Færsluflokkur: Lífstíll

Flogið á vængjum sumarsins (væri flottara ef það væri vorsins)

Þrátt fyrir að vera ein án strákanna um þessar mundir er margt skemmtilegt að sýsla.

Helgin hefur sannarlega verið viðburðarík og full af skynhrifum og upplifunum. Eftir að hafa farið að skoða íbúð með Völu vinkonu og spjallað við hana yfir hvítvínsglasi á vegamótum um framtíðina, málningarvinnu og skemmtileg matarboð, hjólaði mín heim.

Einhverra hluta vegna er Rósa sambýlisköttur minn ekki alveg að uppfylla félagslega þörf mína um þessar mundir þannig svo að ég hjólaði yndislegan spotta meðfram nauthólsvíkinni yfir í skerjafjörð og sá hvernig sumarið fer með ungviðið sem dansaði fjöruglega við logandi varðeld á ylströndinni og naut lífsins (mér sýndist þetta vera allt í sómanum, allir að skemmta sér).

Lykthrifin bárust að vitum mér á leiðinni og það eru gæði hjólamannsins, að þau skiftast, sætur keimur blómanna berst í vitin, grasið og hvönnin hafa annan og svo mætti lengi telja og úr verður besta sinfónía vitanna. Ekki er verra að vera með góða tónlist í eyrum - þá líður mér eins og fugli, frjálsri - er einhvern veginn að lifa í botn.

Við tók spjall við Pálma og Sigrúnu fornvini mína um lífið og tilveruna og skrýtnar aðgerðir borgarinnar í bakgarðinum...fram á nótt.

Sumarnóttin er þögul við Nauthólsvíkina - ég flaug tilbaka á hjólinu, hélt að klukkan væri rétt eftir miðnætti en leit á klukkuna...úps, hún var að ganga fjögur.

Í gær fórum við Sigrún Birgis síðan í fjallaferð, nánar tiltekið í anddyri Höfuðborgarsvæðisins og gengum á Hengilssvæðinu í nokkra klukkutíma. Þar var ægifagurt og jarðhitaholurnar hvissuðu og hvæstu, einar um að rjúfa friðinn í ólíkum dalverpum.  Við enduðum síðan á að borða nestið okkar í laut og horfðum á ægifagurt útsýni að Skeggja og í hina áttina til Þingvallavatns. Veðrið var með besta móti, sól að mestu og hlýtt. Við völdum Fræðslustíginn í gegnum Dyradal. Hittum engann nema nokkra ferðamenn á einstaka útsýnispöllum og svolítið rjátlulegar kindur sem að hefðu þurft rúningu. Ég mæli með því að fara ekki of langt yfir skammt, og fá útrás fyrir hreyfiþörfina í þeim mörgu göngumöguleikum sem að svæðið býr yfir.

Fra_dyradal Eftir að hafa legið eins og skötur og notið lífsins í sundlauginni í Laugaskarði í Majorka veðri var stefnan tekin á þokulagt Reykjavíkursvæðið í dásamlegt matarboð hjá Heiðu sætu og Einari - þar sem urðu ánægjulegir endurfundir við menntaskólavinkonur ásamt öðru góðu fólki.

Í millitíðinni höfðum við Sigrún komið við í nýrri íbúð hennar sem er með útsýni yfir gömlu höfnina, eitthvað sem að kitlaði sjóntaugar mínar. Ég elska að horfa yfir hafnir og ekki er verra skoða mannlífið í leiðinni. Hópur fólks var að koma tilbaka úr hvalaskoðun með Eldingu. Það var gaman að sjá höfnina svona lifandi, þó á nýjum forsendum væri.

Þá var stefnan tekin á ölstofu Kormáks og Skjaldar þar sem margt var um manninn og nokkuð af kunnuglegum andlitum, auk vina. Skrýtið samt hvað maður nær lítið sambandi við fólk svona til að eiga einhverjar vitrænar samræður. Ég ílentist út í reyktjaldi þar sem gömul skólasystir úr menntaskóla söng og gerði grín. Önnur (líka gömul skólasystir) bættist í hópinn og fór mikinn (mikill húmoristi þar á ferð). Sú fyrrnefnda byrjaði þá að segja mér að hún hefði í mörg ár reglulega mætt á ölstofuna til að finna ástina og eftir að vera algjörlega búin að missa vonina, hefði hún nú loks fyrir stuttu hitt mann sem að hefði snortið hana í hjartastað (úti í tjaldinu). Hún var algjört kjútípæ þegar hún var að segja frá þessu. Ég eins takmörkuð og ég er, á samt erfitt með að sjá sjálfa mig vera svona þolinmóða. Mörg ár! Mér finnst að auki þessi rammi (þ.e barinn og umgjörð hans) ekki alveg vera staðurinn þar sem maður bara hittir þann rétta. En hver veit.

Í dag skellti ég mér í kolaportið og kom út klyfjuð...af bókum. Mér er ekki bjargar auðið, þegar ég kemst í bækur. Fann tvær ferðasögur, aðra frá nítjándu öld um Íslandsferð Dufferin lávarðar og er nú alveg djúpt sokkin í hana, aðra eftir danskar konur tvær frá fjórða áratug tuttugustu aldar. Ég fann að auki algjöran dýrgrip um síldarsögu Íslendinga.

Ef þetta heldur svona áfram enda ég á því að þurfa að borða bækur.

Í lok síðdegisins fór ég að sjá heimildarmyndina Kjötborg í Háskólabíói. Það er ekki oft sem ég er stolt af að vera Reykvíkingur en svo snart þessi mynd mig að ég kom gangandi út stolt sem páfi yfir  því að í borginni okkar er griðastaður og sölustaður sem sameinar bæði mannkærleik og viðskipti. Gunnar annan kaupmannanna þekki ég úr æsku minni, við vorum nágrannar þegar ég var unglingur. Gunnar og Inga kona hans eru yndælisfólk og eljusemi þeirra bræðra er til að vera stoltur af. Ég þekki svosem líf hornkaupmannsins af eigin raun sem unglingur þar eð pabbi minn rak Birkiturninn ásamt félaga sínum til margra ára. Ég kynntist mörgum Vesturbæingnum á þeim árum þar sem ég hímdi í lúgunni og afgreiddi. Margt af því fólki sem kom fram í myndinni kynntist ég einnig þar. Þeir félagar gáfust upp á rekstrinum þegar að magninnkaup urðu reglan og lítil sjoppa mátti sín lítils í samkeppni við stórmarkaði og vídeóhallir. Birkiturninn er nú blómabúð (var áður bæði söluturn og blómabúð), og byggi ég í þeim enda bæjarins væri ég reglulegur gestur, enda mjög háð blómum og yndisauka þeirra.

Óvæntar gestakomur á reykvískum heimilum heyra orðið undantekningana til, en svo heppin var ég að eftir kvöldmat var hringt á dyrabjöllunni uforvarendes. Þar stóðu Helgi og Tóta sem höfðu verið að viðra nýju vespuna í fjölskyldunni. Ég heppin! Spjall yfir kaffibolla, hlátursrokur og gamanmál.

Þetta hefur greinilega bara verið annasamasta helgi eftir allt. Sannarlega flogið á vængjum sumarsins (oh bara að þessi árstíð væri lengri). 


Why not!

 Oh, sólin hefur thessi áhrif á mig, mig langar í ný föt......og mig langar alveg rosalega í brjóstahaldara med sólarcellum!Grin  en mig langar líka í fleiri gardljos med cellum.

Án efa myndi sumum konum thó henta betur ad hafa cellurnar á lærunum eda rassinum frekar en vid barminnTounge Körlunum færi betur ad hafa cellurnar á skallanum!Wink


mbl.is Sólarorkubrjóstahaldari
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Costa del Steypa

Ég hef aldrei orðið vör við að danskar vinkonur mínar létu aftra sér að vera berar að ofan í sólbaði við strendurnar. Ég er hinsvegar svo brjóstastór frá náttúrunnar hendi að ég mér hefur aldrei almennilega liðið vel að vera berbrjósta á ströndinni.

Að vera berbrjósta í sundlaugum, sem í Danmörku eru flestar innandyra og hundkaldar, get ég ekki alveg séð að sé frábær mótívation til að sýna fram á "JAFNRÉTTI" með því að bera sig. Það mun ekki hafa áhrif á mig svosem en ég sé berlega fyrir mér að tútturnar mæta sem leggja mikið í að sýna sig og sjá aðra.

Danir og kynlífsfrelsið er annars kapítuli útaf fyrir sig. Við Íslendingar erum hreinlega algerar teprur við hliðina á þeim.

Ég hélt ég væri orðin ein af þessum ósýnilegu miðaldra konum sem lufsast bara svona áfram einhvern veginn, en lenti í því í gærkvöldi að ungir karlmenn uppúr tvítugu hópuðust í kringum mig og sýndu frekar aktívan áhuga á einhverju öðru en bara kurteisislegu spjalli. Ég verð að viðurkenna að þetta var nú bara svolítið hressandi fyrir egóið. En innri rödd skynseminnar hrifsaði í mig um leið, ég fór að hugsa um bíómyndina Mr.Robinson og bíómyndina hans Erly vinar frá Brasilíu um brasilískar hefðir af þessu taginu. Mér varð bara ekkert um sel, ætla nú ekki að fara að bendla mér við pædófílu.  Í augum dananna (Sören var sárhneykslaður á mér) var ég afskaplega tepruleg við aumingjans strákana.


mbl.is Konur mega bera brjóstin í Kaupmannahöfn
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Godar frettir fra Vitoria i Espirito de Santo Fylki

Tha er eg buin ad eyda yndislegum dogum her hja gestgjofum minum Eduardo og Erly sem hafa hreinlega borid mig a hondum ser. Vid forum i klaustrid  a toppi Vilha Velha i eftirmiddaginn i dag, og i gaer var eg a frabaerum paskatonleikum filharmoniusveitar borgarinnar i domkirkjunni med nokkrum kunningjum hedan.

Brasiliubuar eru vinalegir og sjaldan hef eg sed eins mikla floru af fallegu folki, blendingjum margra olikra kynthatta og thjoda. Staersta japanska samfelag heims utan Japans er til ad mynda i Sao Paulo.

Leonardo er fertugur i dag, hringdi i hann thar sem hann var uti ad borda med bornum og fjolskyldu. Eg spurdi hann hvernig honum lidi og hann sagdi: Eg er hraeddur. Skrytid! Eda hvad...mid-life crisis!? Eg huggadi hann og sagdi ad thessi tilfinning hlyti ad lida hja.

Her er margt skrytid. Andarnir shasha sem bua i bambusvidnum, loftkaelingarkassar utan a husunum sem likjast fuglaburum, saltfiskur i oll mal af thvi ad nu er paskafastan i gangi, eg tala til skiptis hrafl-spaenskuna mina og ensku og reyni af ollum maetti ad skilja portugolskuna. Eduardo er ad sannfaera mig um ad ef eg bui her i thrja manudi verdi eg alveg rosa god. Thad var half fyndid atridi ad kona ein fadmadi mig i Domkirkjunni og helt mig vera fraenku sina. Thad sannfaerdi hann um ad eg vaeri naestum ordin brasilisk, sjaum til med thad.

Her hjolar madur fram hja a hverjum degi med risa hatalara sem spyr ut kristilegum arodri af bogglaberanum. Her ma vart a milli sja hvor hefur betur i samkeppninni um vinsaeldir, Walmart megamarkadurinn eda Stora kirkjan krists og fodur hans sem er med risahof vid hlidinna og heldur uti sapuoperusjonvarpsstod til ad tryggja vinsaeldir sinar.

Mer likar thad brot vel sem eg hef sed, verndud sem eg er, en atta mig betur og betur a, ad Brasilia er eins og BNA, margskipt, margbrotin og stor verold. Her bua um 190 milljonir af ollum kynthattum, og hvert fylki er a vid eitt evropskt storriki eda svo. Espirito de Santo fylki sem eg er i nuna er t.d a vid Portugal, Sao Paulo fylki vaentanlega a vid baedi Thyskaland og Span, og Minah Gerais sem eg fer til bradum er a vid Frakkland ad staerd.

Gledilega Paska til Islands. 


Namminamm!

Ég hef undanfarin ár alltaf farið út að borða mér til mikillar ánægju undanfarin ár þegar FOOD and FUN hefur staðið yfir.

Fyrstu árin lagði ég áherslu á að smakka mat kvenkokka eða þeirra sem lögðu áherslu á staðbundin matvæli, helst lífræna framleiðslu eða eitthvað í þeim stíl.

Ég hef aldrei orðið fyrir vonbrigðum. Bærinn og veitingahús iða á meðan á þessum viðburði stendur.

Baldvin og Siggi Hall og allir aðrir sem hafa lagt hönd á plóg sem eru býsna margir eiga hrós skilið fyrir þennan viðburð sem glæðir Reykjavík lífi.

Nú bregður svo við að ég fer væntanlega ekki - enginn hefur gefið kost á sér að snæða með mér, og ég hef einfaldlega ekki pantað borð vegna eigin anna. ..........

OG ÞÓ

Ég fór í gær á skandinavískt hlaðborð og borðaði dýrindis gellur í norræna húsinu með samstarfsfólki. Namminamm, það var gott. Í norræna húsinu fer nefnilega fram matarhátíð í mörgum víddum sem heitir Mat och lust Festival - eða - Ný norræn matargerðarlist Festival 17-24.febrúar.

tn_CIMG0505

Þar er bæði hægt að njóta rétta gegnum munninn og eyrun! rosa skemmtilegt!

Ég fer þó tæpast á hina hefðbundnu food and fun þar eð ég var ekki búin að gera ráðstafanir, en er þó opin fyrir öllu ef einhver afpantar. Þá vitið þið það gott fólk.

Megi snæðingurinn verða góður.


mbl.is Búist við að 25 þúsund manns taki þátt í Food & Fun 2008
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Aðgát í nærveru sálar!

Ég hugsa að maður leiði of sjaldan hugann að því að maður skyldi hafa aðgát í nærveru sálar. Ég er oft sjálf auðsærð, þó ég láti ekki á því bera. En ég held líka að maður eigi að vera einlægur og trúr sjálfum sér og sannfæringu sinni. Hún er vandfarin sú lína að feta að vera bæði hreinskilinn og nærgætinn. En það er gott takmark að hafa.

Flest sem maður upplifir sem einstætt foreldri er ekki til þess fallið að auka traust manns á umburðarlyndi samfélagsins eða nærgætni. Ég var t.d stödd með syni mínum hjá tannréttingasérfræðingi og bara heimsóknin í morgun, kostaði 44 þúsund krónur. Þetta er mánaðar fæðispeningur fjölskyldunnar!

Ég verð að viðurkenna að mig langaði bara mest til að fara að gráta, en gerði það auðvitað ekki. 

Það sem er gott í heimi hér og eykur manni traust á að samfélagið sé ekki svo slæmt þrátt fyrir allt er einlægt fallegt bros á förnum vegi. Ég upplifði það áðan í fokinu.  Það er einhvern veginn ekki annað hægt en að brosa að veðrinu í augnablikinu og gefa fótgangandi hvetjandi augnaráð.

Það sem er best í heimi er gott faðmlag, hrós stöku sinnum og gott hláturskast.

Og svo mannleg samskipti! 

Vona að allir fái það stöku sinnum - því það er vegur upp öll ógætileg orð eða viðtökur. 


Vettlingaþurrð í kuldanum!

Það er eins með sokkana og vettlingana. Það er eins og þeir gufi upp. Ég hef fyrir löngu komið fram með þá tilgátu að ég ætti gráðuga þvottavél sem endrum og sinnum gæddi sér á sokkum.

En nú er annað uppi á teningnum. Vettlingarnir hans Elíasar hverfa bara út um dyrnar. Í síðustu viku fóru tvö pör, vikuna þar áður ég veit ekki hvað mörg. Þegar gengið er á drenginn er hann alltaf með mjög loðin svör - þeir voru svo blautir - er algengt svar. Þegar gengið er meira á hann verður hann pirraður og segir mig alltaf vera að með ágengar spurningar. Það er ekki á vinsældalistanum.

Svo flýgur hann út um dyrnar með næsta par. Ég verð ægilega fegin þegar vettlingatímanum er lokið og ég get farið að hafa áhyggjur af öðruWink

Já það er flókið að lifa í henni versu!


Arfa-lélegar ferðaauglýsingar! Part I

Ég skil hreinlega ekki hvaða auglýsingastofur vinna fyrir sumar ferðaskrifstofur. Það eru greinilega ekki frjóustu hausar þeirra sem fá að krafsa í ferðaauglýsingar.

Ein þessara arfalélegu auglýsinga birtist frá ferðaskrifstofunni Úrval Útsýn í blöðum í morgun. Það er eins og skrifstofan telji mögulega viðskiptavini og ferðamenn á þeirra vegum einhverja grasasna. Eins gefa þeir sig ekki út fyrir að vita allt of mikið um áfangastaðinn sem þeir eru að auglýsa ferðir á samanber mynd að neðan.

Sjá baksíðu fréttablaðsins

Hið athyglisverða er að titill auglýsingarinnar er framandi fegurð í Tyrklandi. En ekkert á myndinni gefur til kynna framandi fegurð. Stelpan sem er voða flott í bikini virðist nýstiginn út úr brúnkukremssprautun og hið ægilega spennandi land sem á að fara til birtist í klettagarði við strönd, það er allt. Stelpan hrukkar sig meira að segja á nefinu á meðan hún heldur á skilti sem á að sýna hvað það eru mikil kostakaup í að fara til Tyrklands. Andlitsviprurnar gefa til kynna að hún sé að blöffa, plata viðskiptavininn til að fara á auðnulega strönd þar sem ekkert er nema ef vera skyldi einmana pálmatré, stórskorinn brúnkusprautaður norðurlandabúi og ef til vill ævintýramaður í fallhlíf við sjóndeildarhringinn. Mér sýnist meira að segja bakgrunnurinn bara vera lélegt leiktjald sem aumingja stúlkunni hefur verið komið fyrir framan á meðan á myndatöku stóð.

Ekki beinlínis til þess fallið að freista fólks - eða fá það til að taka spennu-andköf..Váaa! 

En hvernig ætli Tyrkir sjálfir auglýsi Tyrkland?

Turkeyimage Turkish Airlines auglýsir Tyrkland á fornum siðmenningum, arfleifð og horfna tíma (annars staðar). Verið er að vísa til þess að tíminn hafi staðið í stað og þannig verið að höfða til nostalgíu fólks um friðsæld, anda horfinna tíma. Horfðu aftur í tímann - Turkey welcomes you.

        Tyrkietimage                                   Eitthvað annað en brúnkusprautuð stelpa frá Íslandi í forgrunni.

Danir auglýsa meira að segja Tyrkland í ljósi þess að þar sé hægt að næra andann. Soulferie, segja þeir.

Ferðamálaráð Tyrklands leggur meira uppúr menningu, innviðum, náttúru en trash-túrisma sem íslenskar sólar-ferðaskrifstofur virðast vera svo hrifnar af.

Velkomin til Tyrklands

Hvað er eiginlega að íslendingum og lítið björtum hausum auglýsingastofa. Er þetta kuldinn og veðrið úti sem gerir auglýsingamenn svona bjartsýna á að neytendur muni bara gleypa við feiklegri freistingaauglýsingu!

Standið ykkur betur í framtíðinni! Neytendur sjá í gegnum svona húmbúkk! Sýnið ferðaskrifstofur að þið búið yfir þekkingu í staðinn fyrir svona skrum. Vekjið áhuga fólks með innihaldi fremur en yfirborði.

Auglýsendur vinnið vinnuna ykkar betur!


Góð fyrirheit

Ég var svo stolt af mér í gær. Ég mætti í ræktina og fór í sund! Jibbí janúar er byrjaður og nú þýðir ekkert annað en að láta sitt ekki eftir liggja. Ég er reyndar engin aerobic drottning og verð seint, þigg frekar góða sveiflu eins og salsa- eða Jóga til að vinda ofan af sér og hlaða andlegri orku upp.

 Eitt af áramótaheitunum í ár var að gera allavega einu sinni á dag jógaæfingar - fyrir líkama og sál.

Ég fann þetta á netinu og set það hér

- þó að maður eigi að muna að maður er manns gaman og að það er miklu skemmtilegra að mæta í leikfimisalinn og bugða sig og beygja en að standa fyrir framan tölvuskjá og gera slíkt hið sama.

toditruþur


Samskipti kynjanna sífelld áskorun.

ýmislegt í samtölum kvöldsins fengu mig til að hugsa farin veg. Samskipti kynjanna þegar kemur að tilfinningalegum tónum er sífelld áskorun. Ég hef upplifað ýmislegt í þeim efnum, örugglega ekkert meira eða merkilegra en hver annar, en hef auðvitað ekki farið varhluta af blekkingum, ástar tilburðum, óhreinskiptum samskiptum og svikum líkt og væntanlega margir aðrir.

Þegar maður blindast af ástarsorg er erfitt að skilja milli þess sem er og þess sem var, hvað var sagt, hvernig hegðunin í samskiptunum var ef til vill í hrópandi ósamhengi við staðhæfingar. Það er segin saga. Stundum finnst mér eins og lífið og það sem ég verð vitni að í samskiptum kynjanna í raunverulegu lífi sé mun kryddaðra en nokkur skáldsaga.

Við erum öll tilfinningaverur og ef eitthvað er særandi er það þegar ástvinir sem treyst var á koma illa fram við mann, eru ekki heiðarlegir, fara á bak við mann. Ástin er flókin en ef hún er sönn fer maður alla leið og engar refjar (sorrý, ég er pínulítið frumstæð hvað þetta varðar). 

Ég er sem betur fer ekki í þeirri aðstöðu í dag en hlusta auðvitað á vini og vandamenn sem eiga í slíku. Maður á að hugga og styðja þá sem manni þykir vænt um. Annað er aumingjaskapur.

Við erum auðvitað fyrst og fremst tilfinningaverur þegar kemur að tilfinningamálum. Það er einungis heilbrigðisteikn að gráta þegar maður hefur verið særður, örvænta þegar maður skilur ekki. Það er miklu betra að hreinsa út, tala en að byrgja innra með sér, verða bældur og skorpinn.

Tölum um hlutina, hreinsum til, lifum í reisn og leyfum okkur að vera manneskjur meðal manneskja.

En umfram allt verum einlæg og sönn, jafnvel þó það geti verið sárt - en þá er líka búið að stinga á helv.meinið. 


« Fyrri síða | Næsta síða »

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband