Færsluflokkur: Kjaramál
7.8.2011 | 13:30
Langvinn efnahagskreppa óumflýjanleg
Margt bendir nú til þess að alþjóðafjármálakerfið þurfi endurskoðunar við þó bæði stjórnmálamenn og fjármálasérfræðingar hafi þráast við að horfast í augu við þá staðreynd. Það er margt í þessu.
Í fyrsta lagi er fréttamennska af áhrifum skuldasöfnunar og lausafjárkreppu í Evrópu og Bandaríkjunum mörkuð af orðræðu fjármálaspekinganna úr fjármálastofnunum sem óneitanlega eiga verulegra hagsmuna að gæta. Þeir sem sáu mynd Michael Moore, Capitalism - A love story geta kinkað kolli yfir því nú að sjá hvernig að forsvarsmenn bankastofnanna eru skipulega sendir út í miðla með skilaboð um nær heimsendi í fjármálakerfinu til að beita stjórnmálaleg öfl þrýstingi svo þau gangi í ábyrgðir fyrir heimskulega hegðun fjármagnseigenda í bönkunum. Sem í raun þýðir að ríkið setur út öryggisnet fyrir fall fjármálstofnana en skattborgararnir taka yfir lengri tíma skellinn.
Þannig er þjarmað að almennum launþega á meðan að forsvarsmenn fjármálastofnana geta haldið áfram að lifa í afneitun og endurtaka sömu mistök á mistök ofan. Semsagt ekki skynsamleg viðbrögð við kreppu. Ástandið hérí Danmörku er eins og heima - greiningar frá bönkum eru birtar gagnrýnislaust eins og um hlutlaust þekkingargrundvallað mat væri að ræða. Það er mikil afturför hér því áður fyrr voru Danir mun krítískari og analytiskari á samfélagsmálefni sem þessi. Íslendingar hafa hinsvegar ekki verið þekktir fyrir að vera miklir samfélagsrýnar hvað þetta varðar fyrr en uppgjörið í rannsóknarskýrslunni birtist.
Margir Danir eru enn minnugir kartöflukúrsins svokallaða á tíunda áratug síðustu aldar. Það gæti hjálpað þeim að bregðast betur við. Í viðtali danska sjónvarpsins í gær við almenna borgara úti á götu kom fram að mörg hjón/margar fjölskyldur leggja nú fyrir í stað þess að neyta og eyða svo þau hafi þanþol missi annar aðilinn vinnuna. Ég finn einnig hér á mínum tímabundna vinnustað að vinnuöryggi starfsmanna í stjórnsýslu hefur minnkað verulega. Á mánudag eru áætlaðir fundir þar sem þarf að taka blóðugar ákvarðanir um hversu marga þarf að reka á næsta ári og hversu marga árið 2013. Yfirmenn eiga síðan að mæta upp í ráðuneyti 10 september næstkomandi til að gefa skýrslu um þær ákvarðanir. Engar undanþágur frá sparnaðarkröfum verða veittar. Þannig að veruleiki hins vinnandi manns hér hefur snarlega breyst frá því framtíðarspár um vinnumarkað í Danmörku voru gerðar fyrir örfáum árum. Þá leit allt út fyrir að með færri á vinnufærum aldri miðað við eftirlaunaþega yrði hér meiri eftirspurn eftir vinnuafli en framboð.
Hinsvegar hefur mannauðurinn eitthvað rýrnað innan vébanda danska ríkisútvarpsins þar eð fréttakona fréttatímans þráskallast við, spyr ógáfulegra spurninga eins og tilhögun hagkerfisins hingað til verði að vera lögmál til eilífðar.
Hún er t.d að spyrja alla mögulega sérfræðinga um hvernig hægt sé að koma í veg fyrir að hagkerfið hægi á sér, að framleiðslan minnki ekki að vexti, að einkaneyslan minnki ekki. Semsagt ógáfulegar spurningar leiða yfirleitt til heimskulegra svara.
Þetta minnir á manneskju sem er að átta sig á að manían er að fara að brá af henni og í stað þess að leita skynsamlegra leiða til að koma í veg fyrir að detta ofan í mjög viðvarandi þunglyndi, spyr hún hver eigi kókaín svo hún geti viðhaldið ástandinu um sinn.
Satt best að segja finnst mér Helle Thorning Smith sem talin er verða næsti forsætisráðherra eftir kosningar, ekki hafa neitt verulega markvert að segja. Hún talar um að það þurfi að blása í glæður opinberrar eftirspurnar og skapa þannig eftirspurn og hagvöxt í framleiðslugreinum. Það er auðvitað klassískt svar við kreppu skvt. Keynes en vart raunhæft nema í takmörkuðu mæli, miðað við yfirvofandi efnahagsástand. Danskar bankastofnanir veittu heimskuleg lán til húskaupenda á bóluárunum sem nú súpa seyðið af að húseignir þeirra eru minna virði en lánin sem þeir eru að borga af, ekki ósvipað Íslendingum. Þeir veittu svokölluð flex-lán sem gerði fólki (og kannski sérstaklega þeim sem eru ekki alveg skynsamastir í einkafjármálum) að fresta afborgunum í einhver ár. Þetta þýðir að skuldasöfnun almennings er veruleg.Enda eru tugir þúsundir húseigna hér til sölu. Það þarf því ekki að undra að fólk haldi að sér höndum í neyslu nútildags. Það er miklu skynsamlegra en hitt.
Ég gekk á markað í gær, Roskilde kræmmermarked, sem er haldin árlega og þekur allt svæðið sem Hróarskeldu tónlistarhátíðin er haldin á einnig árlega. Þarna koma saman þúsundir manna að skoða dót sem er til sölu. Áður fyrr gat maður gert góð kaup á gömlum munum sem fengu hlutverk hjá nýjum eigendum, semsagt þarna var mikil flóamarkaðsstemning. Upplifunin nú var nokkuð önnur en fyrir áratug þegar ég gekk um og gerði reifarakaup á gömlum kaffibollum sem ég ylja mér enn við heima. Nú gat á að líta allt annars konar samsetningu sölutjalda. Ekki það að það væri nóg af dóti til sölu, flest var fjöldaframleitt dót, drasl sem leit útfyrir að glitra í pakningunum en fer örugglega fljótlega í sundur. Semsagt drasl eða djönk eins og einhver myndi segja. OG NÓG AF ÞVÍ. Margir gesta sem þarna gengu um, ungir sem aldnir sýnilega ofaldir
Þetta fékk mig til að spyrja hvernig hagkerfi vill fólk búa við. Vill fólk geta eytt og neytt eins og enginn væri morgundagurinn ef það bara fær eitthvað drasl sem það getur umlukið sig með - eða er skynsamlegra að hugsa sér að maður geti lifað við þrengri kost en lifað vel og stuðlað að innihaldsríku lífi?
Hvaða sýn hafa ákvarðanatökuaðilar í samfélaginu á hið góða líf? Hvernig vilja þeir stuðla að því að skapa borgurunum þannig aðstæður, svo þeir geti lifað hóflega en ágætlega.
Mér finnst það persónulega áhugaverðara að fá þau svör frá þeim, fremur en klisjukennt babl um hvernig eigi að koma í veg fyrir að efnahagskreppan ríði yfir heima hjá þeim.
Fimm ár af sársauka | |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Kjaramál | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)