Færsluflokkur: Viðskipti og fjármál

Kvalir við óþægilega ákvarðanatöku

Einhvern tíma sagði mér vís maður eða kona að það væri í manneskjunnar eðli að forðast ákvarðanatöku um óþægileg málefni. Eitt er víst að heimsbyggðin, sem er samtengd í gegnum viðskipti, fjármál, stjórnmál og ýmis tengsl af öðrum toga bregst nú við merkjum, svipað og indiánarnir forðum daga eru sagðir hafa lesið í reykmerki.

Fréttir berast og dreifast um viðbrögð ákveðinna stjórnvalda ákveðins lands og tugþúsundir, hundruðþúsund ef ekki milljónir fólks (á hinum abstrakt markaði) bregðast við og reyna í gríð og erg að selja hlutabréf sín á enn lægra verði en í gær. Þessi hringavitleysa heldur áfram linnulaust á meðan að öll spjót eru á orðum eða líkamstjáningum stjórnmálaelítunnar sem hvorki virðist hafa tök á að takast á við erfiða ákvarðanatöku né vilja það.

Það er athyglisvert að lesa greiningar samtíma spámanna á fjármálum. Til dæmis skrifaði George Soros um mögulegar lausnir til að koma í veg fyrir heimskreppu tvö fyrir nokkrum dögum. Hann telur að nú verði að taka veigamiklar (lesist: óþægilegar) ákvarðanir:

"Three bold steps are needed. First, the governments of the eurozone must agree in principle on a new treaty creating a common treasury for the eurozone. In the meantime, the major banks must be put under European Central Bank direction in return for a temporary guarantee and permanent recapitalisation. The ECB would direct the banks to maintain their credit lines and outstanding loans, while closely monitoring risks taken for their own accounts. Third, the ECB would enable countries such as Italy and Spain to temporarily refinance their debt at a very low cost. These steps would calm the markets and give Europe time to develop a growth strategy, without which the debt problem cannot be solved." (Soros í FT 29.sept.2011)

Allar þessar aðgerðir taka þó í grunninn á einungis einum hlut, að lægja öldur viðbragða á markaði, semsagt stýra reykmekkinum betur. Þessum líka velafmarkaða og skýra geranda (eða hitt þó heldur).  Markmiðið er vitlaust sett frá upphafi í nálgun Soros, því miður.  Peningahagkerfið, fjármálastofnanir og stjórnvöld eiga að vinna í þágu almennings og umhverfis. Fjármálakerfið á að auka lífsgæði ( sem auðvitað er álitamál í hverju felst og hvað þarf til). Þessi sjálfala markaður er stórhættulegur mannlegu samfélagi af því að hann er uppspuni, vöruvæðing eins og Karl Polanyi skrifaði um árið 1944. Sé markaðurinn óheftur látinn stjórna mannlegu samfélagi er kreppa óumflýjanleg. 

Auðvitað má segja að markaðurinn sé samnefnari fyrir viðbrögð fólks sem pælir í viðskiptum  (í þessu tilfelli verðmæti hlutabréfa, sem eru bæði hvikul og afar óáþreifanleg stærð). Hafi fólk littla trú á einhverju gengur illa að tala upp verðmæti þessara hvikulu og óáþreifanlegu stærða, hafi fólk miklar væntingar til trúverðugleika þeirra sem tala þær upp, er líklegra að verðmætin hvikulu og óáþreifanlegu (bréfin) haldi verði sínu eða hækki.

Það virðist einhvern veginn vera að þær séu svo óbærilega óþægilegar allar ákvarðanir sem líta burt frá markaði sem drottnara að ekki sé almennilega hægt að takast á við þær um þessar mundir. 

Það eitt og sér er athyglisvert.

Það þarf að taka á allt öðrum hlutum að mínu viti. Það er t.d óheilbrigt á hvaða forsendum fyrirtæki í dag starfa sem háð eru hlutabréfaeigendum (sem jafnvel hafa lítið sem ekkert með daglegan gang fyrirtækjanna að gera, eru fyrst og fremst fjármagnseigendur). Þegar hlutabréfaeigendur vita hver er hinn daglegi gangur í starfseminni er meiri tilhneiging til að vanda sig og minni hvati til að búa til bólu/reykmökk. Það er miklu eðlilegra að þeir sem starfa í fyrirtækjunum eigi í þeim og ég vona að þessi hugsun nái fótfestu og breiðist út sem viðbrögð við þeirri huglægu kreppu sem viðskiptalífið stríðir við um þessar mundir.

 

 


mbl.is Hlutabréf lækka mikið
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Væringar í evrópskum bönkum - menningin er meinið

Það eru greinilega margir bankastjórar stórra fjármálastofnana að hverfa frá um þessar mundir af einni eða fleiri ástæðu.

 Á dögunum vakti athygli mína greining á óförum eins af mikilfenglegustu bankastofnunum Svisslendinga UBS.

Viðskiptablaðið hefur einmitt sent frá sér grein um að þar séu að verða forstjóraskipti.

 

Ástæða þess er ekki bara að bankinn stendur höllum fótum heldur eru meira en sterkar vísbendingar um að hann hafi verið rændur innanfrá eins og okkur Íslendingum er því miður allt of kunnugt um í tengslum við okkar bankahrun árið 2008.

Bankar sem lenda í slíku og fjölmiðlar virðast hafa á því yndi að draga slíkt gjörninga fram eins og þeir væru verk EINS MANNS.  Bankaheimur hefur meira að segja hugtak yfir slíkt fólk og eru það kallað "Rogue Traders".

Í þessu tilfelli heitir maðurinn Kweku Adoboli en hann þótti djarfur og hugvitssamur starfsmaður bankans en olli tveggja milljarða evra tapi vegna gjaldeyrisviðskipta. Áður hafði bankinn þó sett sjálfan sig nær á hliðina vegna glæfrarlegs framgangs í undirmálslánakapphlaupinu sem heltók bankamenninguna um árabil.

Það sem hristir Evrópskt og Svissneskt fjármálalíf er að á þriðja ári eftir upphaf fjármálakreppu sem sendi vestræna heimsbyggð á barm gjaldþrots er að skandalar sem upp eru að koma NÚ sýna að stórbankar eins og UBS eða fjárfestingarbankarnir í Evrópu hafa ekkert lært. Innan þeirra er  stofnanamenning sem vinnur gegn stöðugleika fjármálakerfisins. 

Uppákomurnar sem flett er ofan af sýna svo ekki verður um villst að fjárhættuspilamenning er (enn) viðloðandi fjárfestingabanka um alla Evrópu. Þó að UBS muni sennilega lifa tapið af sem Adoboli olli er næsta víst að þó bankarnir vilji láta svona óheppileg viðskipti líta útfryrir að þau séu framin af ákveðnu fólki innan þeirra vébanda sem missti sig - þá er hæpið að horfa fram hjá stjórn bankanna og menningunni sem bankarnir innræta sínu starfsfólki.

Þannig skrifar Per Hansen professor við viðskiptaháskólans í Kaupmannahöfn að stofnanamenning fjárfestingarbanka sé ALMENNT vandamál. það er ekki bara áskorun fyrir stjórn bankanna en einnig fyrir fjármálaeftirlit landa um heim allan. 

Eitt af þeim málum bankaheims sem hafa hneykslað undanfarin ár var hneykslið í stórbankanum Sociéte Génerale en þar var bankamaðurinn Jerome Kerviel uppvís að hafa kostað bankann yfir 36 milljarða evra tap í fjárglæfraviðskiptum (speculation trade).  Sökudólgurinn hefur reyndar bent á að hann hafi einungis spilað með í þeirri stofnanamenningu sem hampað var í bankanum.

Þetta er umhugsunarvert, athyglisvert svo ekki sé meira sagt.

Ein af niðurstöðum rannsóknarskýrslu sem UBS lét gera, var að á tímum fjármálabóla freistast margir til að horfa fram hjá hefðbundnum reglum um góð bankaviðskipti. Gildismatið og viðmiðin sem liggja til grundvallar góðri bankastarfsemi geta þannig runnið til og breyst. Vinningsmiðaða og einstaklingsmiðaða menning fjárfestingarbankanna hampaði sérstaklega áhættusömu atferli. Bankinn reiddi sig nær alfarið á stærðfræðilega líkanagerð í mati og  niðurstöður einkunnagjafarfyrirtækjanna (!!! voðalega hljómar þetta allt saman kunnuglega!). Menningarvandamálið er semsagt víðtækara en að það nái einangrað til þessara glæfralegu einstaklinga sem brennimerktir eru "Rogue Traders".

Hansen tekur dæmi af atburði sem átti sér stað árið 2004 í Londondeild Citibankans en þar höfðu starfsmenn leikið sér að því að græða 24 milljónir dollara á hálftíma með því að selja evrópsk ríkisskuldabréf (á meðan að enn var eftirspurn eftir þeim) og kaupa síðan aftur á þrefalt lægra verði. Þetta var útmálað sem afrek þó auðveldlega hefði verið hægt að sjá að verið var markvisst að "dömpa" skuldabréfunum. Slíkt þykir allajafna ekki góð latína hjá heiðvirðari bankastofnunum en þarna höfðu aðrar leikreglur öðlast viðurkenningu og þóttu jafnvel kúl meðal strákanna.

Stærsti hluti fjárfestingarbanka inniheldur svona menningu, hrægammamenningu. Til að hægt sé að stemma stigu við fleiri kreppum af þeim toga sem sopið er seyðið af nú og í náinni framtíð þarf að verða uppgjör í fjármálastofnanamenningu vesturlanda. Þjóðarleiðtogarnir virðast ekki alltaf vera að átta sig á því.

Árið 1987 var framleidd geysivinsæl kvikmynd um Wall Street þar sem aðalpersóna leikverksins hét Gordon Gekko. Gekki þessi átti slagorðið "Greed is Good".  Nokkrum árum síðar voru drengir bankaheims um víða veröld búnir að gera þau að sínum. Gildismatið var einnig orðið ámóta. Þeir upplifðu sig sem herra alheimsins. 

Hansen rekur upphaf gildismats skriðsins/breytinga til Bretlands á níunda áratugnum þegar að aukið frelsi bankastofnanna leiddi til aukinnar samkeppni, samruna og yfirtaka. Þannig voru heiðvirðar bankastofnanir með fleiri hundrað ára sögu og hefð undir í nýrri menningu sjálfmiðaðra, aggressívra og gróðamiðaðra manna sem voru drifnir af mótivinu að ná inn bónusum. Þeir hröktu þannig aðra strákamenningu frá sem byggðist á "old boys" tengslaneti sem tengdist gegnum menntastofnanir, nám og stéttvísi. Barings bank átti sér 233 ára sögu þegar að menningarumskipti leiddu á endanum til þess að einn hinna nýju menningarbera bankans, Nick Leeson varð uppvís að og ásakaður fyrir ólöglega gjörninga tengdum bókhald bankans og eiginfjárstöðu.

Þegar öllu er á botninn hvolft fjalla umskipti og breytingar í fjármálakerfinu um meira en einstaklinga og fráfarandi og komandi bankastjóra. Það var uppsafnað atferli heils menningarkerfis sem leiddi til þráhyggju á endalaust hækkandi hlutabréfamarkaðsvísitölur og ofurflóknar nýskapanir í fjármálaafurðum (t.d afleiður og undirmálslán). Þessi uppsöfnuðu atferli bankamannamenningarinnar leiddu til djúpstæðustu fjármálakreppu heimsins síðan 1930.

(tilvitnanir og teksti þýddur að hluta úr grein Per H. Hansen - Kasinokultur sem birtist í Weekendavisen, 23.September 2011).

 

 


mbl.is Seðlabankastjóri ESB kærður
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Langvinn efnahagskreppa óumflýjanleg

Margt bendir nú til þess að alþjóðafjármálakerfið þurfi endurskoðunar við þó bæði stjórnmálamenn og fjármálasérfræðingar hafi þráast við að horfast í augu við þá staðreynd. Það er margt í þessu.

Í fyrsta lagi er fréttamennska af áhrifum skuldasöfnunar og lausafjárkreppu í Evrópu og Bandaríkjunum mörkuð af orðræðu fjármálaspekinganna úr fjármálastofnunum sem óneitanlega eiga verulegra hagsmuna að gæta. Þeir sem sáu mynd Michael Moore, Capitalism - A love story geta kinkað kolli yfir því nú að sjá hvernig að forsvarsmenn bankastofnanna eru skipulega sendir út í miðla með skilaboð um nær heimsendi í fjármálakerfinu til að beita stjórnmálaleg öfl þrýstingi svo þau gangi í ábyrgðir fyrir heimskulega hegðun fjármagnseigenda í bönkunum.  Sem í raun þýðir að ríkið setur út öryggisnet fyrir  fall fjármálstofnana en skattborgararnir taka yfir lengri tíma skellinn. 

Þannig er þjarmað að almennum launþega á meðan að forsvarsmenn fjármálastofnana geta haldið áfram að lifa í afneitun og endurtaka sömu mistök á mistök ofan. Semsagt ekki skynsamleg viðbrögð við kreppu. Ástandið hérí Danmörku er eins og heima - greiningar frá bönkum eru birtar gagnrýnislaust eins og um hlutlaust þekkingargrundvallað mat væri að ræða. Það er mikil afturför hér því áður fyrr voru Danir mun krítískari og analytiskari á samfélagsmálefni sem þessi. Íslendingar hafa hinsvegar ekki verið þekktir fyrir að vera miklir samfélagsrýnar hvað þetta varðar fyrr en uppgjörið í rannsóknarskýrslunni birtist.

Margir Danir eru enn minnugir kartöflukúrsins svokallaða á tíunda áratug síðustu aldar. Það gæti hjálpað þeim að bregðast betur við. Í viðtali danska sjónvarpsins í gær við almenna borgara úti á götu kom fram að mörg hjón/margar fjölskyldur leggja nú fyrir í stað þess að neyta og eyða svo þau hafi þanþol missi annar aðilinn vinnuna. Ég finn einnig hér á mínum tímabundna vinnustað að vinnuöryggi starfsmanna í stjórnsýslu hefur minnkað verulega. Á mánudag eru áætlaðir fundir þar sem þarf að taka blóðugar ákvarðanir um hversu marga þarf að reka á næsta ári og hversu marga árið 2013. Yfirmenn eiga síðan að mæta upp í ráðuneyti 10 september næstkomandi til að gefa skýrslu um þær ákvarðanir. Engar undanþágur frá sparnaðarkröfum verða veittar. Þannig að veruleiki hins vinnandi manns hér hefur snarlega breyst frá því framtíðarspár um vinnumarkað í Danmörku voru gerðar fyrir örfáum árum.  Þá leit allt út fyrir að með færri á vinnufærum aldri miðað við eftirlaunaþega yrði hér meiri eftirspurn eftir vinnuafli en framboð.

 Hinsvegar hefur mannauðurinn eitthvað rýrnað innan vébanda danska ríkisútvarpsins þar eð fréttakona fréttatímans þráskallast við, spyr ógáfulegra spurninga eins og tilhögun hagkerfisins hingað til verði að vera lögmál til eilífðar.

Hún er t.d að spyrja alla mögulega sérfræðinga um hvernig hægt sé að koma í veg fyrir að hagkerfið hægi á sér, að framleiðslan minnki ekki að vexti, að einkaneyslan minnki ekki. Semsagt ógáfulegar spurningar leiða yfirleitt til heimskulegra svara.

Þetta minnir á manneskju sem er að átta sig á að manían er að fara að brá af henni og í stað þess að leita skynsamlegra leiða til að koma í veg fyrir að detta ofan í mjög viðvarandi þunglyndi, spyr hún hver eigi kókaín svo hún geti viðhaldið ástandinu um sinn.  

Satt best að segja finnst mér Helle Thorning Smith sem talin er verða næsti forsætisráðherra eftir kosningar, ekki hafa neitt verulega markvert að segja. Hún talar um að það þurfi að blása í glæður opinberrar eftirspurnar og skapa þannig eftirspurn og hagvöxt í framleiðslugreinum. Það er auðvitað klassískt svar við kreppu skvt. Keynes en vart raunhæft nema í takmörkuðu mæli, miðað við yfirvofandi efnahagsástand. Danskar bankastofnanir veittu heimskuleg lán til húskaupenda á bóluárunum sem nú súpa seyðið af að húseignir þeirra eru minna virði en lánin sem þeir eru að borga af, ekki ósvipað Íslendingum. Þeir veittu svokölluð flex-lán sem gerði fólki (og kannski sérstaklega þeim sem eru ekki alveg skynsamastir í einkafjármálum) að fresta afborgunum í einhver ár. Þetta þýðir að skuldasöfnun almennings er veruleg.Enda eru tugir þúsundir húseigna hér til sölu. Það þarf því ekki að undra að fólk haldi að sér höndum í neyslu nútildags. Það er miklu skynsamlegra en hitt.

Ég gekk á markað í gær, Roskilde kræmmermarked, sem er haldin árlega og þekur allt svæðið sem Hróarskeldu tónlistarhátíðin er haldin á einnig árlega. Þarna koma saman þúsundir manna að skoða dót sem er til sölu. Áður fyrr gat maður gert góð kaup á gömlum munum sem fengu hlutverk hjá nýjum eigendum, semsagt þarna var mikil flóamarkaðsstemning. Upplifunin nú var nokkuð önnur en fyrir áratug þegar ég gekk um og gerði reifarakaup á gömlum  kaffibollum sem ég ylja mér enn við heima.  Nú gat á að líta allt annars konar samsetningu sölutjalda. Ekki það að það væri nóg af dóti til sölu, flest var fjöldaframleitt dót, drasl sem leit útfyrir að glitra í pakningunum en fer örugglega fljótlega í sundur. Semsagt drasl eða djönk eins og einhver myndi segja. OG NÓG AF ÞVÍ. Margir gesta sem þarna gengu um, ungir sem aldnir sýnilega ofaldir

Þetta fékk mig til að spyrja hvernig hagkerfi vill fólk búa við. Vill fólk geta eytt og neytt eins og enginn væri morgundagurinn ef það bara fær eitthvað drasl sem það getur umlukið sig með  - eða er skynsamlegra að hugsa sér að maður geti lifað við þrengri kost en lifað vel og stuðlað að innihaldsríku lífi? 

Hvaða sýn hafa ákvarðanatökuaðilar í samfélaginu á hið góða líf? Hvernig vilja þeir stuðla að því að skapa borgurunum þannig aðstæður, svo þeir geti lifað hóflega en ágætlega.  

Mér finnst það persónulega áhugaverðara að fá þau svör frá þeim, fremur en klisjukennt babl um hvernig eigi að koma í veg fyrir að efnahagskreppan ríði yfir heima hjá þeim.


mbl.is Fimm ár af sársauka
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Bókhaldstap, bólgnar væntingar og raunverulegt tap

Nú er maður orðinn svo skyni skroppin eftir að hafa sætt hálfgerðum pyntingum í formi frétta um bókhaldsbrask og afskriftir, bókhaldskúnstir og annað í þeim dúr að frétt um eldgosatengt tap stærsta ferðaþjónustu-fyrirtækis heims er eitthvað sem maður kippir sér lítið upp við.

Þetta er svona svipað eins og keðjuverkun af gunguskap skipstjóra Artemis (sem þorði ekki inn í Ísfirska þoku), auðvitað finna fleiri fyrir því en bara hin alþjóðlega samsteypa þegar áætlanir bregðast.

ég hef aðeins stúderað fyrirtækið TUI en það er afleiðing af endalausum samrunum og yfirtökum sem einkenndu tímabilið frá þúsaldamótum til 2008 í alþjóðlegu viðskiptalífi. Nú vitum við auðvitað sem er að slík hernaðarbrögð í viðskiptum voru oftar en ekki byggð á skuldsetningu. Þegar fyrirtæki eru verulega skuldsett sem hlutfall af eiginfjárstöðu þurfa þau að keyra alveg svakalega stíft til að geta staðið við sínar skuldbindingar. Ef maður snýr þessu yfir á líkingamál, má segja að því stærri útgerð sem maður er með, því meiri velta þarf að vera til að halda utan um til að greiða fyrir umsvifin, því minna má bregðast í starfseminni.

Eitt af því sem stórhuga viðskiptamönnum yfirsást kannski var einmitt þetta, maður þarf að vanda sig (þeir hefðu sumir kannski þurft að vera íhugulli á meðan á öllum yfirtökunum stóð).

Það fer tvennum sögum af TUI - í fyrsta lagi voru óstaðfestar fréttir í helstu viðskiptamiðlum heims í febrúar 2010 að verið væri að reyna að selja stórveldið (kannski ekki besta tímabil viðskiptasögunnar, allavega ef átti að selja það í einu lagi).

Í öðru lagi stærir samsteypan sig af því að vera alltaf á höttunum eftir framtíð ferðaþjónustunnar (sem þeir telja sig geta skilgreint greinilega.

Það er því kannski bara fjölmiðlastönt - að birta lélegar afkomutölur og tengja við gosið í Eyjafjallajökli. Því þegar allt kemur til alls er fyrirtækið með svo bólgnar væntingar að ekkert má útaf bregða þá tapa þeir í bókhaldinu. Hið raunverulega tap er auðvitað a) að starfsmenn eru þrælar staðlahyggju í ferðaþjónustu og fá ekki að blómstra því þeir eru hermaurar í stigröðuðu veldi ferðaþjónustu TUI.B) Aðrir sem eiga hagsmuna að gæta þar sem TUI velur að þröngva sér inn á ferðamarkað eru undirorpnir ráðandi markaðsstöðu fyrirtækisins og þá má fólk dæma fyrir sig sjálft hvort því finnst það hagsælt.

Þannig að jú, auðvitað má segja að það sé frétt þegar að TUI velur að tilkynna opinberlega um að halli undan fæti að minnsta kosti tímabundið, því þeir eru ígildi þjóðhagskerfis þegar kemur að umsvifum. Fyrir mér er TUI hinsvegar dæmi um fyrirtæki í ferðaþjónustu sem að hefur tapað sér í  stærðarhagkvæmni. Þegar á reynir hrynja slík veldi oft.

Þannig það er spurning hvort maður á að fagna frekar en armæðast.

 


mbl.is Askan veldur TUI tjóni
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Mannauðsstjórnun á villigötum

Hernaðaráætlanir fyrirtækja í samkeppni eru vægast sagt orðnar meinfýsnar og bera ekki hag neytenda eða viðskiptavina fyrir brjósti.

Kannski er hundurinn grafinn í því hugarfari sem þrífst meðal stjórnenda og starfsmanna fyrirtækjanna.

Þeir eru illa innrættir í gegnum menntun og þjálfun sem snýr að hvaða hugarfar þeir eiga að viðhafa í starfsemi sinni.

Þannig er ekki verið að ala á heiðarlegum viðskiptaháttum í liðsefli starfsfólks (svokallaðri mannauðsstjórnun) heldur er verið að ala á hvernig hægt er að skjóta samkeppnisaðilum ref fyrir rass með hvaða hætti sem er, helst sem meinfýsnustum. Einhvern tíma var sagt í hernaði að best væri að fórna minni hagsmunum fyrir meiri, þó það kostaði að góðum hermönnum væri fargað. Hér á það ekki við. Því meiri hagsmunir eru hagstæðari símgjöld fyrir neytendur sem notast við síma, að þeir geti lifað við eðlilegt umhverfi.

Neytendur á Íslandi eru með því sofandalegasta sem gerist í vestrænum heimi, og það gefur auðvitað fyrirtækjunum færi á að misnota stöðu sína. Um það vitna ótal dæmi sem óþarfi er að fjölyrða um hér.

Arion banki eða stjórn hans öllu heldur samþykkti í fyrradag tillögu þess efnis  að starfsmönnum bankans væri gert að taka siðfræðinámskeið. Það er þarfaþing en ég spyr mig hvort ekki þurfi meiri yfirhalningu á fleiri sviðum til að breyta hugarfari hermanna viðskiptanna hér á landi. Við þurfum að skoða innrætinguna í námi, við þurfum að ráðast á meinlokur í kenningakerfum sem kenndar eru. Við þurfum að vera meira vakandi sem neytendur almennt.


mbl.is Fengu hrós frá forstjóranum
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Endurskoðunin á regluverki og eftirliti með frjálsu flæði fjármagns þarf að vera víðtækari

Sumir muna eflaust eftir sérlegum krísu-fundi G20 landanna sem haldinn var í Tékklandi að mig minnir fyrir rúmu ári. Lítil sameining hefur orðið milli þeirra um hvernig beri að leysa þann vanda sem blasir enn við vegna fjármálahnignunar í heiminum.

Evrópa eða Evrópulöndin eru þó neydd til að taka á málum sameiginlega og það á ekki bara við um ríki  sem eru bundin efnahagslegum og pólitískum samruna gegnum Evrópusambandið - það eru fleiri lönd sem eru svo samtengd inn í Evrópu að þau þurfa að vera með í þeirri endurskoðun. Við erum að tala um sameiginlegt vandamál - og ekki einangruð þjóðmála-málefni.

Ég endurtek í 100aðasta skipti, þessi mál þarf að skoða kerfislægt og því er staðhæfing blaðamanns Financial Times kórrétt - Evrópa verður að styrkja sameiginlegt regluverk sitt. Það verður ekki gert með því að setja Ísland í skuldafangelsi.

Hins vegar er manneskjan í eðli sínu hégómleg og í pólitík leika menn sér að því að eyðileggja mannorð hvers annars ef það hentar. Homo politicus er sú týpa sem þarf að fylgjast með og vera viðbúin við að noti sér tækifærið í refskákinni um völd...en þá þarf líka að bregðast hratt við og leyfa homo politicus ekki að nýta sér slíkt tækifæri. Hagsmunirnir eru víðtækari en svo að þeir eigi að vera leiksoppur skammt-hugsandi tækifærissinna.

Vörðum leiðina að því að fjármálarústirnar og eftirstöðvar þeirra verði teknar til endurskoðunar með bætt regluverk að leiðarljósi sem ekki hnekkir meira á einni þjóð en annarri.


mbl.is Ekki setja Ísland í skuldafangelsi
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Kasínó kapitalismi og trúarhreyfingar viðskiptanna

Susan Strange uppnefndi alþjóðlega fjármálakerfið þessu myndræna nafni - Casino capitalism árið 1986.

Ron Martin sem skrifaði bókina "The economic geography of money" skrifaði:

"The geographical circuits of money and finance are the "wiring" of the socio-economy....along which the "currents" of wealth creation, consumption and economic power are transmitted...money allows for the deferment of payment over time-space that is the essence of credit. Equally, money allows propinquity without the need for proximity in conducting transactions over space. These complex time-space webs of monetary flows and obligations underpin our daily social existence."

Nassim Taleb hittir naglann á höfuðið þegar hann setur tíma-rýmis samdráttinn í samhengi og segir að nú sé hægt að rústa hagkerfi á nóinu með tölvu- og samskiptatækninni einni saman.

Rafrænu tengingar fjármálakerfisins á alþjóðavísu og yfirfærslur í cyberspace eru vírarnir og félagshagfræðin er fólkið sem kemur sér upp ákveðinni skilvirkri hegðun í kerfi þar sem eru ákveðnir hvatar til að græða peninga.

Fjármál eru samkvæmt Peter Dicken (sem skrifaði Global Shift) eitt af mest umdeilanlegu hagrænu atferlunum vegna sögulegra tengsla þeirra við sjálfstæði þjóða. Allt frá því að elstu þjóðríki heims byrjuðu að myndast hefur sköpun fjármagns og drottnun yfir því verið álitið miðlægt fyrir viðurkenningu og afkomu.

 David Harvey hefur sagt að hver kreppa og missir fjármagns beri með sér tilfærslur efnislegs auðs (verðmæta). Þannig séu krepputímar tímar tilfærslna á fjármagni og auði. 

Segja má að Nassib Taleb hafi á réttu að standa þegar hann bendir á að tölvu og samskiptatækni og fjármálaverkfræði saman hafi orðið til þess að enginn hafi skilið kerfið og því hafi getað farið sem fór, en hann ræðst ekki á rætur illgresisins nema að takmörkuðu leyti af því að sá tilbúni væntingaauður sem festi sig í bókhaldi fyrirtækja var bara bóla. Það er því ekki sá bólgni auður sem allur færist um heimsbyggðina landa í milli, svæða í milli, ríkis og fyrirtækja í milli, fólks í milli -heldur töluvert rýrari summa sem allir reyna að kraka aðeins úr.

Auður er skilgreindur mismunandi á mismunandi tímum og gott dæmi um það er dæmisaga Kanadíska blaðamannsins Mark Kurlansky sem skrifaði hina margfrægu bók "Cod". 

Vegna þorsksins hafa stríð verið háð og bylting brotist út. Heilu hagkerfin hafa risið og riðað til falls - allt frá Boston til baska - þorskaðli til þræla, kaþólikkum til konunga, sjómönnum og sælkera.

Svo var þorskinum fyrir að þakka að á átjándu öld hafði Nýja England öðlast sess sem alþjóðlegt viðskiptaveldi í stað þess að vera aðeins fjarlæg nýlenda sem hungrið vofði yfir.

Í Massachussets var þorskurinn ekki lengur bara matur, heldur var hann nánast tilbeðinn. Þorsk-aðallinn var hópur fólks sem átti auð sinn að þakka þorskveiðum allt aftur til 17.aldar og sem dýrkaði fisktegundina mjög opinskátt (á peningum komu þorskar fyrir, húsakynni voru prýdd myndum af honum osfrv.)

Við erum komin svo langt í tækninni og svo mörkuð af kasínó kapitalismanum í samtímanum að við áttum okkur ekki alltaf á að verðmætin sem verið er að sýsla með eru óhaldbær symbólsk kerfi sem þó geta ráðið örlögum fólks, lífi og dauða.

Mér finnst reyndar Nassim Taleb nokkuð glöggur þegar hann líkir fjármálakerfinu og örlögum þess við trúarkerfi þar sem menn misstu sig í ofsatrú.

Skrýtið að eitthvað svo ofur-óhaldbært sé svo haldbært þegar kemur að afdrifum fólks! 

 

 

 

 


mbl.is „Þið settuð Ísland á hausinn“
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Hæfniviðmið í íslensku viðskiptalífi

Einhverra hluta vegna var ég alltaf á því að Jón Sigurðsson settur framkvæmdastjóri Stoða (áður FL Group) hefði verið einskonar strámaður. Í ljós kemur eftir nauðasamninga fyrirtækisins sem þekkt er að rak í þrot fyrir fjármálahrun að hann er einkar dýr starfsmaður fyrir illa statt fyrirtæki.

Ég er að spá í hvaða hæfniviðmið liggja til grundvallar launasamnings við hann? Það er einkar áhugavert að vita á hvaða forsendum einhver er launaður þegar að fyrirtæki skulda tugi, jafnvel hundruði milljarða?

Ég spyr sjálfa mig sérstaklega þeirrar spurningar á hvaða viðskiptaviti slíkir útreikningar og tilhögun byggi?

Ætli ég fái eitthvað svar við því ?

Eða benda menn ef til vill bara á lagatæknileg takmörk þess að rifta áður leynilegum launasamkomulagsatriðum?

Kannski byggist hið stórkostlega viðskiptavit á að gera samninga þannig úr garði að sá sem samningurinn um ræðir blæðir aldrei en þeir sem ekki hafa af tilvist hans vitað - fá að borga á endanum þó það verði síðar.

 


mbl.is Laun framkvæmdastjóra Stoða lækka um 70%
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Íslendingar alltaf bestir og fremstir eða sístir og verstir

Þjóðarsálin (ef hægt er að tala um að fólk eigi einhvern sameiginilegan takt og tón sem deilir sameiginlegu landssvæði) er eins og pendúll!

Annað hvort erum við fremst eða best eða flottust eða fallegust og annað í þeim dúr - eða allt er á hverfanda hveli, við erum algjörir sveppir, síst, verst og alveg ömurlegt. Hér veður uppi spilling á heimsmælikvarða, heimska á heimsmælikvarða, þröngsýni á heimsmælikvarða og þó lengi væri upp talið.

Þetta er náttúrulega svolítið broslegt og alveg efni í þátt a la "Little Britain".

Það er eitthvað svona Monty Python element í Íslendingum mörgum (úps, passa sig að alhæfa ekki!).

Þó það sé síður en svo broslegt hvernig mörgum fyrirtækjum hefur vegnað og hvað þau hafa skellt mikilli áþján á íslenska borgara mörg ár fram í tímann...verð ég að viðurkenna að mér finnst yfirlýsing

Lýðs Guðmundssonar hálf brosleg.

Hann er enn fastur í farinu um að vera annað hvort fremstur í sinni röð - eða hafa orðið verst úti.

lesið vandlega aftur og aftur eftirfarandi setningu:

"áfallið sem exista varð fyrir á einni nóttu var langmesta höggið sem bankahrunið olli einum aðila"

Hvaða gildismat liggur í þessari setningu?

Pælum í því.

 


mbl.is Fengum langmesta höggið
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Hinn umdeildi tími þegar botninum er náð!

Á síðustu dögum hafa þjóðhöfðingjar eins og Obama talað um að nú væri botninum náð í heimskreppunni og að í sjónmáli væri hægur uppgangur sem tæki mjög bráðlega við. Hér á landi hafa þessar raddir endurómað meðal einhverra einnig. En það er fyrst nú sem að forsvarsmenn alþjóða gjaldeyrissjóðsins viðurkenna fyrir alheimi að spár um efnahagsgengi þjóða á komandi misserum mun ekki ganga eftir og að sú kreppa sem nú ríður yfir í heimsefnahagsmálum er ekki skammvinn bóla.

Ég hef síðan 2005 talað um að efnahagslægðin væri óumflýjanleg en hafði ekki reyndar fyrr en fyrir tæpum tveimur árum síðan áttað mig á að umfang efnahagslægðarinnar gæti orðið svo mikið sem raun ber vitni.

Mjög virtur fræðimaður í mínum fagheimi, Carlota Perez en hún er sérfræðingur í tæknihagrænum bylgjum, kenningum sem upprunalega voru þróaðar af fræðimanninum Kondratiev, skrifaði athyglisverða bók sem var gefin út árið 2002 sem spáði fyrir um hið mikla alþjóðlega efnahagshrun sem óumflýjanlega afleiðingu af tæknihagrænu tímabili sem í raun leið undir lok um þúsaldamótin 2000.

Bókin heitir Technological revolution and financial capital: The dynamics of bubbles and golden ages.

bubbles_golden_ages_peq2.jpg

Í henni fer Carlota í gegnum þær fimm tækni byltingar sem hafa umbreytt félagsstofnanalegu umhverfi á hverjum tíma og leitt af sér tímabil hagvaxtar og framsóknar síðustu tvær aldir. Sú síðasta sem var um það bil að líða undir lok um og eftir þúsaldamótin var knúin af uppfinningu hálfleiðarans (microprocessor - örgjörvans) sem umbreytti nær öllum forsendum atvinnulífs og hagvaxtar á jarðkringlunni í nokkra áratugi.

Það sem tók við þegar að drifafl síðustu tæknibyltingar var að líða undir lok var mikil spákaupmennska í hagkerfi sem ekki gat framleitt neitt en umhverfðist um að búa til ný og óáþreifanlegri verðmæti byggð á peningum, og ýmsum snúnum verðbréfum og virðismati þeirra.

Carlota ber þessa örvæntingarfullu tilraun til að halda heimshagkerfinu á fullum útblæstri hagvaxtar saman við tímabilið sem tók við eftir mikla framrás tækniframfara undir aldamótin 1900 og eftir sem leiddu jú eins og kunnugt er til síðustu heimskreppu.

Perez lýsir því hvað ferlið undan hruni einkennist af:

Þegar fer að halla undan fæti tímabilsins byrjar fjármagnsauður að verða ráðandi viðmið og auðsöfnunin byrjar að takmarkast við fasteignabólur og erlend ævintýri með fjármagni þar sem allt skynsamlegt verðmætamat er fyrir borð borið. Eignabólgur verða til samtímis með að skuldasöfnun eykst í glæfralegum takti og eyðast upp í spilavíti spákaupmennskunnar. Á þessu stigi verður mikið misræmi milli pappírsauðs og raunverulegs auðs, milli raunverulegrar arðsemi eða afleiða og fjármagnsgróða. En skynvillan getur ekki varað við og togstreitan sem af því skapast að viðhalda henni er dæmd til að enda í hruni. Þetta getur átt sér stað í röðum af mismunandi og skemmri kreppum á einum markaði eftir öðrum, í risahruni eða samblöndu af báðu. Eitt er allavega víst. Bólan brestur.


Ég lærði heilmikið af þessari lesningu.

 

Ég hvet ykkur til að lesa þetta athyglisverða verk.

 

Nokkur grunnatriði: 

 

Tæknibreytingar eiga sér stað í klösum djúpstæðra nýsköpunar sem skapa árangursríkar og aðgreinanlegar byltingar. Þegar þær eiga sér stað er allri framleiðsluskipan umbylt í kjölfarið.

Það er "funktional" mismunur milli fjármagn auðs og framleiðsluauðs (capital) þar eð hvor þeirra leitar arðs eftir mismunandi leiðum.

Vanburðir til að takast á við breytingar og andóf gegn breytingum á römmum félagsstofnana (félagsstoðir) í samanburði við tæknihagrænt umhverfi er knúið fram af samkeppnis þrýstingi.

 

Fjöldaframleiðslubyltingin setti mark sitt á flestar stofnanir/stoðir samfélagsins á tuttugustu öld og var undirliggjandi miðlægum stjórnvöldum og fjöldaneyslu mynstrum í fjórum stórum hagvaxtarstjórnunartilraunum sem settar voru upp til að nýta sér tæknina. Þetta voru Keynesiskt lýðræði, Nazi-fasismi, Soviet socialismi og ríkisþróunarstefnan í hinum svokölluðu þriðja heimslöndum sem hvert um sig hafði sín einkenni í stjórnarháttum.

 

 

 


mbl.is Svört spá frá IMF
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Næsta síða »

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband