horn í Réttarholtsskóla og byrjaði á því að biðla til mín um að ég mætti ekki svíkja sig þegar hinar væru farnar. Hann hótaði mér í kjölfarið að ég hefði verra af ef ég sviki drottinn og hætti fermingu. Allan veturinn hampaði hann mér eins og ég væri uppáhalds og ég var sú sem fékk oftast að kveikja á kertum meðal fermingarbarna ársins í upphafi messu þennan vetur.
Ólafur sýndi aldrei neina kynferðislega tilburði gagnvart mér barninu, en háttalag hans var vissulega undarlegt. Það var markað af einhverri afar fornri uppeldisfræði sem einkennist af heiðri og skömm. Ég hef oft hugsað um þessa senu í horninu síðan. Ólafur hefur greinilega verið afar drottnunarhneigður.
Það er afar mikilvægt að kirkjunnar menn og konur setji þessa hræðilegu glæpi fyrrum biskups og etv. annara í orð. Annars getur engin heilun farið fram, svo maður slái um sig orðum Sigrúnar Pálínu.
Segir allt stjórnkerfið hafa stutt Ólaf | |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Trúmál | Breytt s.d. kl. 16:07 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)