Færsluflokkur: Tónlist
18.5.2007 | 12:48
Oumu Sangaré bræddi krókloppna Íslendinga
Sem betur fer búum við ekki á of einangruðu skeri. Tónleikarnir í gær voru meiriháttar. Það var pakkað af fólki í Nasa og þó að einhver tugur gesta hefði hlammað sér niður á stóla var ekki gert ráð fyrir sitjandi gestum eins og ein móðguð frú tók eftir og fékk miðann sinn endurgreiddan. Tómas R. og félagar hituðu upp og gerðu sitt besta til að losa um axlir og lendar dökkklæddra, stífra og gónandi íslendinga. Ég stóð við hliðina á sænskri konu sem stakk verulega í stúf í salnum af því hún dillaði sér undir ljúfum og seiðandi tónum hljómsveitarinnar. Flestir áhorfendur voru frekar mikið sjálfsmeðvitaðir, hræddir um að vekja á sér athygli fyrir að blotta tilfinningarófið...eða eitthvað...svolítið "Finnalegir" voru tónleikagestir allavega. Það breyttist óðum þegar að stórglæsileg hljómsveit dívunnar Oumu kom á sviðið og hljómsveitarmeðlimir létu krókloppna líkamstjáningu gesta lítið þvælast fyrir sér. Afríska drottningin kynnti vel undir glóðunum og að lokum höfðu íslendingarnir meyrnað svo að velflestir voru farnir að dansa. Mikið var gaman að upplifa fólk losa aðeins um taumana í sjálfu sér. Mikið var gaman að hlusta á tónlistina og söngkonu með svona fallega og sérstaka söngrödd. Tjáning Oumu var glæsileg. Hún geislaði og sýndi og sannaði að hægt er að virkja frumkraft konunnar og vera stoltur af. Vá, við lifrarpylsulituðu íslensku konur komumst ekki með tærnar þar sem hún og kynsystur frá Afríku hafa hælana.
Ég var svo hamingjusöm þegar ég kom út af tónleikunum..að ég skyldi hafa drifið mig (ég er svo léleg í því) , fegin að fleiri erlendir menningarstraumar berast hingað en nokkru sinni áður. Fegin að búa ekki á einangruðu skeri. Vei skipuleggjendum. Ég ætla að fara á fleiri tónleika í náinni framtíð.
Tónlist | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)