Glíman felst í að íslensk fyrirtæki og fjölskyldur munu bugast

Ég var stödd á borgarafundinum í Iðnó. Þó Einar Már hafi oft verið góður var hann aðeins of skáldlegur fyrir minn smekk þó ekki brygðist honum bogalistin frekar en fyrri daginn við að finna sterkar myndlíkingar. Ræða Helga Áss Grétarssonar var allrar athygli verð en þar kom fram að indefence hópurinn telur eftir bæði rýningu á samningnum sem verður lagður fyrir alþingi á morgun og samtöl við lögfróða aðila erlendis að samningurinn sé vondur og það þurfi að spóla til baka, fá betri samning.  Hann notaði þá líkingu að ef hann hefði verið forstjóri Íslands ehf. og samningamenn hefðu verið með eins óöruggar forsendur og sú sem ríkisstjórnin hafði hefði forstjóri fyrirtækisins sent þá aftur að samningaborðinu.

Elvira Mendes var með athyglisverðan punkt en hann er sá að nú liggur fyrir Evrópusambandinu ný reglugerð sem verður samþykkt eða á að taka gildi um fjármálastarfsemi 1. júlí 2009 - enda væntanlega ekki vanþörf á þegar að ljóst er að að endurtryggingasjóðir fjármálafyrirtækja Evrópuþjóðanna eru vart eða alls ekki borgunarhæfir fyrir þeim skuldabagga  sem fyrirtækin hafa komið sér upp.   Vandinn eins og hún sá hann var að innan og meðal evrópuríkjanna liggur ekki fyrir samstaða um hvernig taka eigi á málum nú þegar að fleiri og fleiri ríki horfa ofan í hítina sem skapast og eflist í heimskreppunni. Hún tók sem dæmi að margt væri óljóst og engin leið að svara hvernig tekið yrði lagalega á málum þar eð hugtökin liabillity (ábyrgð vegna skuldaklafa) og immunity (undanþága) væru hvergi nefnd í því skjali sem lægi fyrir. Ég þarf reyndar að spyrja Elviru eitthvað nánar út í þetta...þar eð ég fann ekkert um málið hjá Evrópusambandinu nema skýrslu frá HM treasury frá desember 2009 - Convergence programme for the United Kingdom - þar sem undarlega nokk er talað um að Icesave málið sé þegar í ferli að því leyti að verið sé að yfirfæra eitthvað af þeim fjármunum sem milli stóðu. Bein tilvitnun: 

Landsbanki (Icesave accounts): Transactions are taking place to compensate retail depositors in this account. These are expected to add around £4.5 billion to CGNCR. £3.8 billion of this represent Government refinancing of Bank of England loans to cover the liabilities borne by the FSCS and the Icelandic Depositors' and Investors' Guarantee Fund (ICS).

Hundaklemman í mínum huga felst í því að stjórnvöld verða sennilega að semja en samningurinn er svo ömurlegur og bundin svo mikilli óvissu eftir sjö ár að vart er hægt að álykta um áhrif hans á núverandi stundu - hvorki með tilliti til þróunar íslensku krónunnar og íslensks efnahagslífs né borgunarhæfi þjóðarinnar þegar að því kemur að reiða fram fé.

Eygló Harðardóttir spurði af hverju væri ekki hægt að miða við íslenska krónu-upphæð sem útgangspunkt fyrir fastsetningu þess fés sem ríkisábyrgðin næði yfir eða yfirlýst skuld okkar vegna Icesave óreiðunnar. Hún talaði um óvissuna sem af því stafaði að skuldin yrði gerð upp í erlendum gjaldeyri, en eins og flestir vita er ekki margt sem bendir til að gengismál íslensku krónunnar muni snúast til betri vegar í náinni framtíð. Þar með gætum við átt á hættu að borga margfaldlega eða skulda margfaldlega það sem upphaflegur ásetningur stóð til (en það hafa margir myntkörfulánþegar einmitt orðið svo biturlega varir við á undanförnum misserum).

Indriði varð fyrir svörum og mér fannst honum bregðast bogalistin í að koma með sannfærandi rök. Hann sagði bara að skuldirnar væru í erlendum gjaldeyri og því væri ekki hægt að breyta. En voru samningamennirnir ekki einmitt sendir út til að semja? Afhverju reyndu þeir ekki  þessa leið?

Mér fannst margt fróðlegt koma fram og ég varð klókari á mörgu því flókna sem við blasir vegna samninga um Icesave við Bretland og Holland og sé því ekki eftir að hafa varið kvöldi í Iðnó.  Hinsvegar er enn margt á reiki og enn hafa stjórnvöld ekki sannfært mig um hvers vegna ekki er hægt að taka málið upp aftur á grundvelli þess að 90% þjóðarinnar munu einfaldlega ekki láta það yfir sig ganga. 

Allar tilraunir til að halda því fram að við séum svo óvön þjóðaratkvæðagreiðslu - svo það gangi ekki að fara þá leið - sannfæra mig einfaldlega ekki.

Ég er sammála Steingrími svo langt sem það nær að íslenskt atvinnu- og efnahagslíf glímir nú og í náinni framtíð við lífróður sem verður töff. Ein af megin áhyggjunum í tengslum við aukna skattbyrði á öllum sviðum er að íslenskt atvinnu- og efnahagslíf og þarmeð fjölskyldur velji að afsala sér samfélagslegum skyldum í þágu neðanjarðarhagkerfisins. Allir vita hvað það þýðir - þær auknu tekjur sem að ríkissjóður ætlar að hala inn til að borga skuldir, mun ekki skila sér. 

Þetta er hundaklemman - og hún er ekki einungis hundaklemma heimilanna - hún er til lengri tíma hundaklemma ríkisstjórnarinnar.

 

 

 


mbl.is Meiri áhyggjur af yfirstandandi glímu
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Morten Lange

Takk fyri fundargerðina. Ég ætlaði mér að mæta en komst ekki.

Eitt þarf hugsanlega  að réttleiða "... ekkert um málið hjá Evrópusambandinu nema skýrslu frá HM treasury frá desember 2009 ..."  

2009 ?

Morten Lange, 3.7.2009 kl. 10:44

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband