Kennarar og nemendur sem skotspónar

Kennari á hvaða skólastigi sem er sem fremur þann glæp að gefa hagstæðar einkunnir gegn greiðslu á bæði að missa æruna og réttinn til að kenna. Að mínu viti er það svipaður glæpur og ef læknir skrifar út vottorð á (eitur)lyf fyrir sjúkling gegn betri vitund. Hvort heldur er kennarinn eða læknirinn er orðinn siðblindur og afvegaleiddur, búin að missa sjónar á takmarkinu með starfa sínum. 

Sem kennari lendir maður stundum í því að nemendur banka dyra og vilja fá mann til að endurskoða einkunnagjöf hvort heldur varðar prófniðurstöður eða einkunnagjöf fyrir lokaverkefni. Í þeim sporum lendir maður í því að þurfa að færa rök fyrir viðmiðunum að baki einkunnagjöfinni. Stundum er það einfalt ef um stigagjöf er að ræða t.d á prófum. Þegar um lokaverkefni er að ræða og ritgerðarsmíð, beiting aðferðafræði, rannsóknargögn og meðferð þeirra er matsefnið er samhengið oft heldur flóknara. Þá er ein vídd matsins huglægari heldur en svo að hægt sé einhæft að benda á gátlistann sem liggur til grundvallar einkunnagjöfinni. Maður þarf að geta fært góð og gild rök og gera sig skiljanlegan svo nemandinn hafi möguleika á að átta sig á hvort maður hefur lagt vandað mat til grundvallar einkuninni.

Ég met yfirleitt mikils þegar að nemendur vilja skoða frammistöðu sína og fá ígrundun fyrir mati kennarans á framlögðu verki og fá samtal um það. Mér finnst það bera vott um einlægan áhuga á eigin framlagi og oftar en ekki er hvatinn að spurningunni afhverju var ég metin(n) svona drifinn af þörfinni fyrir að skilja og jafnvel læra af mistökum, gera betur. Það finnst mér heilbrigð afstaða til náms.

En stundum er nemendum slétt sama um efnislegar röksemdir, vilja bara hærri einkunn, sama  hvað. Það á ég erfiðara með að sýna mikla virðingu, en ég hef líka lent í að gera mistök í yfirferð prófa, svo ég veit að mannlegi þátturinn spilar alltaf verulega inn bæði frá hendi kennara og nemenda.

Þá man ég að ég var grautfúl yfir að þurfa að fara aftur yfir tæplega 70 próf, en á eftir var ég líka miklu ánægðari - bæði af því að ég var búin að gera hreint borð, og vegna þess að ég hafði líka sjálf lært af þessum mistökum. Nemandinn átti reyndar svefnlausa nótt þegar hún áttaði sig á, eftir að hafa bent mér á yfirsjón mína, að það gæti ef til vill þýtt að einhverjir nemendur myndu falla. Svo fór nú ekki og hún gat unað vel við sitt. Ef ég man rétt voru tveir nemendur sem hækkuðu um hálfan í aðaleinkunn.

Ég hef aldrei lent í hótun af hendi nemanda nema einu sinni, sem betur fer. Í því tilfelli var um ærukæran erlendan nemanda að ræða sem sendi mér kansellískan email um að ef að ég gæfi sér ekki almennilega einkunn fyrir prófið myndi hann kæra mig. Ég verð að viðurkenna að eftir það átti ég erfitt með að sjá nemandann í réttu ljósi. Sem betur fer hafði ég ekki af honum að segja aftur. 

Annar nemandi grátbað mig um að hækka einkunn á þeim forsendum að hún gæti ekki komið heim til heldri gáfumanna tengdaforeldra sinna sem myndu fá staðfestingu á fordómum sínum um að hún væri bágur kvenkostur fyrir einkasoninn. 

Nemendur geta lent í að vera skotspónar en það geta kennarar líka. Grundvallarreglan hlýtur að þurfa að vera virðing, samviskusemi og réttsýni (kennarar verða til dæmis að átta sig á að þeir eru ekki að gefa einkunnir, þeir eru að meta eitthvað verk af hendi nemenda til einkunna). Á sama hátt eru kennarar ekki að meta persónuna eins og sumir nemendur halda, heldur verklega eða skriflegt framlag þeirra. Og þó það sé eitthvað sem maður sem nemandi tekur ákaflega persónulega eins og leikari eða rithöfundur sem fær dóm, er maður enn sama manneskjan með sömu möguleika og áður því framtíðin er í flestum tilfellum óskrifað blað. Maður er alltaf að læra, hvort sem maður er í skóla eða ekki, hvort sem maður er að kenna eða nema. 


mbl.is Hækkaði einkunnir gegn greiðslu
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Anna Karlsdóttir

Hún hefur nú greinilega ekki verið góður fulltrúi síns skóla eða haft mikla trú á eigin kröftum eða nemendanna fyrst hún sagði það.

Anna Karlsdóttir, 31.1.2008 kl. 22:20

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband