Svar til Kiljunnar. Ég man vel eftir Oddnýju Guðmundsdóttur!

Ég horfði á einn af mínum uppáhaldsþáttum á Ruv, kiljuna þar sem að herra Bragi fór yfir ritasögu Oddnýjar Guðmundsdóttur farkennara og rithöfundar. Bragi hélt því fram að enginn myndi eftir Oddnýju á Íslandi í dag nema ef vera skyldi fjórar eldri konur eða eitthvað á þá leið. Mig langar að leiðrétta þetta.

Þegar ég var unglingur bjó Oddný endrum og sinnum hjá ömmu og afa á Raufarhöfn. Hún og afi voru andans systkini, gátu setið tímunum saman og rabbað og skrifað inni á skrifstofu á Sjónarhóli. Hún var kvikk í tilsvörum, fannst ég unglingurinn lítið forvitnileg, hégómleg að mestu og ég hló í laumi yfir því að þessi eldri skrýtna kona skyldi flétta sig eins og smástelpa. Fannst þó ekkert skrýtið að amma mín sem var örugglega ef eitthvað aðeins eldri var líka alltaf fléttuð. Ég var örugglega pínulítið abbó yfir því hvað Oddný og afi náðu vel saman inni á skrifstofu.

Oft kom Oddný blaðskellandi var búin að komast að einhverjum dýrindis sannleik sem hún varð að fá niður á prent. Hún var eftirtektarverð kona, enginn vafi á því.

Við frænkurnar lágum í krampa yfir bók hennar sem hét eitthvað á þá leið, slangur og önnur orðskrípi. Þetta var pólítískt sannleiksrit um gryfjur og gildrur í þróun íslensks málfars. Ég held að þetta sé einn af hápunktum gleðistunda minna unglingsára, þessi félagslegi lestur okkar frænkna.

 Þegar ég var 17 ára og var í sumarvinnu á elliheimilinu Grund bárust váleg tíðindi um að Oddný hefði verið keyrð niður á einu umferðargötu þorpsins. Hvernig gat slíkt gerst, í ekki umferðarmeira og stærra samfélagi? Steinunn Jóh, mamma æskuvinkonu minnar, ástríðufull að vanda, sagði við mig: Anna, ég held bara að þessir strákar hafi keyrt hana niður að ásettu ráði!

Ég vissi að Oddný var lögð í einelti af mörgum þorpsbúum, líkt og afi minn var á stundum fyrir að vera með skegg og sérlund sem einhverjum hugnaðist ekki, en í dag held ég að um slys hafi verið að ræða.

Ég man allavega vel eftir Oddnýju. Hún var frábær og skilur eftir sig ljúfar, skemmtilegar og góðar minningar í mínum huga. Og í sjálfsmynd minni er ég ekki gömul kona Bragi! 

 


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 identicon

Mér finnst nú ekki rétt að segja að afi og Oddný hafi verið lögð í einelti. Þau voru all sérstakar persónur, bæði tvö og óhætt að segja að það hafi verið gert góðlátlegt grín að þeim - en einelti er fjarri sanni. Hvað ákeyrsluna á Oddnýju varðar, þá á ekki að vera að ýfa upp gömul sár. Sá sem varð fyrir því að aka á gömlu konuna, hefur efalaust djúpt sár á sálinni. Oddný blessunin gekk gjarnan í dökkblárri Hekluúlpu og notaði gjarnan hettuna í stað húfu, sem byrgði henni sýn, auk þess sem hún var aldrei með endurskinsmerki. Að gefa í skyn að einhver hafi keyrt á hana af ásettu ráði finnst mér ljótt. Aðgát skal höfð í nærveru sálar!

Birna (IP-tala skráð) 7.2.2008 kl. 01:32

2 Smámynd: Anna Karlsdóttir

Elsku frænka

Þetta var ekki skrifað til að særa neinn. Mér finnst heldur ekkert fínt að ekki megi segja hlutina eins og maður upplifði þá, ég fer ekki með neinn endanlegan sannleik hér. Gott að fá smá útskýringar og ég tek fram að þetta hafi verið slys.  knús þín frænka.

Anna Karlsdóttir, 7.2.2008 kl. 12:03

3 Smámynd: Guðrún Vala Elísdóttir

Ekki vissi ég að þú ættir ættir (varð að skrifa þetta) að rekja til Raufarhafnar!

Guðrún Vala Elísdóttir, 7.2.2008 kl. 15:31

4 Smámynd: Anna Karlsdóttir

Ójú!

Anna Karlsdóttir, 8.2.2008 kl. 00:22

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband