Aðgerðir um samgöngustefnu í dag!

Ég var stödd í hádeginu hjá samgönguráðherra ásamt félögum mínum úr samtökum um bíllausan lífsstíl. Við vorum greinilega ekki með nógu æsilega efnisskrá fyrir fréttafólk (sem mætti ekki - fattar ekki hvað við erum skemmtilegt fólk;)!) en markmiðið var að vekja athygli á tilmælum sem sendar voru frá samtökunum til stærstu fyrirtækja á höfuðborgarsvæðinu um að taka upp samgöngustefnu. Markmið okkar var að grípa til aðgerða til að stuðla að fjölbreytilegri samgönguformum í borginni.

Ráðherra sagði okkur að ráðuneytið hans hefði þegar tekið upp stefnu og nú hjóluðu allavega þrír starfsmenn reglulega - einn meira að segja úr Grafarvogi og niður í bæ. Ráðuneytið greiðir þá strætókort fyrir starfsmenn í stað stæðisgjalds í miðbæ fyrir bifreið hans/hennar. Hann upplýsti okkur ennfremur um nokkur áform sem hrint verður af stað nú á næstu dögum....vonandi fer eitthvað að mjakast í þessum málum.

Hér er fréttatilkynningin frá samtökunum!

Samtök um bíllausan lífsstíl hafa það meginmarkmið að stuðla að bættum ferðavenjum á höfuðborgarsvæðinu og telja það afar þýðingarmikið málefni í nútímasamfélagi.

 

Flestir Íslendingar fara til vinnu einir á einkabíl, með tilheyrandi umferðarþunga, slæmum loftgæðum og kostnaði, sem lendir á þeim sjálfum, vinnuveitendum þeirra og samfélaginu öllu. Þær ferðavenjur verða ekki skýrðar með landfræðilegri legu, veðráttu, þéttleika byggðar eða öðrum utanaðkomandi þáttum eins og dæmi frá nágrannalöndum okkar sanna, vandamálið liggur í hefðum og hugarfari. Fjölmargir aðrir faramátar eru í boði, svo sem að taka strætó, hjóla, ganga, skokka, fara á línuskautum eða í samfloti með öðrum, sem allir eru hagkvæmari, stuðla að bættri lýðheilsu og bæta umhverfi okkar.

 

Í byrjun apríl munum við senda bréf til allra stærstu fyrirtækja á höfuðborgarsvæðinu og skora á þau að taka upp samgöngustyrki fyrir þá starfsmenn sem kjósa að nota ekki einkabíla til ferða til og frá vinnu. Slíkur styrkur er ætlaður til þess að verðlauna þá starfsmenn sem ekki kæmu til vinnu á einkabíl og spara fyrirtækinu um leið talsverðan kostnað vegna bílastæða.

 

Fjölmargir Íslendingar fara á þessum tímum í gegnum gagngera endurskoðun á sínum útgjöldum og lífsstíl. Hóflegri notkun einkabíla gæti skilað flestum heimilum fleiri hundruðum þúsunda á ári hverju. Nú óskum við eftir liðsinni fyrirtækja í landinu við að hvetja og styðja starfsfólk sitt í heilbrigðari lífsvenjum, fyrir jafnt sál, líkama og buddu. Um leið gerum við almenningssamgöngur að samkeppnishæfari valmöguleika og höfuðborgarsvæðið okkar að betri stað til að búa á.

 

Fyrsta bréfið verður afhent samgönguráðherra fyrir utan samgönguráðuneytið að Tryggvagötu fimmtudaginn 2. apríl kl. 12.00. Við hvetjum ykkur til að mæta á staðinn og sýna málefninu samstöðu. Afrit af bréfinu má finna hér:

 

http://billaus.is/images/skjol/Billaus_Fyrirtaekjabref.pdf

 

Við hvetjum þá til að mæta sem vilja sýna málefninu samstöðu.

 

Einnig viljum við vekja athygli á því að umferðarráð er í dag nær eingöngu skipað fulltrúum þeirra sem eru akandi í umferðinni. Slíkt teljum við tímaskekkju og óskum við eftir því að okkar fulltrúi skipi einnig ráðið.

 

 

 

 


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Guðmundur Benediktsson

Já svei mér þá. Eftir ævintýri síðustu helgar líst mér bara vel á að hjóla meira og keyra minna!

Guðmundur Benediktsson, 3.4.2009 kl. 22:16

2 Smámynd: Anna Karlsdóttir

Hahaha - já þú stóðst þig sannarlega eins og hetja í keyrslunni - í leiðinda aðstæðum.  Við hefðum nú ekki farið þá ferð án bíls en hinsvegar miðast þessi umrædda hvatning til fyrirtækja um að koma á samgöngustefnu svona meira við ferðir innan höfuðborgarsvæðisins.

Anna Karlsdóttir, 4.4.2009 kl. 14:46

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband