Verksmiðjuvæðing skóla - The Wall!

Ég tek heilshugar undir með Jóhanni Björnssyni heimspekingi og kennara við Réttarholtsskóla að það er eitthvað annarlegt við þá tímasóun að setja upp stimpilklukku fyrir kennara, eyða tíma í að útskýra gleði og gagnsemi slíks Taylorisma og annars skerða fjármagn til gagnlegra þátta skólastarfs sem í raun hafa nemandann og hag hans að leiðarljósi (samanber niðurskurð á ákveðnum greinum vegna fjárskorts osfrv.).

Ég lenti í því að eiga leið um stjórnsýsluskrifstofu Háskóla Íslands í byrjun sumars þar sem ég kenni og þá tjáði þar starfskona mér að réttast væri að setja upp stimpilklukku á kennara skólans. Þetta var bara svona frjálsleg tjáning hennar en mig rak í rogastanz verð ég að viðurkenna. 

Já, sagði ég, ég er nú ekki viss um að HÍ kæmi vel útúr því allavega ef að taka ætti mið af stimpilklukkunni í launum. Hún leit niður á skrifborðið og áttaði sig greinilega eitthvað frekar illa á starfsskyldum, viðveru og undirbúningi ásamt ýmsu öðru. Hafði greinilega raunar takmarkaða innsýn í skólastarf, enda auðvitað einungis ráðin til að ráða í tölur en ekki analysera eðli starfsemi.

Svona erum við takmörkuð manneskjurnar - skiljum ekki hvort annað - en reynum að setja okkur á háan hest gagnvart þeim sem við skiljum ekki þegar færi gefst!

Móðir mín gegndi ljósmóðurstörfum í 50 ár, langamma mín eitthvað svipað. Ég man sem barn eftir því að hafa svarið þess eið að aldrei skyldi ég koma mér í þá aðstöðu að þurfa að vinna slíka krefjandi vaktavinnu. Ég saknaði svo eðlilegs fjölskyldu-rythma þegar hún var fjarri dögum,kvöldum, nóttum og helgum saman.

Ég las með ógeði gamlar dagbækur formóður minnar sem þurfti að staldra stundum við á aðra viku á öðrum bæjum vegna fæðandi kvenna - las um andvana börn og jafnvel úldin sem komu úr kviðum kvenna, farsóttir og vandkvæði við að lífga börnin við sem dró á langinn viðveru hennar með ókunnu fólki sem fékk hana til að vanrækja fjölskyldu sína en bjarga öðrum.

Og nú er ég stödd þannig í lífinu að síðastliðinn áratug hef ég helgað lífi mínu meira eða minna kennslu sem krefst endalauss undirbúnings, eilífs naggs og ótrúlegs yfirvinnuálags. Ég gæti skrifað marga kvæðabálka um líf kennarans..en skýrasta mynd þess er ef til vill viðbrögð sona minna sem hafa svarið þess eið að fara aldrei í háskóla í lífinu því það sé ávísun á vinnuþrælkun af alvarlegri gráðu og lítillar uppskeru annars en vanskilnings og lítilla launa.

Kannski er ég bara svona lélég fyrirmynd - það er hugsanlegt. En þegar ég dreg undanfarin áratug saman eru fáar helgar þar sem ég hef ekki eitthvað setið yfir vinnunni, fá kvöld sem ég hef átt þess kost að fara að sofa fyrir miðnætti vegna vinnuálags.

Ætli skólayfirvöld væru tilbúin til að borga fyrir slíka "devotion". Ég er ekki sannfærð.

Ég þarf ekki að vaka á nóttunni - ekki að taka við andvana börnum - en oft koma upp erfið persónuleg mál sem þarf að taka á þó maður sé óneitanlega mismunandi upplagður,eins og gengur.

Í kennarastarfinu koma upp ýmis mál sem þarf að fjalla um utan þröngt skilgreindra fyrirlestra - eða spurningatíma sem ákvarðaður og viðurkenndur er af kjaranefndum þessa lands eða segjum kassa-skilgreinendum Menntamálaráðuneytis.

Man í svipinn eftir að hafa verið niðurhringd af nemanda á öllum tímum sólarhrings vegna vanlíðunar á sálinni. Man í svipinn eftir að hafa verið vakin um miðja nótt af grátandi nemanda sem að taldi sig misskilda.

Man í svipinn eftir að hafa þurft að halda fundi með nemendum sem að áttu í vandræðum vegna fyrirlagðrar hópasamvinnu sem ekki var að fúnkera miðað við væntingar.

og svo mætti lengi halda áfram að telja það sem telst utan formlegrar viðveru vegna kennslu....Til dæmis þegar að skilgreind stjórnun (12% af vinnutíma) dregst á langinn vegna mikillar umsýslu á umsóknum, undanþágum,staðfestingum á fyrirhuguðu námsferli og svo mætti lengi halda áfram að telja.

Það koma upp mál stjörnunemenda sem hafa greinst með krabbamein - hvernig tekur maður á því? Horfir maður á stimpilklukkuna og segir - æ, ég er búin með mína tíma..hann getur róið sinn sjó!?

Minni á myndina the WALL - hún var býsna góð og sýndi hvernig að verksmiðjuvæðing skólanna hefur áhrif á afurðirnar - nemendurnar! 

Viljum við slíkt samfélag.

Ekki ég

Vilt þú það?

 

 

 


mbl.is Uppreisn gegn stimpilklukku
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Baldvin Björgvinsson

Góð lýsing á starfi og vinnutíma kennarans Anna. Ef launagreiðendur vilja borga fyrir allan vinnutímann, verði þeim að góðu. Ekki mun ég kvarta yfir þeim launagreiðslum til mín. :D

Baldvin Björgvinsson, 21.8.2009 kl. 22:01

2 identicon

Takk fyrir virkilega góða færslu! :)

Sigurrós (IP-tala skráð) 21.8.2009 kl. 22:21

3 identicon

Gangi ykkur (kennurum) vel í baráttunni við verksmiðjuvæðinguna.  En ég minni á að í 'The Wall' voru það kennararnir sem voru að hakka börnin, slétta út allt einstaklingseðli, framleiða flata, meðfærilega vinnumaura.  Fólk sem er team-players, gerir ekki uppsteyt í bönkum eða eftirlitsstofnunum þó allt sé í rugli...

Kannski það þurfi að íhuga verksmiðjuvæðinguna hinum megin frá?

Georg O. Well (IP-tala skráð) 21.8.2009 kl. 23:09

4 Smámynd: Anna Karlsdóttir

Rétt er það áttunda plánetan að samskipti bera ætíð með sér gagnvirkni. Hvað hefur áhrif? Hvað er afleiðing?  Afhverju voru kennararnir svona ferkantaðir í the wall? Ég man eftir því að horfa andaktug á myndina á sínum tíma og sjá í henni sannleikskorn sem ég var of óþroskuð eða vanmáttug til að geta tjáð mig um á sínum tíma. Myndin var auðvitað víðtæk samfélagsádeila á fordismann (pulsuverksmiðju-þankagang kapitalisma og hagræðingar) á sínum tíma. Því miður erum við í vestrænum þjóðfélögum enn þann dag í dag (og þrátt fyrir augljóst gjaldþrot fyrri gilda um að hagræn afköst séu það sama og andleg frjósemi) föst í hjólförum "vélrænnar effektiviseringar-miðunar" sem ég held að leiði af sér full ferköntuð viðmið um menntun. Vís kona sagði mér eitt sinn: Nám er ekki það sama og menntun. Ég tek undir orð hennar en um leið þín. Það er mikilvægt að skoða menntamál útfra fleiri sjónarhornum en bara kennarans eða bara nemandans.

Anna Karlsdóttir, 21.8.2009 kl. 23:33

5 Smámynd: Þorri Almennings Forni Loftski

Byggist akademískt nám ekki á frjálsri mætingu og ástundun? Hvað sem segja má um vinnuafls framleiðslu lægra skólastigs.

Þorri Almennings Forni Loftski, 21.8.2009 kl. 23:45

6 identicon

Enn eitt dæmið um "blýantsnagara" ,  skrifræðiskerfis hins opinbera, samanber svo margar stofnanir ríkisins, t.a.m. hollustuvernd ríkisins, heilbrigðiseftirlit ríkisins, sem er það alskrýtnasta. Það er með ólíikindum hve mikla vinnu þetta fólk leggur á sig til að fullnægja einhverjum lagabókstaf EB ráðsins, sem ætti í raun aðeins að vera í orði en ekki á borði !!!! en í raun er það allt í þágu EB staðli sem við vinnum  með að 90% hluta, en erum ekki einu sinni í EB !!! er einhvert vit í þessu, ég bara spyr???

Guðmudur júlíusson (IP-tala skráð) 21.8.2009 kl. 23:49

7 Smámynd: Anna Karlsdóttir

Akademískt nám er krefjandi einmitt vegna þess að í flestum tilfellum er ekki "explicit" skyldumæting - en ástunda þarf námið (lesa sér til osfrv) til þess að ná prófum. Það er því í flestum tilfellum heilmikils sjálfsnáms krafist sem ekki allir nemendur átta sig á fyrr en of seint fyrir próf - og svo sjálfsaga sem fyrir suma er mikil eldskírn.

Anna Karlsdóttir, 21.8.2009 kl. 23:50

8 Smámynd: Þorri Almennings Forni Loftski

Mikið rétt Anna.

Ætli sú eldskírn skrifist ekki á undirbúningsskort hinna línulaga og ,,verksmðjuvæddu" grunn- og framhaldsskóla landsins. Hins vélræna námsferlis sem margir nemendur útskrifast úr? Þar sem mæting er stundum mikilvægari en eigin ábyrgð og ástundun með gagnrýnni hugsun.

Einhver óuppfyllt eyða þarna á milli veldur því að sumum háskólastúdentum kemur þetta óþægilega á óvart.

Það er meira en umhugsunarvert.

Þorri Almennings Forni Loftski, 22.8.2009 kl. 00:19

9 identicon

Þetta klukkukerfi er ekkert annað en afleiðing af því kerfið sem kennarar vilja sjálfir. Það er enginn fjölbreytileiki í grunnskólum og enginn samanburður lengur. Af hverju ekki að fara með þetta þá alla leið og láta liðið stimpla sig inn og út?

Nú ertu eflaust ósammála mér og telur að kennarar séu rosalega gott fólk sem vinni vinnuna sína af alúð og áhugasemi og fjölbreytileikinn og samanburðurinn sé mikill og jafnvel of mikill og það má vel vera að þetta sé satt í einhverjum tilvikum og vonandi sem flestum. Raunveruleikinn er hins vegar sá að mjög margir gefast upp á kennslu og allt of margir kennarar eru fastir í hjólförum sem þeir duttu í fyrir mörgum árum. Ekki vegna þess að þeir komast ekki upp úr þeim heldur einmitt vegna þess að þeir vilja ekki upp úr þeim.

Það eru ljósmæður í þinni fjölskyldu það eru kennarar í minni og sjálf hef ég reynt við kennslu. Áhugasemin, alúðin, kappsemin að gera betur og hugsjónin að skila af sér góðu dagsverki dvínar í kerfi þar sem allir launasamningar eru eins þ.e. einn miðlægur kjarasamningur, sömu námsbækur í öllum skólum, námskrá sem er svo nákvæm að hún segir nánast hvað skal kenna í hverjum tíma og lítill sem enginn samanburður milli skóla. Stimpilklukka er rökrétt framhald á þetta órökrétta kerfi okkar.

Kallaðu mig klikkaða en ég vil að foreldrar og nemendur komi miklu meira að skólakerfinu með vali á skólum. Skólar þurfa þá að vera lausir úr viðjum námskrár sem bindur hendur kennara og það er algjör nauðsyn að skólar fái að kaupa þær skólabækur sem þeir vilja. Skólastjórnendur þurf að hafa miklu meira svigrúm í launagreiðslum til kennara þ.e. ekki einn asnalegur samningur sem mismunar fólki eftir m.a. aldri og skólar þurf að keppa við hvorn annan um nemendur.

En hvað veit ég? Er bara fyrrverandi stunda kennari sem búin að fá mér of mikið í glas í kvöld eftir allt of langa og allt of erfiða viku í starfi með enga stimpilklukku. Vona að þú afsakir þetta langa raus í mér þetta er bara pirringur sem er búinn að byggjast upp lengi í mér.

Landið (IP-tala skráð) 22.8.2009 kl. 04:39

10 Smámynd: Anna Karlsdóttir

Takk fyrir athugasemdirnar Landið - margt af því sem þú heldur fram þekki ég líka - og kannski hefur þú á réttu a standa að stimpilklukkan er rökrétt framhald á órökréttu kerfi.

Ég hafði kennt erlendis í háskóla í nokkur ár þegar ég flutti hingað til lands til að kenna - það sem kom mér mest á óvart var stúdentakúltúrinn. Hann var alls ólíkur því sem ég átti að venjast. Hér var hjarðhegðun yfirgnæfandi og nemendur skipulögðu sig út frá viðmiðinu á því að spara sér að leggja eitthvað á sig. 

Ég kem inn í tíma og enginn í 40 manna hópi hefur haft fyrir því að lesa námsefnið sem á að fjalla um. Þau lesa bara fyrir próf og hafa takmarkaðan áhuga á að leggja fram ígrundaðar og pældar skoðanir - því þau eru hrædd um að ef kennarinn er ekki á sama máli - þá verði þeim refsað.(Það eitt segir mér að gagnvirk rökræða er ekki þjálfuð á lægri skólastigum hér á landi - og fólk hér kann almennt lítið að rökræða - en undirstrika að ég þekki sem betur fer mjög lofsverðar undantekningar).

Vanáhugi nemenda á að slökkva fróðleiksþorsta sinn - kom mér mjög á óvart. Ég hef oftsinnis spurt sjálfa mig í hverju slökkva þau þá þorstanum? - Því miður er ég hrædd um að þau geri það í tölvuleikjum, á facebook og í hnýsni um svokallað frægt fólk og í öðrum yfirborðsfróðleik sem gerir þeim grikk - þau eru ekki andlega fullnægð.

Þegar það er sagt verð ég auðvitað að taka fram að ég er mjög fylgjandi fjölbreytilegum áhugamálum og tel rangt að njörva fólki niður í einhverjar fyrirfram skilgreindar rásir.

Það kom mér einnig mjög á óvart hvað nemendur margir (alls ekki allir þó) voru mikið að pæla í vali á greinum útfrá því hvað þau gætu uppskorið í peningum  - í stað þess að frelsa sjálfa sig undan fjötrum vanahugarfarsins - og velja af áhuga.

Ég er að draga fram verstu dæmin hér - af því mér finnst þau umhugsunarverð - það eru líka til nemendur sem lýsa eins og stjörnur uppúr fjöldanum af því að þau eru vel skýr - áhuga- og eljusöm osfrv. Og það er unun og  "stimulerandi" fyrir andann að eiga við þau samræður.

Ég held því miður að vandinn sé ekki einungis í skólakerfinu - vandann má líka rekja til heimila og fjölskyldna þar sem fullorðna fólkið er svo upptekið af "the rat race" að þau gefa sér ekki tíma til að spjalla við börnin sín um heima og geima. Tek þó fram að mér finnst ég upplifa að þetta hafi farið mjög batnandi frá því ég var stelpa.

Anna Karlsdóttir, 22.8.2009 kl. 11:39

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband